Knattspyrnukonan Ásdís Karen Halldórsdóttir skrifaði í gær undir samning til hálfs þriðja árs, til sumarsins 2027, við spænska félagið Madrid CFF sem kaupir hana af Lilleström í Noregi. Ásdís lauk læknisskoðun hjá félaginu í gær. Í Madrid verður hún liðsfélagi landsliðskonunnar Hildar Antonsdóttur.
Daninn Bo Henriksen er erlendi þjálfarinn sem KSÍ ræddi við um starf þjálfara karlalandsliðsins í síðustu viku, að sögn danska fjölmiðlsins B.T. Henriksen stýrir liði Mainz í efstu deild Þýskalands en hann lék hér á landi með Fram, Val og ÍBV árin 2005 og 2006 og fór síðan beint í þjálfun í Danmörku í kjölfarið.
Mestar líkur virðist á að Arnar Gunnlaugsson taki við sem þjálfari karlalandsliðsins en ákvörðun um það gæti verið tekin á stjórnarfundi KSÍ í dag. Fótbolti.net sagði í gær að KSÍ þyrfti líklega að greiða Víkingum 10-15 milljónir króna til að leysa hann undan samningi. Talið er fullvíst að Sölvi Geir Ottesen taki við liði Víkings, verði Arnar ráðinn landsliðsþjálfari.
Arnfríður Auður Arnarsdóttir, 16 ára knattspyrnustúlka frá Gróttu, hefur samið við Val til þriggja ára. Hún hefur leikið með meistaraflokki Gróttu í þrjú ár og skorað 20 mörk í 40 leikjum í 1. og 2. deild, og þá hefur Arnfríður leikið 17 leiki með yngri landsliðum Íslands.
Guðbjörg Sverrisdóttir jafnaði í gærkvöld leikjametið í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik þegar hún lék með Val gegn Haukum á Ásvöllum. Það var hennar 382. leikur í deildinni og hún jafnaði met Sigrúnar Ámundadóttur. Guðbjörg hefur leikið 307 leiki með Val, 38 með Hamri og 37 með Haukum þar sem hún hóf ferilinn í deildinni árið 2007.
Adda Sigríður Hjálmarsdóttir, unglingalandsliðskona í körfuknattleik, er gengin til liðs við Þór á Akureyri frá Snæfelli í Stykkishólmi. Hún lék með Snæfelli í úrvalsdeild í fyrra og 1. deild í vetur en liðið hætti keppni fyrir jól. Adda var í U16 ára landsliðinu í fyrra og er í æfingahópi U18 ára landsliðsins fyrir næsta sumar.
Brasilíski knattspyrnumaðurinn Gabriel Jesus er með slitið krossband í hné en Arsenal staðfesti það í gær. Jesus fór meiddur af velli í bikarleik Arsenal og Manchester United á sunnudaginn. Þar með spilar hann ekki meira á þessu tímabili á Englandi og missir væntanlega líka af byrjun næsta tímabils.