Los Angeles Slökkviliðsmaður fylgist með Auto-eldinum, en slökkviliðið náði að hemja hann í gærmorgun.
Los Angeles Slökkviliðsmaður fylgist með Auto-eldinum, en slökkviliðið náði að hemja hann í gærmorgun. — AFP/Etienne Laurent
Rauð viðvörun var í gildi fyrir megnið af suðurhluta Kaliforníuríkis í gær þar sem öflugir og hlýir vindar blésu af fjöllum. Var slökkvilið Los Angeles og nágrennis í viðbragðsstöðu vegna vindanna, þar sem óttast var að þeir gætu aftur ýtt undir…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Rauð viðvörun var í gildi fyrir megnið af suðurhluta Kaliforníuríkis í gær þar sem öflugir og hlýir vindar blésu af fjöllum. Var slökkvilið Los Angeles og nágrennis í viðbragðsstöðu vegna vindanna, þar sem óttast var að þeir gætu aftur ýtt undir gróðureldana miklu sem herjað hafa á borgina í rúma viku.

Bandaríska veðurstofan, NWS, sagði í veðurviðvörun sinni að hlutar af Los Angeles- og Ventura-sýslum væru á hættusvæði vegna vindanna, og hvatti NWS fólk á þeim svæðum til þess að vera tilbúið til að flýja heimili sín. Mældi veðurstofan að minnsta kosti eina vindhviðu sem náði 32 m/s um morguninn.

Um 90.000 manns sem flúðu heimili sín í síðustu viku bíða þess nú að fá leyfi til að snúa aftur og sjá hvað stendur eftir af þeim. Fred Busche sagði við AFP-fréttastofuna að hann vissi vel að heimili sitt væri brunnið til kaldra kola, að skorsteininum undanskildum, því hann hefði séð ljósmyndir af götunni sinni. „En ég þarf að sjá það með eigin augum til að trúa því,“ sagði Busche.

Eiga von á meira manntjóni

Slökkviliðsmenn glímdu í gær við fjóra elda samtals, tvo stærri og tvo minni. Palisades-eldurinn er sem fyrr stærsti eldurinn, en hann hefur nú lagt undir sig um 9.600 hektara lands. Illa hefur gengið að hemja eldinn, en slökkviliðið telur sig hafa náð 17% stjórn á honum. Eaton-eldurinn hefur lagt undir sig rúmlega 5.700 hektara lands, en slökkviliðið hefur náð 33% stjórn á honum.

Þriðji eldurinn sem kviknaði, Hurst-eldurinn, hefur nánast verið slökktur, en hann náði að brenna um 323 hektara lands. Fjórði eldurinn, Auto-eldurinn, kviknaði á mánudagskvöldið. Náði eldurinn að dreifa sér um 22 hektara lands í Ventura-sýslu, sem er vestan við Los Angeles, áður en slökkviliðinu tókst að hemja hann.

Staðfest var í fyrradag að 24 hefðu farist í gróðureldunum undanfarna viku hið minnsta, en 23 til viðbótar er enn saknað. Robert Luna, fógeti í Los Angeles-sýslu, sagði í fyrrakvöld að leit að fórnarlömbum héldi áfram, en sérþjálfaðir líkleitarhundar hafa verið notaðir til að aðstoða við leitina. Sagðist Luna eiga von á að fleiri lík myndu finnast á næstu dögum.

Þjóðvarðlið frá Kaliforníu, Nevada og Wyoming hefur verið kallað út til Los Angeles, og munu um 1.850 þjóðvarðliðar aðstoða við slökkvistörf. Þá veitir þjóðvarðliðið einnig aðstoð við að koma í veg fyrir rán og gripdeildir. Lögreglan í Los Angeles-borg hefur handtekið níu manns fyrir þjófnað, og hafa yfirvöld varað við því að allir þjófar verði sóttir til saka.

Mun kosta milljarða dala

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í fyrrakvöld á fundi með fulltrúum almannavarna að endurbygging þeirra hverfa í Los Angeles sem orðið hafa eldunum að bráð myndi kosta tugmilljarða bandaríkjadala.

Veðurvefsíðan Accuweather hefur áætlað að eignatjónið vegna gróðureldanna nemi á bilinu 250-275 milljörðum bandaríkjadala, eða sem nemur á bilinu 35-39 billjónum íslenskra króna. Stefnir allt í að eldsvoðinn verði sá dýrasti í sögu Bandaríkjanna.

Matsfyrirtækið Moody’s greindi frá því í fyrradag að bandarísk tryggingafélög myndu líklega verða fyrir nokkru tapi vegna gróðureldanna, en embættismenn í Kaliforníu hafa áætlað að virði þeirra eigna sem voru tryggðar geti numið allt að 20 milljörðum bandaríkjadala. Hafa sumir húseigendur á svæðinu lýst því yfir að þeir hafi ekki getað fengið brunatryggingu fyrir hús sín, þar sem þau væru á hættusvæði.

Í mati Moody’s kemur fram að tryggingafélögin geti einnig átt von á kröfum vegna kostnaðar og truflana á viðskiptum og starfsemi. Þá muni hækkandi verð á byggingarefni og vinnuframlagi einnig ýta undir frekari kröfur á hendur félögunum.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson