Grétar Sigurbjörnsson fæddist í Sandgerði 9. mars 1959. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 2. janúar 2025.
Foreldrar Grétars eru hjónin Sigurbjörn Jónsson, f. 1907, d. 1987, og Inga Guðlaug Helgadóttir, f. 1933. Eftirlifandi systkini Grétars eru Helgi, f. 1957, Guðfinna, f. 1969, og Ólafía, f. 1938. Látin eru Hafsteinn, f. 1937, d. 2023, Helga, f. 1933, d. 2013, Halldór Jón, f. 1933, d. 1983, og Margrét Birna, f. 1942, d. 2018.
Eftirlifandi eiginkona Grétars er Sesselja Svavarsdóttir, f. 1962. Börn Grétars eru Inga Birna, f. 1982, Svavar, f. 1985, Sigurbjörn, f. 1988, og Halldór Jón, f. 1995. Barnabörnin eru tólf.
Grétar ólst upp á Fróni í Sandgerði og fór snemma til sjós, spilaði lengi vel fótbolta, þá aðallega með Reynismönnum. Grétar starfaði um árabil í byggingageiranum, frá 1996 til ársins 2009, en þá hóf hann störf við Sandgerðishöfn þar sem hann var allt fram til dánardags.
Útför Grétars fer fram frá Sandgerðiskirkju í dag, 15. janúar 2025, klukkan 13.
Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn)
Það er komið að kveðjustund, kæri vinur og frændi.
Minningar sækja á hugann, minningar um liðna daga. Við Grétar ólumst upp á Brekkustíg í Sandgerði, hann á Fróni, ég í Fagurhól. Mæður okkar voru systur og æskuárin eru í minningunni yndislegur tími.
Grétar frændi var sterkur persónuleiki, mikill leiðtogi, traustur, hjálpsamur og jákvæður.
Hann ásamt Helga bróður sínum reyndist okkur systkinunum mjög vel, með að hafa eftirlit með Steina bróður þegar hann var orðinn einn í húsinu sínu í Sandgerði. þetta var eitt af verkefnunum sem Grétari þótti sjálfsagt að hjálpa með, að hlúa að þeim sem minna máttu sín.
Grétar giftist æskuvinkonu minni henni Sessý. Þau voru einstaklega góðir og traustir félagar. Undanfarin ár höfum við fjögur notið þess að ferðast saman bæði innanlands og utan. Toppurinn verður samt ferðirnar á besta jeppanum um fjöll og heiðar. Þar naut hann sín vel enda enda mikill áhugamaður um náttúruna, svo ekki sé minnst á veiðistaðina eða kindurnar.
Mikið á ég eftir að sakna þín, sakna samverustundanna, veiðiferðanna og að heyra þig koma inn og kalla hátt: „Hæ frænka, áttu kaffi handa frænda!“
Elsku Sessý mín, þinn missir er mikill, ég votta þér og börnunum ykkar okkar dýpstu samúð.
Ragna B.
Aðalbjörnsdóttir.
Mig langar að minnast kærs föðurbróður míns sem lést skyndilega, aðeins 65 ára gamall. Missirinn er sár og óvæntur og hjarta mitt er með fjölskyldu hans á þessum erfiðu tímum.
Hann var einstök manneskja – alltaf hress, kátur og fullur af lífsgleði. Hann var einstaklega frændrækinn og ég á ótal góðar minningar af heimsóknum hans til mín. Þessar heimsóknir voru ekki bara samverustundir, þær voru fylltar hlátri, sögum og hlýju sem lýstu upp hversdagsleikann. Hann hafði einstakt lag á að gleðja fólk í kringum sig og mér þykir ómetanlegt að hafa átt svona góðan vin í honum.
Ég á eftir að sakna þessara heimsókna – þess hláturs, hlýju og skemmtilegu augnablika sem við áttum saman. Þó er ég þakklát fyrir þær stundir sem við deildum og fyrir allt sem hann kenndi mér, beint eða óbeint, um mikilvægi samheldni og gleði.Missirinn er mikill fyrir mig, en hann er ennþá dýpri fyrir fjölskyldu hans. Hugur minn er hjá þeim á þessum tímamótum og ég vona að samverustundirnar sem við eigum í minningum um hann geti veitt okkur styrk og frið.
Hann var einstök manneskja og verður sárt saknað. Megi minning um hann lifa áfram í hjörtum okkar allra.
Kveða frá frænku.
Svandís Edda Halldórsdóttir.
Fregnin um að Grétar frændi væri látinn var okkur systkinum mikið áfall. Á slíkum stundum skilur maður hversu viðkvæmt og dýrmætt lífið er.
Við sitjum hér systkinin saman og horfum yfir farinn veg og rifjum upp sögur af Grétari frænda. Hlæjum og grátum til skiptis. Að skrifa minningarorð er auðvitað í flestum tilfellum erfitt en þegar um skyndilegt fráfall er að ræða er maður engan veginn tilbúin. Hér á því vel við frasinn að gera langa sögu stutta því við getum endalaust rifjað upp skemmtilegar sögur af uppáhaldsfrænda okkar.
Grétar hafði þann einstaka eiginleika að koma inn í rými og fylla það orku. Hávær röddin og smitandi prakkarahláturinn hans lifði lengi í rýminu eftir að hann fór. Góða orkan hans sogaði að sér börnin okkar sem hann prakkaraðist í líkt og hann gerði við okkur þegar við vorum börn. Grétar frændi var alltaf svo áhugasamur um allt sem við vorum að gera og hann gaf öllum tíma og athygli. Það er einmitt þess vegna sem Grétar var svo vinmargur og stór einstaklingur í samfélaginu. Það þekktu hann allir.
Grétar bjó yfir einstökum frásagnarhæfileika og það var svo gaman að hlusta á hann segja sögur. Hann bjó yfir mikilli visku liðinna tíma og honum var annt um að halda fjölskyldusögum og fjölskylduböndum lifandi. Það verður skrítið að hitta ekki Grétar frænda í fjölskylduboðum eða þegar hann rak nefið inn um gættina í kaffisopa með beljumjólk eins og hann kallaði það. Við erum lánsöm að hafa fengið að verða samferða Grétari í gegnum árin okkar.
Við ysta haf, þar sem vagga þín stóð
í veröld sólbjartra daga,
var mörkuð og skírð þín
manndómsleið
og mótuð þín ævisaga.
Við söngvablæinn og lindaljóð
var létt yfir svipnum bjarta
þar gafst þú lífinu heilög heit
af hreinleik hins unga hjarta.
Þó vegir skiljist um stutta stund
og stormarnir feyki í sporin
þá lifir hver minning svo ljúf
og hlý
og ljóminn um bernskuvorin.
Við mætumst aftur í morgunsól
þegar mjúkþeyrinn andar
um geima
þá göngum við frændi á
grænni jörð
um gömlu slóðirnar heima.
(Valdimar Hólm Hallstað)
Við kveðjum Grétar frænda með mikilli eftirsjá og djúpri sorg en jafnframt með miklu þakklæti fyrir samfylgdina í gegnum lífið. Missir okkar allra er mikill.
Við vottum Sessý, börnum hans og fjölskyldum, systkinum Grétars og ömmu Gullu innilega samúð okkar. Minning um Grétar frænda mun alltaf lifa með okkur.
Inga Guðlaug (Gulla), Ragnar Veigar (Raggi) og Sigurður Freyr (Diddi).