Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Ólafur Ingimarsson lýsir því sem margir fótboltaáhugamenn kannast við:
Fótboltinn er heljar hark
af honum vil ei missa.
Alltaf skulu skora mark
ef skýst ég fram að pissa.
Fía á Sandi eða Hólmfríður Bjartmarsdóttir kastar fram:
Oft er vit í orðin lagt,
oft er snilld að brúka kjaft,
en orðið sem var aldrei sagt
oft er lengst í minni haft.
Eyjólfur Ó. Eyjólfsson kastar fram og minnir rímið á limruskáldið Edward Lear, sem oft notaði sama rímorðið í langlínunum:
Augunum aftur ég lygni
og óska þess heitt að það lygni,
þá gefur mér blund
eina gloppótta stund
veturinn lúmski og lygni.
Jón Jens Kristjánsson bregður einnig á leik í limrum:
Það finnast menn sem ennþá eru
að kvarta
yfir nýjum rafgeymi frá Varta
sem að dugði spart
er sárvantaði start
„um sumarkvöld við álftavatnið bjarta“.
Og mælti einn er sá þar sýrutauma
- mér sýnist ver' í geyminum að krauma
svo lyngþúfunni und
ég legg mig þá um stund
„uns leiðist ég í sólu fegri drauma“.
Ingólfur Ómar Ármannsson kastar fram hestavísu:
Eykur fljótur fiman gang
for og grjóti þeytir.
Yfir hnjótur, vítt um vang
vökrum fótum beitir.
Magnús Halldórsson lýsir tíðinni:
Víða svellið gerist glært,
gaman vill því kárna.
Út er nokkuð illa fært,
utan skaflajárna.
Að síðustu gáir Gunnar J. Straumland til veðurs:
Norp á snjónum nýföllnum,
njólastönglar brotna,
flórsykurinn fýkur um
freratertubotna.