Andrea Róbertsdóttir hefur vakið athygli fyrir öfluga innkomu sem framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Áður gegndi hún stöðu stjórnanda í fjarskiptum, fjölmiðlum og hefur leitt fyrirtæki og stofnanir í gegnum breytingar svo fátt eitt sé nefnt.
Andreu er margt til lista lagt. Hún hefur til að mynda gert upp mikið af íbúðarhúsnæði og Forlagið gaf út ferðasögu hennar eftir heimkomuna úr bakpokaferðalagi sem hún fór í ein um Asíu.
Hún segir að náttúran, útivera og samvera með sínum nánustu gefi sér mest og myndlist er hennar hleðslutæki og tónlist meðalið.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstri þessi misserin?
Þetta klassíska líkt og hjá öðrum, ófriður og óvissa, verð og vextir, falsfréttir, heilsutengd mál, umhverfismál, sjálfbærni, bakslag og stöðnun í jafnréttismálum og brot á mannréttindum.
Staðan er alls ekki góð víða en mjög breytilegt á milli landa hverjar áskoranir eru bæði í leik og starfi. Ég vona að Ísland nýti trompin sín vel því við erum með mikla forgjöf í víðum skilningi þess orðs.
Þær áskoranir sem FKA stendur frammi fyrir í nútíð og fortíð eru helst menningin hjá okkur þegar kynjum eru gefnir ákveðnir eiginleikar.
Samkeppni um tíma kvenna sem ætla sér margt hefur verið áskorun. Tíminn er jú það dýrmætasta sem við eigum og mikilvægt er fyrir konur og okkur öll að gefa okkur leyfi til að eiga áhugamál og fjárfesta í okkur.
Félagsaðild í FKA er góður fjárfestingakostur fyrir konur, þar sem margt er innifalið í félagsgjaldinu fyrir þær.
Hver eru helstu verkefnin fram undan hjá FKA?
FKA varð 25 ára á árinu sem leið og nú er Kvennaár 2025 hafið þannig að það verður heilmargt á dagskrá. Næsti stóri viðburður félagsins er árleg FKA-viðurkenningarhátíð sem verður á Hótel Reykjavík Grand 29. janúar næstkomandi.
Opinn viðburður og gjaldfrjáls þar sem þrjár konur úr atvinnulífinu eru heiðraðar og framlína íslensks viðskiptalífs og félagskonur fagna með viðurkenningarhöfum og þeirra fólki.
Hvaða bók hefur haft mest
áhrif á hvernig þú starfar?
Svokallað „life hack“ sem ég lærði af góðri vinkonu er að hlusta á tvöföldum hraða líkt og ég geri gjarnan. Ég hlusta mikið en les minna og lítil núvitund í því að hlusta á tvöföldum hraða, en kemur sér vel þegar ég er í tímaþröng, í spreng að missa ekki af einhverju.
Bókin InnSæi: Heal, revive and reset with the Icelandic art of intuition er í mínum huga mjög mikilvægt innlegg í samtímann og ég hvet fólk til að kynna sér bókina.
Hrund Gunnsteinsdóttir er höfundur bókarinnar sem hefur nú komið út á fjölmörgum tungumálum. Eins mikið og við getum öll elskað Excel þá er innsæi töff og brjóstvitið líka. Þessi innri kompás og öll skilingarvitin sem við getum sótt í.
Hugsarðu vel um heilsuna?
Áfengislaus lífsstíll sem ég fór óvart í fyrir nokkrum árum heldur áfram að gefa. Svo er náttúran mín hugleiðsla og hleðslutæki. Mitt prógramm snýst um að vera virk og ótrúlegustu strengir sem ég fæ við að bregða mér í líki iðnaðarmannsins á heimilinu með mínum manni.
Svo er það svefninn sem er mjög mikilvægur og mér finnst alveg meiriháttar hvað svefn er alltaf að fá meira vægi og mikilvægi hans ávallt að koma betur í ljós. Á heildina litið er ég í ágætismálum.
Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?
80% gaman og gefandi í starfi er fyrir mér draumastarf, 80% gaman því lífið er verkefni með fullt af hindrunum og brekkum.
Síðustu ár höfum við mörg verið að vinna með æðruleysisbænina í atvinnulífinu svo að segja, á tímum heimsfaraldurs vissum við stundum ekki einu sinni hvað myndi gerast eftir hádegi enda margt óvænt og ófyrirséð.
Vegna alls þess líður mér eins og ég hafi byrjað í nokkur skipti í núverandi starfi sem gefur mér mikið. Mögulega hefur mitt draumastarf ekki verið fundið upp en það er algjör veisla að hafa umboð til athafna og nóg að gera.
Hvað myndir þú læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?
Það er mikilvægt að uppgötva sig aftur og aftur, skapa og endurskapa. Ný störf verða til sem krefjast annars konar hæfni og ég er engin undantekning að finnast ég alltaf þurfa að bæta við mig. Þá fannst mér skóli ekki endilega staðurinn til að læra á.
Að fara ein í bakpokaferðalag um Asíu í nokkra mánuði var á við mastersgráðu, víkkar sjóndeildarhringinn og fólk öðlast mikilvægt menningarlæsi. Ætli ég myndi ekki kynna mér gervigreindina betur og hvernig hún getur aðstoðað mig enn betur í starfi.
Hin hliðin
Menntun: BA-gráða í félags- og kynjafræði, 2005; MS-gráða frá viðskipta- og hagfræðideild, 2008; MA-diplóma í jákvæðri sálfræði, 2017. Námskeið af öllum stærðum og gerðum, til dæmis í rafsuðu.
Störf: Fréttamennska, dagskrárgerð, starfsmanna- og kynningarmál á Stöð 2 og útvarpssviði Norðurljósa (nú Sýn), verkefna- og viðburðastjórnun hjá Concert; nýsköpun, hönnun og eigin framleiðsla á vöru, forstöðumaður þjónustu- og sölusviðs Tals, mannauðsstjóri RÚV; framkvæmdastjóri hjá Kaffitári.
Áhugamál: Mér finnst ótrúlega gefandi að gera eitthvað með höndunum eins og að bregða mér í vinnugalla og taka til hendinni inni eða úti í garði. Tónlist er gott meðal og samvera með nánustu.
Fjölskylduhagir: Eiginmaður Jón Þór Eyþórsson og við eigum saman drengina Dreka og Jaka.