Svanur Hvítaness Halldórsson leigubílstjóri fæddist í Reykjavík 1. mars 1935. Hann lést á hjúkrunarheimilinu í Boðaþingi í Kópavogi 18. desember 2024.
Foreldrar hans voru hjónin Svava Jónsdóttir húsfreyja frá Geitavík á Borgarfirði eystra, f. 24.4. 1909, d. 4.1. 2001, og Halldór Pjetursson, skrifstofumaður og rithöfundur, frá Geirastöðum í Hróarstungu á Héraði, f. 12.9. 1897, d. 6.6 1989. Bróðir Svans var Hörður viðskiptafræðingur, f. 26.10. 1933, d. 27.8. 2009.
Hinn 1. mars 1956 giftist Svanur eftirlifandi eiginkonu sinni, Jóhönnu Jóhannsdóttur, f. 12.9. 1935 á Þórdísarstöðum, Eyrarsveit í Grundarfirði. Foreldrar hennar voru Svanborg Rósamunda Kjartansdóttir húsfreyja í Vindási í Eyrarsveit, f. 23.1. 1916, d. 18.10. 2011, og Jóhann Ásmundsson bóndi á Kverná í Eyrarsveit, f. 7.3. 1915, d. 22.1. 1982.
Börn Svans og Jóhönnu eru: 1) Halldór húsasmíðameistari, f. 14.9. 1955. Eiginkona hans er Jóhanna Elka Geirsdóttir, viðurkenndur bókari, f. 28.2. 1956. Börn þeirra eru Svanur Snær, f. 1978, Sigurður, f. 1981, Elka, f. 1986, og Rúna, f. 1994. 2) Svava hjúkrunarfræðingur, f. 4.1. 1958. Eiginmaður Jesper Viskum Madsen, fv. sparisjóðsstjóri, f. 2.2. 1957. Dætur þeirra eru Tinna, f. 1986, og Freyja, f. 1996. Dóttir Svövu af fyrra hjónabandi er Jóhanna Gísladóttir, f. 1977. Faðir hennar er Gísli Sæmundsson, f. 29.6. 1956. 3) Vilhjálmur dýralæknir, f. 3.4. 1960. Eiginkona hans er Áslaug Jónsdóttir mynd- og rithöfundur, f. 31.3. 1963. Dóttir þeirra er Kristjana, f. 1993. Dóttir Vilhjálms og Sigrúnar Ögmundsdóttur, f. 4.7. 1959, d. 29.10. 2024, er Vera, f. 1983. 4) Svanborg leiðbeinandi, f. 15. 6. 1962. Eiginmaður hennar er Bergur Brynjar Álfþórsson leiðsögumaður, f. 20. 7. 1964. Börn þeirra eru Alex Álfþór, f. 1990, Hekla Eir, f. 1994, og Nökkvi Freyr Hvítaness, f. 1999. Dóttir Svanborgar og Ágústar Jósefs Jónssonar, f. 6.11. 1959 er Hera Ágústs Bergsdóttir, f. 1980. 5) Jóhann Dagur bakari, f. 21.1. 1971. Dætur hans og fv. eiginkonu, Randíar Guðmundsdóttur, f. 20.11. 1968, eru Aníta Björk, f. 1992, og Jóhanna, f. 2000.
Fyrstu æviárin bjó Svanur á ýmsum stöðum í Reykjavík en árið 1946 flutti fjölskyldan að Snælandi II í Kópavogi. Á yngri árum vann Svanur ýmsa verkamannavinnu en síðar við stjórn þungavinnuvéla. Meðfram þeirri vinnu stundaði hann klassískt söngnám hjá m.a. Sigurði Demetz. Árið 1955 hóf Svanur akstur leigubifreiða, lengst af á Hreyfli allt þar til hann hætti akstri 76 ára gamall.
Svanur var félagshyggjumaður að lífssýn og var á sínum efri árum virkur í félagsstarfi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Hann var einn af stofnfélögum í hestamannafélaginu Gusti í Kópavogi og í stjórn félagsins um árabil. Hann var reiðmaður góður og hélt hesta alla sína tíð.
Útför Svans fer fram frá Digraneskirkju í dag, 15. janúar 2025, klukkan 13.
Þegar við hjónin komum heim frá útlöndum á námsárunum beið okkar ævinlega við flugvöllinn bjartraddaður tengdafaðir minn og bauð okkur velkomin heim. Við settumst fegin upp í stífbónaðan leigubílinn og bílstjórinn spilaði klassíska tenórsöngva, tók kannski aðeins undir sjálfur og spurði almennt um flugferð og heilsu. Allt gekk vel, allt gott að frétta, takk. Þá vék talið snarlega að því sem stóð hjarta hans næst: nánum ástvinum, sem stundum voru ekki við hestaheilsu. Það stóð illa á hjá hinum eða þessum – einhver var með ókennilegan hósta, annar draghaltur. Áhyggjufull spurði ég frekari frétta, ósköp væri að heyra af fólkinu! En það voru þá hestarnir, sem talinu var vikið svona brátt að, en þeir báru sumir mannanöfn, jafnvel nöfn fjölskyldumeðlima. Sveitastelpan fann að ekki myndi vera rétt að mæla með því að lóga bara þessum skepnum. Það voru engar skepnur í hesthúsinu hans Svans, þar voru eingöngu djásn og dýrgripir.
Svanur var næmur á alla fegurð og hrifning hans á hestum var einlæg og ástrík en hann átti marga kæra ferfætta vini. Hann hirti hesta sína vel og var sjálfur einatt snyrtilegur til fara og í fasi, ekki síst í hestamennskunni.
Þannig átti hann líka glæsilega eðalvagna, sem var hitt helsta áhugamálið og um leið vettvangur ævistarfsins sem atvinnubílstjóri. Frá unga aldri hafði Svanur brennandi áhuga á bílum af öllu tagi og það var aldrei komið að tómum kofunum ef leita þurfti aðstoðar. Umsvifalaust var síminn tekinn upp og talað við mann og annan. Varahlutum og viðgerðum reddað. Bílar prufukeyrðir, keyptir og seldir og uppgerðir með hollráðum. Greiðvikni Svans var einstök og þar eiga margir honum þökk að gjalda.
Svanur ólst upp á þjóðmenningarheimili foreldranna Svövu og Halldórs, Austfirðinganna sem fluttust á mölina, fyrst til Reykjavíkur kreppuáranna, áður en þau gerðust frumbyggjar í Kópavogi. Á alþýðuheimili þeirra á Snælandi voru listirnar jafn sjálfsagðar og mjólkurglas eða mánudagsfiskur, lausar við allan uppskafningshátt. Fyrir listaspíru var ekki ónýtt að þetta viðhorf gilti hjá Svani og tengdafólkinu.
Svanur var vel máli farinn og leiðrétti fólk hiklaust ef honum fannst illa farið með íslenska tungu. Þó bókhneigð væri ekki fyrir að fara var tal og tónar hans svið. Einkum var það góður söngur sem hann hreifst af. Á næturakstri um helgar í Reykjavík hefur menningin ekki alltaf verið geðsleg en ekki man ég eftir því að Svanur bæri þær sögur á torg. Þolinmæði hans gagnvart mannlífsflórunni var aðdáunarverð. Stöku ökuferða minntist Svanur þó sjálfur og án efa hefði verið gaman að vera fluga á afturrúðu þegar Stefán Íslandi og Jussi Björling sátu saman í aftursætunum og sungu fyrir hann heila nótt.
Svanur var einstaklega léttur í lund og hann var hamingjumaður í einkalífinu. Hann eignaðist traustan lífsförunaut, Jóhönnu Jóhannsdóttur, og öll þeirra börn bera vitni um ætternið: harðdugleg og skarpgreind, velviljuð og greiðvikin. Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst ógleymanlegri persónu og hans góða fólki.
Áslaug Jónsdóttir.
Elsku afi.
Mikið verður það skrítið að fara í hestaferð og hafa þig ekki að gefa góð ráð eða mæta sjálfur, eins og fyrir örfáum árum, með flota af frábærum hestum með þér. Við systkinin vorum heppin að fá að alast upp með þér í hestunum og það er dýrmætt að eiga margar myndir af okkur saman, stundum með fjórar kynslóðir í hnakk. Ef við lentum í vandræðum með að ná hrossum þá var öruggt að þú myndir ná þínum fyrst því það dugði alltaf að þú kallaðir á þá með nafni.
Þú varst alltaf vel ríðandi og snyrtilegastur allra knapa. Þú hafðir svo gaman af því að klæða þig upp og mæta til keppni með hestinn vel kembdan. Samband þitt við hrossin var einstakt og þú varst tilbúinn að taka veikleikum þeirra með einstakri jákvæðni. Sólon gamli átti það til að skvetta en þú varst alltaf svo hrifinn af því hvað hann var fimur að geta gert þetta. Sama má segja um önnur dýr, allir hundar voru hændir að þér og ekki bara af því að þú laumaðir alltaf til þeirra kjötbita.
Einnig var alltaf hægt að treysta á að þú reddaðir málunum. Manstu eftir því þegar rúðuþurrkurnar biluðu uppi á Hellisheiði í rigningu. Þú bast snúru í þurrkurnar og inn í bíl og handstýrðir þeim alla leið heim.
Þú varst einstaklega vinmargur og greiðvikinn við alla og alltaf tilbúinn að aðstoða þegar við þurftum. Við krakkarnir leituðum alltaf ráða þegar við vorum að kaupa bíla og þú rúntaðir með okkur á allar bílasölur. Í þessum rúntum lærðum við meðal annars að meta klassíska tónlist, því þú elskaðir óperur, og auðvitað hvernig átti að halda bílnum hreinum, því þínir bílar voru alltaf eins og nýir. Við munum einnig sögurnar um gullmolana þína Buick 1956 og Pontiac 1955.
Þú varst líka sá fyrsti sem kynntir okkur ísböð; sem börn horfðum við steinhissa á þig baða þig upp úr jökulám í hestaferðum en skildum þig betur þegar við fullorðnuðumst. Við munum það einnig þegar þú leitaðir að lyklunum að vinnutækinu eftir að við höfðum falið þá. Ekki varstu nú að æsa þig yfir þessu, enda vanur smá stríðni. Sjálfur hafðirðu gaman af að gantast við fólk á vegi þínum. Eins og þegar þú sagðir að þú notaðir alltaf súrmjólk í kaffið, og húsráðandi þurfti auðvitað að prófa það.
Við munum sakna símtalanna þar sem við spjölluðum um daginn og veginn en mest um hestana góðu. Einnig varstu alltaf að athuga með langafabörnin þín og mundir allt sem hafði gerst í þeirra lífi, hvort sem það var nýjasta eyrnabólgan eða útskrift úr skóla, þú varst með allt á hreinu.
Þú sýndir það í verki að þér var mjög umhugað um fólk og dýr, hvort sem það var að athuga með okkur krakkana eða taka þátt í samfélagsmálum. Það var oft gaman að spjalla um pólitík og það var greinilegt hvaða málefni voru þér hugleikin: náttúruvernd og að allir hefðu jöfn tækifæri.
Hvíldu í friði elsku afi. Þú skilur eftir þig ómetanlegan arf – ástina á dýrum, góðmennsku, virðingu fyrir náttúrunni, kímni og ótal góðar minningar. Við minnumst þín með hlýju og þakklæti.
Svanur Snær Halldórsson, Sigurður Halldórsson, Elka Halldórsdóttir, Rúna Halldórsdóttir.