Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Með breytingu á kosningalögum sem gekk í gildi 1. janúar 2022 var lögfest sú regla, hvað varðar atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, að því sveitarfélagi þar sem kjósandi telur sig vera á kjörskrá ber að taka við atkvæði viðkomandi og koma því rétta boðleið.
Þegar kjósandi hefur stimplað eða ritað þann listabókstaf sem hann kýs mæla lögin fyrir um að umslagi sem inniheldur kjörseðilinn skuli, ásamt undirrituðu fylgibréfi vottuðu af kjörstjóra, komið fyrir í öðru umslagi, sendiumslagi, sem árita skal „til kjörstjórnarinnar í því sveitarfélagi þar sem kjósandinn telur sig vera á kjörskrá“, að því er segir í lögunum. Aftan á sendiumslagið á síðan að rita nafn og heimilisfang kjósandans.
Kjósanda ber og að annast sendingu atkvæðisbréfs síns til þess sveitarfélags þar sem hann er á kjörskrá.
Skrifstofum lokað klukkan 13
Í ljósi framansagðs er vandséð að Kópavogsbær hafi uppfyllt skyldur sínar hvað þetta varðar í aðdraganda síðustu alþingiskosninga, þar sem 25 utankjörfundaratkvæðum var ekki skilað til kjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi. Þá er jafnframt ljóst að það að loka bæjarskrifstofum Kópavogsbæjar klukkan 13 daginn fyrir kjördag getur tæpast talist samræmast lagaskyldum bæjarins hvað varðar móttöku utankjörfundaratkvæða og það að koma þeim áfram til kjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi.
Skýringar Kópavogsbæjar
Í lýsingu Kópavogsbæjar til landskjörstjórnar á atburðarásinni þegar utankjörfundaratkvæðin 25 misfórust kemur m.a. fram að plastkassar frá Póstinum séu notaðir við póstsendingar inn og út úr húsi. Kassi sé innan við afgreiðsluborð í þjónustuveri þar sem útpósti sé safnað saman og síðan afhentur Póstinum þegar hann kemur með innpóst á skrifstofurnar.
Þann 29. nóvember hafi póstur borist án aðkomu starfsmanna þjónustuvers, þannig að kassinn með útpóstinum var tekinn af starfsmanni Póstsins án þess að menn yrðu þess varir og nýr kassi með innpósti settur í staðinn, en í honum hafi utankjörfundaratkvæðin verið. Ofan í þann kassa hafi síðan verið settur póstur sem fara átti út úr húsi og fór hann ofan á umslögin með atkvæðaseðlunum. Téður kassi hafi síðan verið sóttur af Póstinum á mánudag og atkvæðaseðlarnir þar með. Í ljósi framansagðs heldur Kópavogsbær því fram að atkvæðin hafi því aldrei verið móttekin.
Í bréfi landskjörstjórnar til Kópavogsbæjar er áréttað mikilvægi þess að utankjörfundaratkvæði sem sveitarfélag tekur á móti lögum samkvæmt berist tímanlega á rétta staði og að ábyrgð sveitarfélaga sé mikil í þessum efnum og mikilvægt að farið sé að lögum.
Í dag mun landskjörstjórn afhenda Alþingi umsögn um framkvæmd kosninganna, þ.m.t. um þau tilvik þar sem utankjörfundaratkvæði skiluðu sér ekki. Undirbúningsnefnd Alþingis mun síðan taka afstöðu til umsagnarinnar.
Undirbúningsnefnd Alþingis
Í undirbúningsnefnd vegna rannsóknar kosninganna hafa þessir þingmenn verið tilnefndir: Dagur B. Eggertsson og Kristján Þórður Snæbjarnarson frá Samfylkingu, Hildur Sverrisdóttir og Vilhjálmur Árnason frá Sjálfstæðisflokki, Eiríkur Björn Björgvinsson og María Rut Kristinsdóttir frá Viðreisn, Ragnar Þór Ingólfsson frá Flokki fólksins, Sigríður Á. Andersen frá Miðflokki og Ingibjörg Isaksen frá Framsóknarflokki.