Ingvar Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Nox Medical og formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins, hélt erindi á Skattadeginum.
Ingvar Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Nox Medical og formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins, hélt erindi á Skattadeginum. — Ljósmynd/Anton Brink
Skattadagur Viðskiptaráðs og Deloitte var haldinn í Silfurbergi í Hörpu í gær. Meðal fyrirlesara var Ingvar Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Nox Medical og formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins. Erindið sem Ingvar hélt bar yfirskriftina…

Skattadagur Viðskiptaráðs og Deloitte var haldinn í Silfurbergi í Hörpu í gær. Meðal fyrirlesara var Ingvar Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Nox Medical og formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins.

Erindið sem Ingvar hélt bar yfirskriftina Verðmætasköpun með hugvitið að vopni og fjallaði um hvernig stjórnvöld geti byggt upp stefnu sem ýtir undir verðmætasköpun á sviði hugverkaiðnaðar. Hann fór meðal annars yfir sögu hugverkaiðnaðarins á Íslandi og samkeppnisumhverfi Nox Medical, og hvatti stjórnvöld til að marka skýra stefnu til að efla hugverkaiðnaðinn.

Þverpólitískur vilji til staðar

Ingvar segir í samtali við ViðskiptaMoggann að mikilvægt sé að stjórnvöld beiti áfram ívilnunum í skattkerfinu til að hvetja fyrirtæki til að fjárfesta í rannsóknum og þróun.

„Hugmyndin að slíku kerfi hefur margsannað sig og við eigum að bæta í á því sviði. Það er mikilvægt að skattkerfið sé hannað þannig að það styðji við útflutningsgreinarnar með sanngjörnu ívilnanakerfi. Það þarf að þétta í götin, festa kerfið í sessi til frambúðar og búa til umhverfi sem íslensk hugverkafyrirtæki geti starfað við,“ segir Ingvar.

Spurður hvort hann telji að ný ríkisstjórn muni styðja við útflutningsgreinarnar segir Ingvar að hann finni fyrir þverpólitískum vilja til að efla hugverkageirann.

„Ég hlakka til samstarfsins með nýjum stjórnvöldum um hvernig megi efla hugverkaiðnaðinn, þessa mikilvægu útflutningsstoð, enn frekar. Það eru flestir flokkar búnir að fylkja sér á bak við þetta þjóðþrifamál,“ segir hann.

Ingvar segir brýnt að stjórnvöld skerpi á því hvar ívilnanir eigi við og hvar ekki.

„Það er mikilvægt að hafa kerfi og fyrirkomulag sem býður upp á skalanleika fyrir stærri fyrirtæki. Það þarf að efla útflutninginn enn frekar og auka verðmætasköpun. Ísland er útflutningsdrifið hagkerfi með blómlegum útflutningsiðnaði og við þurfum gott kerfi til að styðja við það,“ segir Ingvar.

Hann segir að stjórnvöld hafi stutt vel við hugverkaiðnaðinn í faraldrinum þegar endurgreiðslan á rannsóknar- og þróunarkostnaði var hækkuð.

„Í tilfelli Nox þá í stað þess að senda starfsmenn okkar heim á hlutabótaleið nýttum við hækkaða skattalega hvata til frekari fjárfestinga í rannsókn og þróun og tókst þannig að þróa næstu kynslóð lausna á mettíma. Það hefur svo skilað sér í auknum starfsmannafjölda og metári hvað afkomu varðar í sögu fyrirtækisins 2024. Stjórnvöld eiga hrós skilið fyrir að bregðast við tillögum hugverkaiðnaðarins á tímum faraldursins,“ segir Ingvar.

Erum rétt að byrja

Hann segir að þó megi gagnrýna þá staðreynd að fyrirtæki eins og Nox Medical sitji ekki við sama borð hvað skatta varðar og keppinautar þess úti í heimi.

„Nox Medical er örfyrirtæki á alþjóðlegan mælikvarða en stórfyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Við erum því skattlögð hér á landi í samræmi við það. Þetta hefur áhrif á samkeppnishæfni okkar og gerir það að verkum að fyrirtæki af okkar stærð leita leiða til að setja nýjar fjárfestingar í rannsókn og þróun út fyrir landsteinana. Við erum til að mynda að setja upp vöruþróun í Portúgal til að geta fjárfest enn meira.“

Ingvar segir að mikilvægt sé að hafa í huga þegar horft sé til framtíðar að mikið hafi áunnist og tækifærin til að efla hugverkaiðnaðinn hér á landi séu mörg.

„Við erum bara rétt að byrja. Ef á næstu 5-10 árum verða 100 fyrirtæki með um 5-10 milljarða króna í veltu hvert þá komumst við í um 1.000 milljarða í útflutningsverðmæti. Það myndi skipta sköpum fyrir íslenska hagkerfið. Þannig verðum við einnig í góðri stöðu til að skapa næstu einhyrningana úr íslenskum vaxtarfyrirtækjum eins og gerðist með Kerecis og Alvotech,“ segir Ingvar að lokum.