Körfuboltinn
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Jafnræði liðanna í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik á þessu tímabili sást vel í gærkvöld þegar botnliðin Aþena og Grindavík voru afar nærri því að vinna óvænta sigra gegn Njarðvík og Keflavík í fjórtándu umferð deildarinnar
Grindavík mætti til leiks í Keflavík með nýjan leikmann, Daisha Bradford, sem fór mjög vel af stað en hún skoraði 37 stig og tók 16 fráköst. Keflavík knúði þar fram sigur á lokamínútunum, 88:82, en Sigurður Ingimundarson og Jón Halldór Eðvaldsson tóku við þjálfun liðsins í fyrradag. Jasmine Dickey skoraði 37 stig fyrir Keflavík.
Leikur Aþenu og Njarðvíkur í Austurbergi var hnífjafn en Njarðvíkingar knúðu fram sigur með því að skora síðustu fimm stigin og unnu 70:66. Brittany Dinkins skoraði 25 stig fyrir Njarðvík og Ajulu Obur Thatha 16 fyrir Aþenu.
Haukar höfðu hinsvegar talsverða yfirburði gegn Val og náðu sex stiga forskoti í deildinni með öruggum sigri á Ásvöllum, 89:73.
Haukakonur voru með yfirburðastöðu í hálfleik, 53;29, og sigurinn var aldrei í hættu. Lore Devos skoraði 24 stig fyrir Hauka og Alyssa Cerino 20 fyrir Val.
Stjarnan vann Hamar/Þór, 87:77, eftir jafna baráttu í Hveragerði. Denia Davis-Stewart átti stórleik með Stjörnunni, skoraði 26 stig og tók 21 frákast. Abby Beeman skoraði 25 stig fyrir Hamar/Þór.