Sigfús Eiríksson fæddist á Meistaravöllum í Reykjavík 7. maí 1947. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 21. desember 2024.

Foreldrar Sigfúsar voru hjónin Una Eyjólfsdóttir, f. 4. febrúar 1925, d. 6. maí 1988, og Eiríkur Sigfússon, f. 21. janúar 1923, d. 29. maí 2008. Systkini Sigfúsar eru: Sammæðra er Jens Ingi Magnússon, f. 22. júlí 1943, d. 25. júní 2019, eftirlifandi maki er Anna Hannesdóttir, f. 1945; Kristbjörn Margeir, f. 25. mars 1946, maki Aldís Óskarsdóttir, f. 1954; Finnur Eyjólfur, f. 7. febrúar 1949, maki Gunnhildur Hrólfsdóttir, f. 1947; Guðbrandur Búi, f. 18. desember 1953, d. 21. maí 1986; Halla Matthildur, f. 25. desember 1955, maki Fróði I. Jónsson, f. 1955; 6) Sigríður Una, f. 14. janúar 1957, maki Guðmundur Guðmundsson, f. 1952.

Fyrri eiginkona Sigfúsar er Jóhanna Stefánsdóttir, f. 1948. Börn þeirra eru: 1) Eiríkur Svanur, f. 12. janúar 1967, fyrrverandi maki Sandra Jónasdóttir, f. 1968. Börn þeirra eru: a) Aron Freyr, f. 1991, maki Kolbrún Rut Evudóttir, f. 1996, börn þeirra eru Alexandra Líf, f. 2018, Elvar Darri, f. 2020, og Sunneva Líf, f. 2024. b) Arnór Daði, f. 1996. 2) Guðrún Erla, f. 8. september 1973, maki Vilmundur Theódórsson, f. 23. júlí 1973. Börn þeirra eru Óskar Fannar, f. 1997, Hlynur Ísak, f. 2002, og Steinar Ingi, f. 2009. 3) Þröstur Freyr, f. 25. maí 1976, fyrrverandi maki Maríanna Másdóttir, f. 1977. Börn þeirra eru Eva María, f. 2004, Aron Logi, f. 2012, og Mikael Már, f. 2018.

Eftirlifandi eiginkona Sigfúsar er Hanna Garðarsdóttir, f. 31. ágúst 1951. Þau eiga dótturina Eygló Sif, f. 20. maí 1989, maki Anton Birkir Sigfússon, f. 28. desember 1990. Börn þeirra eru Andreas Atli, f. 2019, og Kara Dröfn, f. 2022. Hanna á þrjár dætur, Írisi Fjólu, f. 1971, Olgu Lind, f. 1975, og Elfu Maríu, f. 1978.

Sigfús fluttist fimm ára að Stóru-Hvalsá í Hrútafirði og gekk í Barnaskólann á Borðeyri. Fimmtán ára fluttist hann suður og stundaði ýmis störf þar til hann hóf nám við Iðnskólann í Hafnarfirði og lærði múraraiðn. Hann tók þátt í mörgum stórum múraraverkum víða um land. Hann bjó um hríð á Blönduósi þar sem hann kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni. Þau hjónin byggðu sér síðar hús í Mosfellsbæ þar sem þau hafa búið síðan. Sigfús starfaði jafnframt sem vaktmaður á Landspítalanum í nokkur ár. Einnig átti hann sendibíl og keyrði um tíma á Nýju sendibílastöðinni.

Áhugamálin voru margvísleg. Um þrítugt fór hann að læra á harmonikku. Sigfús var virkur félagi í Oddfellowreglunni. Honum þótti gaman að vera á ferðinni og hafði unun af því að ferðast og seinni árin fór hann vítt og breitt bæði akandi og fljúgandi. Hann dvaldi oft hjá dóttur sinni í Noregi í lengri tíma. Hann tók að sér ýmis múrverk víðsvegar og vílaði ekki fyrir sér að aðstoða fólk þótt um lengri veg væri að fara. Eftir hann liggja múrverk í Færeyjum, Danmörku, Noregi og Lúxemborg.

Útför Sigfúsar fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 15. janúar 2025, klukkan 13.

Þá er hann elsku pabbi farinn í lengstu ferðina sína. Efst í huga á kveðjustund er þakklæti, þakklæti fyrir að hafa átt svona góðan pabba. Alltaf var hægt að taka upp símann og heyra í pabba. Alltaf kom hann og veitti aðstoð og var bóngóður með eindæmum, allt var hið minnsta mál. Hvort sem það var að flísa, múra eða skutla eða passa drengina mína, allt var hægt að biðja pabba að gera. Vinir okkar Villa urðu fljótt vinir pabba, að aðstoða vini okkar gerði hann með ánægju.

Þegar pabbi vann á Landspítalanum sem vaktmaður hittumst við stundum á göngunum, ég í hjúkrunarnáminu og pabbi á þeytingi um allan spítala. Þá náðum við stundum að fara í mat saman í matsalnum. Pabbi splæsti og gaf mér svo alla matarmiðana sína, hann þyrfti ekkert á þessu að halda sagði hann og laumaði miðunum í lófa minn. Pabbi gaf alltaf af heilum hug og elskaði að dekra við mig enda var ég mikil pabbastelpa. Og við systur, saman skipuðum við heiðurssess hjá pabba. Og fleiri fengu dekur hjá pabba, strákarnir mínir fengu aldeilis frábæran afa sem vildi allt fyrir þá gera. Hann tók þá oft með sér í múrvinnu eða önnur verkefni og guttarnir mínir lærðu að drekka svart kaffi hjá afa og hræra í steypu og að Múrbúðin væri aðalbúðin í bænum. Á hverjum degi greip pabbi í harmónikkuna. Ég veit að nikkuspilið gaf honum svo mikið, hann var óþreytandi við að reyna að finna sér sífellt léttari og þægilegri nikku svo hann gæti haldið áfram að spila á hljóðfærið sitt þrátt fyrir að verða smátt og smátt meira veikburða. Mitt uppáhaldslag var Capri Katarina og ómaði það oft á nikkunni hjá pabba.

Takk pabbi minn fyrir að leiða mig styrkri hendi inn kirkjugólfið á brúðkaupsdaginn minn og fyrir fallega undirspilið á harmónikkuna þegar við Villi stigum okkar fyrsta dans sem hjón. Ég er líka þakklát fyrir að hafa náð að vera hjá þér þína síðustu daga á lungnadeildinni og fá að halda í höndina á þér. Prinsinn, prinsinn okkar eins og þær kölluðu þig á A6. Já þú varst svo sannarlega prinsinn okkar allra með einstaklega gott hjartalag.

Ég kveð þig nú pabbi minn, söknuðurinn er mikill.

Þín dóttir,

Guðrún Erla.

Ég kynntist Sigfúsi 1988 þegar hann kynntist mömmu og þau hófu sína göngu.

Við Sigfús áttum strax vel saman, við vorum líklega á svipuðum hraða, hann var alltaf snöggur til, ekki eftir neinu að bíða og best að drífa hlutina af. Það var auðvelt að leita til hans og alltaf lítið mál að hjálpa sínu fólki. Hann hefur hjálpað mér að flytja oftar en ég hef tölu á. Hann hafði einlægan áhuga á því sem barnabörnin voru að gera og alltaf tilbúinn að aðstoða ef þurfti.

Sigfúsi leið aldrei betur en þegar allt hans fólk var heima í Hjallahlíðinni, gat lagt sig þrátt fyrir lætin, líklega svaf hann aldrei betur. Það sem einkenndi Sigfús var dugnaður og vinnusemi, jafnlyndi og æðruleysi þrátt fyrir erfið veikindi og ekki má gleyma harmonikkunni og bílakaupum.

Sigfús greindist með lungnaþembu fyrir 25 árum og þrátt fyrir það hætti hann ekki alveg að múra fyrr en 73 ára og eflaust hefur það hjálpað honum til að halda lungunum í þjálfun. Þegar þrekið minnkaði fann hann sér minni og léttari harmonikku, alltaf hugsað í lausnum og uppgjöf var ekki til hjá honum. Aldrei heyrði ég hann kvarta þótt lungun gerðu honum erfitt fyrir.

Sigfús fylgdist vel með þjóðmálum og það var ekkert öðruvísi í síðustu kosningum þótt hann væri mjög lasinn. Hann kaus bara á sjúkrahúsinu.

Takk fyrir að vera afi barnanna minna og fá að vera hluti af þínum hópi – takk fyrir allt.

Íris Fjóla.

Kæri tengdapabbi. Það kom að því, svo allt of snemma, og þú varst svo engan veginn tilbúinn að fara frá afrekunum þínum eins og þú kallaðir börnin þín og afkomendur þeirra þegar þú varst að segja hjúkkunum á A6 frá þeim. Við vorum búnir að þekkjast í yfir 33 ár og eiginlega held ég næstum að ég hafi kynnst þér áður en ég kynntist Guðrúnu eða allavega var það á sama tíma. Ég leigði herbergi í Breiðholtinu hjá hjónum sem voru að breyta húsnæði og þar var múrari líka að vinna sem sá um allar flísalagnir. Ég greiddi fyrir leiguna með því að aðstoða múrarann. Þegar Guðrún fór svo að segja þér frá sveitastráknum sem hún væri byrjuð að hitta, hann byggi í Reykjavík og leigði í Breiðholti, þá allt í einu fórst þú að spyrjast fyrir um þennan strák sem var að hjálpa þér. Þá kom í ljós að þú varst pabbi hennar Guðrúnar (það fékk sko ekki hver sem er að slá sér upp með henni.) Þegar þú afhentir mér svo afsalið um að nú væri hún mín og ég gæti ekki skilað henni á brúðkaupsdaginn okkar þann 6.5. 2006 varð ég stoltur og skal heita þér því að passa eitt af afrekunum þínum og afastrákana þína. Í þessi 33 ár sem við höfum þekkst höfum við gert mikið saman. Þú settir handbragð þitt á allar okkar eignir; Drápuhlíðina, Furuhlíðina og Fjellstien þegar við bjuggum í Noregi. Svo Furuásinn þegar við fluttum aftur heim til Íslands.

Alltaf varst þú mættur til að hjálpa, þoldir ekki leti en gafst þér alltaf tíma til að spjalla og miðla þekkingu auk þess sem þú tókst strákana okkar Guðrúnar Erlu með þér í múrverk hingað og þangað, nú eða bara í bíltúr. Þú elskaðir að keyra og við erum löngu búin að missa töluna á fjölda bíla sem þú áttir í gegnum tíðina en ég giska á 100 plús. Þegar við fluttum til Noregs 2010-2020 þá fannst þér það stórsniðugt. Við vorum líka svo heppin að þú komst eins oft og þú gast í heimsókn til Noregs og dvaldir yfirleitt í góðan tíma, elskaðir veðrið og að vera með fólkinu þínu

Músíkin og harmonikkan voru sérstaklega í uppáhaldi hjá þér og til að þurfa ekki að burðast með þetta á milli landa þá keyptir þú bara nikku í Noregi og áttir hjá okkur. Kórinn á norsku nikkunum var reyndar ekki sá sami og á þeim íslensku en þær sænsku voru með réttum kór. Ekki var það nú verra því þá þurftum við að keyra yfir til Svíþjóðar til að skoða nikkur og kaupa. Ein slík ferð var farin þegar þú hafðir fundið búð á netinu sem var örstutt inn í Svíþjóð að þú hélst. Eða alveg þangað til við spurðum kortagúggul hversu langt væri að keyra þangað. Það reyndust ekki nema um 500 km hvor leið. Okkur fannst það nú ekki langt. Lögðum af stað eldsnemma morguns og keyrðum lengst inn í Svíþjóð, prófuðum tvær til þrjár nikkur og keyptum eina og keyrðum svo til baka aftur. Þetta var mjög langur og skemmtilegur dagur.

Þínar síðustu vikur varstu á A6 á Borgarspítalanum og við gátum líka verið hjá þér síðustu sólarhringana. Þegar svo kallið kom var mikill friður yfir þér þó svo að þú hefðir ekki verið tilbúinn að fara frá okkur. Hvíl í friði elsku tengdapabbi.

Lengri grein á www.mbl.is/andlat

Þinn tengdasonur,

Vilmundur.

Það var árið 1984 sem ég kom fyrst inn á heimili Sigfúsar og Jóhönnu. þar var gott að koma og ég man að mér leið svo vel að ég lagðist upp í sófa strax og lét eins og ég væri heima hjá mér. Þá vorum við Eiríkur bara vinir. Um vorið 1985 varð ég tengdadóttir.

Sigfús vann mikið og ég man að hann var alltaf að koma með eitthvað heim sem hann tók upp í vinnu, örbylgjuofn og önnur tæki. Hann var alltaf tilbúinn að koma til móts við þá sem hann vann fyrir. Ég bjó í Mosfellssveit á þessum tíma og ekki komin styttri leiðin eins og í dag og á þessum tíma voru Jóhanna og Sigfús mjög liðleg að lána Eiríki bílinn svo hann gæti keyrt í Mosó. Ég var mjög þakklát fyrir það. Sigfús var duglegur að hjálpa Eiríki við að fá vinnu og kenndi honum heilmikið í múrverki. Síðar skildi leiðir Jóhönnu og Sigfúsar og ég man alltaf hvað það kom mér á óvart. Þau voru hin fullkomnu hjón í mínum huga. Sigfús kynntist svo Hönnu sem er yndisleg og hefur staðið og stutt við hann í allri vitleysunni sem honum datt í hug. Ef hann var ekki að kaupa og selja bíla þá var hann að skoða smáauglýsingar með harmonikkum. Þau voru samrýnd og áttu sínar gæðastundir ásamt því að fá að njóta sín hvort í sínu lagi.

Gullmolinn þeirra Eygló Sif bættist í systkinahópinn og var aldeilis velkomin viðbót í fjölskylduna.

Sigfús elskaði börnin sín og afkomendur, á því er enginn vafi. Hann var alltaf tilbúinn að vakna um miðjar nætur og sækja og skutla og nutu vinirnir líka góðs af. Hann náði að heilla langafabörnin með harmonikkuleik og sinni einstöku nærveru. Það var líka púki í honum þar sem hann elskaði að æsa fólk upp sem hafði sterkar skoðanir. Við sem þekktum hann gátum hlegið að því. Minn síðasti hittingur var á Landspítala þar sem Sigfús vafði starfsfólkinu um fingur sér. Hann hafði ekkert breyst, sami Sigfús og ég kynntist 1984 var þarna árið 2024.

Elsku Sigfús, þín verður sárt saknað en minningarnar lifa. Ég hlakka til hittings síðar þar sem við getum spjallað og tekist á um það sem er á döfinni. Kærleikskveðjur til allra ástvina. Elsku Hanna, börn og afabörn og langafabörn, hugur minn er hjá ykkur.

Sandra Jónasdóttir.

Elsku afi takk fyrir allt. Takk fyrir allar gæðastundirnar og sérstaklega meðan ég bjó í Noregi. Það var svo gaman að fá þig í heimsókn. Þú komst alltaf með eitthvað gott og spennandi með þér út til okkar. Ég á eftir að sakna þess að geta ekki lengur spilað með þér, þú á nikkuna og ég á saxófóninn. Allir bíltúrarnir sem við fórum í og skoðuðum alls konar bíla á alls konar bílasölum. Og hjálpa þér með tölvuna, að laga hana, stundum varstu í vandræðum með tölvumálin og þá gátum við lagað það saman. Takk fyrir allt afi minn, sakna þín.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig,

og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,

sú rétta virðist aldrei greið.

Ég geri margt sem miður fer,

og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,

ég betur kunni þjóna þér.

Því veit mér feta veginn þinn

og verðir þú æ Drottinn minn.

(Pétur Þórarinsson)

Þinn afastrákur,

Steinar Ingi.

Ég kveð Sigfús bróður minn og mun sakna hans mikið. Hann er látinn eftir erfið veikindi nokkur undanfarin ár. Sigfús var þriðji í röðinni okkar sjö systkina. Minningar leita á mann þegar komið er að kveðjustund.

Við lékum okkur mikið saman sem krakkar enda aðeins tvö ár á milli okkar. Það var gott að eiga Sigfús að og hann var góður stóri bróðir, smá stríðinn en það var mikill styrkur að vera í sama liði og hann. Hann lét ekki neinn eiga hjá sér ef ráðist var á hann eða okkur. Hann var passasamur á okkur yngri systkinin og vildi allt fyrir okkur gera ef á þurfti að halda.

Við vorum einn vetur á sama tíma í barnaskóla. Skólinn var heimavistarskóli, eldri og yngri deild og var hvor deild þrjár vikur í skólanum í einu. Það mátti fara heim um helgar eftir kaffi á laugardögum en við áttum að vera mætt í skólann fyrir kvöldmat á sunnudögum. Foreldrar okkar áttu ekki bíl þá og ef maður gat ekki sníkt far heim var maður bara í skólanum yfir helgina. Það var gott að eiga stóra bróður í skólanum sem hægt var að leita til. Ef eitthvað bjátaði á hjá manni var hann manna fyrstur að bjóða aðstoð og hjálp.

Ég hélt alltaf að hann yrði bóndi því hann var mikið með föður okkar við fjárrag og gegningar og var búmannsefni fannst mér, átti hest og kindur. En það átti ekki fyrir honum að liggja og hann flutti úr sveitinni. Eftir að við fermdumst varð lengra á milli okkar en við heimsóttum hvor annan og töluðumst oft við enda var alla tíð kært á milli okkar.

Hann festi ráð sitt og bjó lengi í Hafnarfirði, lærði múriðn og starfaði lengst af við það. Að vísu var hann um tíma með sendibíl á Nýju sendibílastöðinni og keyrðum við þar á sama tíma. Síðustu árin bjó hann í Mosfellsbæ. Börnin hans eru öll efnisfólk og voru þau og fjölskyldan honum alla tíð ofarlega í huga enda var hann mikill fjölskyldumaður.

Fjölskyldan hefur misst mikið við fráfall Sigfúsar og hans verður sárt saknað.

Blessuð sé minning hans.

Finnur
Eiríksson.

hinsta kveðja

Elsku besti pabbi minn, takk fyrir allt. Þú varst einstakur karakter og vildir allt fyrir mig og aðra gera. Þótt það sé erfitt að kveðja núna þá er ótrúlega dýrmætt að eiga svona margar góðar minningar. Ég mun passa að segja afabörnunum allar skemmtilegu sögurnar af þér.

Ég mun sakna þín óheyrilega mikið.

Þín pabbastelpa,

Eygló Sif.