Kvikmyndamiðstöð Íslands (KMÍ) hafnar því að litið sé niður á gamanmyndir þegar kemur að úthlutun styrkja til kvikmyndaverkefna.
Gísli Snær Erlingsson forstöðumaður segir Kvikmyndamiðstöðina þjóna öllum. „Þetta er eins og með áramótaskaupið – sumum finnst það fyndið og öðrum ekki fyndið,“ segir Gísli en tilefnið er viðtal Eggerts Skúlasonar við handritshöfundana, leikstjórana og framleiðendurna Þorkel Harðarson og Örn Marinó Arnarson í Dagmálum Morgunblaðsins. Kvikmyndagerðarmennirnir ræddu þar nýjustu kvikmynd sína, Guðaveigar, sem frumsýnd var á annan í jólum. Gefa þeir úthlutunarferli styrkja KMÍ falleinkunn.
Sagði Þorkell rökstuðning hafa fylgt umsögn frá Kvikmyndamiðstöð um verkefni það sem varð að Guðaveigum. Handritið hefði ekki verið fyndið og að enn væru þeir félagar að smætta og jaðarsetja konur í myndum sínum. Því hafnaði hann alfarið og benti á að konurnar í myndum þeirra væru valdamiklar, t.d. biskupar og lögreglustjórar, á meðan karlarnir væru að mestu vitleysingar sem hægt er að hlæja að.
Þorkell og Örn hafa framleitt og/eða leikstýrt sex gamanmyndum á síðustu misserum en ekki notið velvildar Kvikmyndamiðstöðvar – fengið synjun við öllum beiðnum utan einnar þar sem þeir kreistu út lágmarksstyrk langt undir því sem til þurfti að sögn Arnar. Sagði Þorkell fjöregg kvikmyndaiðnaðarins stropað og vísaði þar til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.
Hefur skilning á óánægjunni
Gísli Snær kannast ekki við orðalagið í rökstuðningi með umsögninni og ítrekar að Kvikmyndamiðstöð mismuni ekki sögum í umsóknarferlinu. „Enda ertu þá kominn nálægt því sem kallað er ritskoðun sem við stundum ekki.“ Segist hann þó hafa fullan skilning á óánægju þeirra. „Þetta eru ekki auðveldir fundir að taka og maður þekkir margt af þessu fólki. Þess vegna er svo mikilvægt að við fylgjum því að vera algjörlega fagleg,“ segir Gísli.
Hann segir ótal ástæður fyrir synjunum og að hvert verkefni sé einfaldlega metið út frá forsendum þess og styrkleikum eftir ákveðnum matsgrunni sem birtur verður á nýrri væntanlegri heimasíðu KMÍ. olafur@mbl.is