Aflögunargögn sýna að kvika heldur áfram að safnast fyrir undir Svartsengi á Reykjanesskaga. Land rís þar enn.
Haldi kvikusöfnun áfram á sama hraða verða tólf milljónir rúmmetra af kviku undir Svartsengi í lok þessa mánaðar, eða í byrjun febrúar.
Samhliða því munu aukast líkur á kvikuhlaupi eða eldgosi, að mati Veðurstofu Íslands þar sem stuðst er við líkanreikninga.
Í tilkynningu er tekið fram að líkönin séu reist á áætluðu kvikuinnflæði á hverjum tíma en litlar breytingar á því innflæði geti haft áhrif á matið á mögulegum tímasetningum næsta eldgoss.
Eins og síðustu vikur hefur verið lítil jarðskjálftavirkni í kringum Svartsengi.
Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, sagði á dögunum í samtali við mbl.is að jarðvísindamenn hefðu uppfært spálíkan um næsta eldgos í Sundhnúkagígaröðinni í takti við það að síðasta gos kom nokkru fyrr en spáð hafði verið. Eldgosið hófst 21. nóvember og var það um tveimur vikum fyrr en spáð hafði verið.
Eins og fyrr segir þá mun, samkvæmt spálíkönum, landrisið ná neðri vikmörkum um næstu mánaðamót en engu að síður eru taldar meiri líkur á því að eldgos hefjist þegar eitthvað er liðið á febrúar.
„Við höfum uppfært spálíkönin okkar út frá síðasta viðburði því hann hófst aðeins fyrr en við höfðum spáð. Allt hefur verið endurreiknað núna og við teljum líkanið betra núna. Við búumst við því að fara yfir neðri vikmörkin í lok janúar. En það eru meiri líkur á því að það verði aðeins seinna, en við verðum komin upp á tærnar undir lok janúar,“ sagði Jóhanna Malen.