Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Það leikur enginn vafi á að borgarstjórn Reykjavíkur er sérstaklega umhugað um jöfnuð og sanngirni. Þess vegna ákvað hún að breyta neðri hluta Garðastrætis í rauða götu, P1, sem þýðir að einungis má leggja þar í þrjá tíma í senn frá 9-21, alla daga vikunnar, gegn afar vægu gjaldi, 600 krónum á klukkustund. Og eins og allir ættu að vita þá gilda íbúakort ekki í rauðum götum. Það er sérstaklega ánægjulegt vegna þess að þá fá íbúarnir tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn þegar þeir leita að bílastæðum í Öldugötu, Bárugötu, Ránargötu og víðar þar sem íbúakortin gilda enn. Það er vitaskuld bara tímaspursmál hvenær borgarstjórn breytir þeim í rauðar götur því það er jú nauðsynlegt að gera þeim sem eiga erindi í miðbæinn kleift að leggja bílum sínum í íbúagötum Vesturbæjar.
Það er alls ekki svo að borgarstjórn sé að smjaðra fyrir útlendingum og hóteleigendum þegar hún hindrar íbúa og eigendur húsa í venjulegum íbúagötum eins og Garðastræti að leggja við heimili sín. Það er af og frá. Fyrst og fremst er verið að hugsa um hag íbúanna og sýna þeim hvers konar lífsstíl hún vill að þeir tileinki sér. Þetta er allt hluti af heiðarlegu stjórnmálunum sem borgarstjórn stundar. Hvað er fegurra en móðurleg handleiðsla snillinga á borð við Dóru Björt Guðjónsdóttur þegar innleiða skal breyttan lífsstíl meðal íbúa borgarinnar? Mér dettur ekkert í hug.
Nú vill svo til að nokkur sendiráð eru við eða í næsta nágrenni við Garðastræti. Til dæmis rússneska sendiráðið og það indverska. Borgarstjórn er svo yndisleg í viðleitni sinni við að innleiða bíllausan lífsstíl hjá útlendingunum sem þar starfa og búa að hún stúkar af sérstök einkabílastæði við aðsetur þeirra í Garðastræti og Túngötu. Auðvitað verða starfsmenn sendiráðanna að geta lagt í einkastæðum! Minna má það nú varla vera. Samtals eru fjögur einkastæði fyrir framan rússneska sendiráðið. Við aðsetur rússneska sendiherrans í Túngötu eru tvö einkastæði og það þótt húsinu fylgi bílskúr. Sama má segja um indverska sendiráðið, þar eru tvö einkastæði frátekin þótt húsinu fylgi bílskúr. Skýrara dæmi um jöfnuð og sanngirni í verki er vandfundið.
Skammt fyrir ofan gatnamót Garðastrætis og Túngötu er aðsetur þýska sendiherrans og franska sendiráðið. Engrar móðurlegrar handleiðslu borgarstjórnar við að innleiða hjá þeim þýsku og frönsku nýjan bíllausan lífsstíl er þörf þar vegna þess að þessar byggingar standa á einkalóðum með lágmark fjórum bílastæðum hvor og bílskúrum að auki. Ef einhver hélt að þessi fjöldi bílastæða nægði þessum Íslandsvinum þá er það lítils háttar misskilningur vegna þess að hinum megin við götuna, á gjaldskylda bílastæðinu við Landakotskirkju, hefur sendiráðunum verið úthlutað tveimur einkastæðum hvoru. Samtals fjórum stæðum. Fjórir er svo falleg tala. Hún táknar jöfnuð og kærleika þar sem tveir plús tveir leggjast saman. Allt í anda heiðarlegra stjórnmála, sanngirni og jöfnuðar þar sem hinir valdaminni eru varðir fyrir yfirgangi hinna valdameiri.
Fyrst ég er farinn að dásama stjórnvisku borgarstjórnar í viðleitni hennar til að tryggja hag hinna valdaminni verð ég að láta þess getið að neðst í Túngötu, á gjaldskylda bílastæðinu á horni Túngötu og Suðurgötu, var borgarstjórn svo rausnarleg að taka frá tvö stæði fyrir sendinefnd ESB. Þetta er enn eitt dæmið um jöfnuð, sanngirni og réttlæti í anda borgarstjórnar. Það er ekki laust við að ég finni til þjóðernisstolts yfir því að vita að stæði útsvarsgreiðenda í borginni séu frátekin fyrir útsendara Evrópusambandsins. Sendinefndin verður jú að geta unnið sitt mikilvæga starf í friði! Hún á vitaskuld ekki að þurfa að eyða sínum dýrmæta tíma í að leita að bílastæðum. Það er af og frá.
Ef einhverjum dettur í hug að verið sé að færa útlendingum gæði sem okkur útsvarsgreiðendum, íbúum og kjósendum við sömu götu, jafnvel aðeins nokkrum metrum frá, er neitað um, þá er það algjör misskilningur. Borgarstjórn myndi aldrei láta sér detta í hug að smjaðra fyrir útlendingum. Hjá henni er jöfnuður og sanngirni í fyrirrúmi. Eða er það ekki annars?
(Fyrir þá sem vilja sjá með eigin augum hvernig jöfnuður, sanngirni, stjórnviska, skynsemi og heiðarleiki borgarstjórnar í þessu máli birtist í verki er hægt að fara á Google Maps í tölvunni og spássera eftir þessum götum.)
Höfundur er rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður.