David Léclapart, einn eftirsóttasti víngerðarmaður Champagne. Vínin eru eftirsótt meðal safnara og þeirra sem vilja fara á dýptina í kampavíni.
David Léclapart, einn eftirsóttasti víngerðarmaður Champagne. Vínin eru eftirsótt meðal safnara og þeirra sem vilja fara á dýptina í kampavíni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég var á milli verkefna í Reims í september síðastliðnum og var á rölti um borgina. Það gekk á með skúrum en veðrið var milt eins og vera ber á þessum tíma árs. Stemningin var hins vegar allt annars eðlis enda uppskerutíminn í hádegisstað

Hið Ljúfa líf

Stefán Einar Stefánsson

ses@mbl.is

Ég var á milli verkefna í Reims í september síðastliðnum og var á rölti um borgina. Það gekk á með skúrum en veðrið var milt eins og vera ber á þessum tíma árs. Stemningin var hins vegar allt annars eðlis enda uppskerutíminn í hádegisstað. Verkefnið íturvaxið, að koma uppskeru í hús svo framleiða mætti 350 milljón flöskur af kampavíni. Allt verður að ganga smurt og menn eru með hugann við það eitt, hversu vel sem ræktunarstarfið hefur gengið um vor og sumar.

Á röltinu rambaði ég inn í eina af allnokkrum frábærum vínbúðum þessarar mögnuðu borgar, steinsnar frá dómkirkjunni, Notre Dame, sögufrægri byggingu þar sem næstum allir konungar Frakklands voru krýndir og smurðir hinni heilögu olíu.

Þetta eru sérverslanir, reknar af einkaaðilum (og samt er ölvunarástand borgarbúa alveg viðráðanlegt). Þar kennir ýmissa grasa en kampavínið er að sjálfsögðu ráðandi. Maður sér hins vegar að það er mikil stemning í kringum bæði rautt og hvítt vín sem framleitt er af ekrum Champagne.

Ég var rétt stiginn inn fyrir þröskuldinn þegar ég rak augun í flöskutopp sem ég þóttist kannast við. Blóðrauður og glansandi. Ég fór rakleitt að rekkanum og dró flöskuna út. Eina fimm slíkra sem þarna hafði verið raðað upp. Um leið og ég tók hana upp sá ég að verslunareigandinn vaknaði. Það þurfti ekki að handfjatla gripinn lengi til þess að taka ákvörðun, jafnvel þótt verðmiðinn væri hressilegur.

„Við fáum sex flöskur af þessu á ári, þegar við erum heppnir,“ sagði hann við mig og það gætti lotningar í röddinni. Og ég sá það reyndar í augum hans að honum þótti nokkuð til um það að ég hefði farið rakleitt að þessum flöskum og gripið eina í hönd.

„Ég tek þessa,“ sagði ég án þess að hika og þá vissi ég að það væri veisla í vændum. Það liðu hins vegar nokkrir mánuðir þar til flaskan yrði opnuð. Raunar væri lítið mál að geyma hana árum saman, en það er of spennandi að komast í þessa snilld til að maður geti hamið sig. Eftir á að hyggja hefði ég átt að kaupa tvær. Opna eina núna og aðra eftir fimm til átta ár.

Hugvíkkandi?

En hvaða flaska var þetta? L'Aphrodisiaque úr smiðju Davids Léclapart. Hann er einn eftirsóttasti víngerðarmaður Champagne og vínin gríðarlega eftirsótt meðal safnara og þeirra sem vilja fara á dýptina þegar kemur að kampavíni. Það er í tísku í dag að tala um hugvíkkandi efni, ekki hef ég reynslu af þeim. En mér finnst næstum réttlætanlegt að nota það hugtakapar þegar ég lýsi vínunum frá honum.

David er fjórðu kynslóðar víngerðarmaður í þorpinu Trépail, sem er premier cru-svæði í Montagne de Reims. Framleiðslan er gríðarlega takmörkuð, markast af þriggja hektara vínekrum sem skila um það bil 10 þúsund flöskum á ári. Það er agnarsmár dropi í hafið á markaði þar sem eftirspurnin eykst og eykst, en framleiðslan næstum því ekki neitt.

Og hann hefur frá árinu 1996 gerst sporgöngumaður lífrænnar ræktunar þar sem menn trúa því að vínið verði fyrst og fremst til í hinu náttúrulega ferli á ekrunum, fremur en með töfrabrögðum og inngripi í vínkjallaranum að uppskeru lokinni.

L'Aphrodisiaque ber þeirri hugmyndafræði fagurt vitni. Það er 80% chardonnay, sem er raunar ráðandi þrúga í Trépail og 20% eru úr pinot noir. Líkt og öll hans vín er það án nokkurs viðbætts sykurs, pas dosé.

Hvernig á glasið að vera?

Eftir þokkalegan undirbúning var ég kominn að þeirri niðurstöðu að réttast væri að drekka þetta vín úr nokkuð víðu túlípanaglasi, fremur en að fara alla leið í vítt og stórgert búrgúndí-glas. Held að sú ákvörðun hafi verið rétt, jafnvel þótt hin leiðin hefði sennilega gengið líka. L'Aphrodisiaque er sömuleiðis vín sem myndi þola það vel að láta umhellast, en stór túlípani gerir vel, ekki síst ef hugmyndin er að drekka vínið hægt og rólega og gefa því færi á að þroskast og þróast í glasinu.

Og það var magnað að reka nefið ofan í glasið þegar vínið var komið á sinn stað. Um leið vitnaði anganin um það hvað David tekst á hendur í víngerðinni. Feimnir tónar, þurrkaðra ávaxta. Frúin sagði strax: þetta er eins og jasmín-te. Vissi að úr þeirri áttinni væri ekki von á góðu í framhaldinu, en um leið gat ég glaðst yfir því að flaskan yrði næstum öll mín!

Mjög ákveðin aðferðafræði

Og te-líkingin var ekki úr lausu lofti gripin. Þetta er kampavín sem er fáu öðru víni líkt. Þarna spila saman margir ólíkir þættir, ekki síst sú staðreynd að vínið er algjörlega ósykrað, mjólkursýrugerjunin fær að hafa sinn gang allt til loka og jarðvegurinn er í meira lagi kalkríkur og krefjandi um leið. Stærstur hluti uppskerunnar sem notaður er í þetta vín kemur af hinni þekktu Pierre Saint Martin-ekru.

Annað einkenni á þessu víni sem kemur fljótt í ljós er það að gerjunarferlið er allt látið eiga sér stað á eikartunnum, engir stáltankar koma þar við sögu. Þeir tryggja ákveðinn ferskleika á móti viðnum en þarna er ekki leitað að titrandi frísklegum tónum, miklu fremur jarðbundnum, mjúkum línum. Vínið verður um leið nokkuð „veðrað“ (oxidative) en þannig má lýsa víni sem hefur með mildum hætti komist í tæri við súrefni, sem gjarnan gerist í eikinni, sem er gljúpari á loft en stáltankar verða nokkru sinni – þeir hleypa engu í gegn og aðeins yfirborðsflötur vökvans sem mögulega kemst í snertingu við súrefnið.

Einhyrningar

Að því leyti minnir vínið nokkuð á það sem maður kynnist í léttustu vínunum frá Jacques Selosse. Þetta er stíll sem er alls ekki allra, en þeir sem komast upp á lagið með þessi vín elska þau umfram flest önnur. Það er alltaf hægt að komast í frísklegt kampavín. Þessi eru fágætari, í sumum tilvikum eins konar einhyrningar.

Niðurstaðan er þessi. Vín frá Léclapart er alltaf þess virði að þess sé neytt. Komist maður í flösku kaupir maður hana og beinir blinda auganu að verðmiðanum. Upplifunin er einstök, en þetta er ekki hefðbundið kampavín í neinum skilningi. Það dýpkar hins vegar skilning manns á því hvað hægt er að gera á ekrunum í Champagne. Þar búa sannkallaðir töframenn.