Gaman Hjónin Karitas E. Kristjánsdóttir og Rúnar Örn Rafnsson.
Gaman Hjónin Karitas E. Kristjánsdóttir og Rúnar Örn Rafnsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísfirðingafélagið fagnar 80 ára afmæli í ár og af því tilefni verður árlegt Sólarkaffi með breyttu sniði, þar sem áhersla verður lögð á tónlist að vestan, en veislan verður í Gamla bíói í Reykjavík laugardagskvöldið 1

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Ísfirðingafélagið fagnar 80 ára afmæli í ár og af því tilefni verður árlegt Sólarkaffi með breyttu sniði, þar sem áhersla verður lögð á tónlist að vestan, en veislan verður í Gamla bíói í Reykjavík laugardagskvöldið 1. febrúar næstkomandi. „Við erum að vinna með stærra og öflugra Sólarkaffi en áður,“ segir Rúnar Örn Rafnsson formaður félagsins. „Í stað þess að vera með ræður yfir sólarpönnukökum og kaffi bjóðum við upp á tónlistarveislu að vestan og ætlunin er að stikla á stóru úr tónlistarsögu Ísafjarðar með hjálp gestasöngvara. Við höfum þegar selt alla miða í sal og eigum örfá sæti laus á svölunum.“

Lögin í fullu gildi

Brottfluttir Ísfirðingar stofnuðu félagið 22. apríl 1945 í þeim tilgangi „að viðhalda kynningu milli brottfluttra Ísfirðinga og efla tryggð þeirra við átthagana“. Í öðru lagi átti félagið að standa fyrir samkomuhaldi og þar á meðal Sólarkaffi árlega. Enn fremur að gefa út félagsritið Vestanpóstinn, reka orlofshús á Ísafirði og sinna annarri skyldri starfsemi.

Rúnar Örn segir að fyrstu lög félagsins séu að mestu óbreytt hvað tilganginn varðar. „Vestanpósturinn kemur alltaf út fyrir páska og núna verður hann að stórum hluta tileinkaður þessum tímamótum. Við höfum farið eftir lögunum og ávallt fagnað komu sólarinnar enda ástæða til fyrir okkur sem höfum búið við sólarleysi árlega fyrir vestan. Eftir að hafa misst af sólinni í tvo mánuði hefur okkur þótt allt í lagi að henda í pönnukökur.“

Húsið verður opnað kl. 19.00 og sem fyrr verða sólarpönnukökur í boði, en ekki heitur matur eins og undanfarin ár. Hljómsveitin Albatross og Halldór Smárason verða í hlutverki gestgjafa og taka á móti gestum á sviði frá kl. 20.00, en þar á meðal verða Helgi Björns, Bjarni Ara, Stefanía Svavars og Sverrir Bergmann. Bandið spilar síðan fyrir dansi frá klukkan 23.00. „Það verða líka nokkrir leynigestir,“ upplýsir formaðurinn.

Rúnar Örn flutti suður 2006 og varð félagi í Ísfirðingafélaginu nokkrum árum síðar. Fljótlega var hann kosinn í stjórn og hann er á þriðja árinu sem formaður þess. „Heimþrá varð til þess að ég gekk í félagið og ég veit að margir hafa sömu sögu að segja. Áður hafði ég farið í Sólarkaffi nokkrum sinnum og þótt það skemmtilegt.“

Frjálst félagsstarf hefur átt undir högg að sækja og Ísfirðingafélagið hefur fundið fyrir því. „Það hefur verið erfiðara og erfiðara að fá fólk til þess að taka þátt í starfseminni og því höfum við þurft að draga saman seglin en Sólarkaffið hefur staðið af sér allar hindranir,“ segir Rúnar Örn. Fyrir nokkrum árum hafi til dæmis verið árlegur haustfagnaður og haustmessa. Viðburðirnir hafi síðan verið sameinaðir í einn og hann hafi síðan lognast út af. Sömu sögu sé að segja af bókakynningum fyrir jólin á bókum eftir vestfirska höfunda. „Við höfum reynt ýmislegt en Sólarkaffið stendur eitt upp úr. Þar hefur orðið skemmtileg þróun sem felst í því að árgangar hafa tekið sig saman og halda fjörinu gangandi.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson