Korputorg Fyrirhuguð vetnisframleiðsla verður á svipuðum slóðum og tengivirkið norðan Korputorgs er nú.
Korputorg Fyrirhuguð vetnisframleiðsla verður á svipuðum slóðum og tengivirkið norðan Korputorgs er nú. — Morgunblaðið/Karítas
Uppi eru áform um að hefja framleiðslu vetnis og byggingu vetnisáfyllingarstöðvar við hlið tengivirkis Landsnets og dreifistöðvar Veitna við Korpu í Reykjavík, en ætlunin er að nýta vetnið sem eldsneyti fyrir samgöngur

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Uppi eru áform um að hefja framleiðslu vetnis og byggingu vetnisáfyllingarstöðvar við hlið tengivirkis Landsnets og dreifistöðvar Veitna við Korpu í Reykjavík, en ætlunin er að nýta vetnið sem eldsneyti fyrir samgöngur. Það eru fyrirtækin Landsvirkjun, Linde og Olís sem standa að verkefninu, en það er kynnt í skipulagsgátt.

Framleitt með rafgreiningu

Vetni er framleitt með rafgreiningu vatns og er ætlunin að setja upp 5 megavatta rafgreini í því skyni og að honum verði komið í rekstur um mitt ár 2027, en framleiðslugetan er áætluð 775 tonn af vetni á ári. Þá er og gert ráð fyrir stækkun rafgreinisins í allt að 10 megavött innan fárra ára, mun þá framleiðslugetan tvöfaldast og verða 1.550 tonn á ári þegar þar að kemur.

Verkefninu er svo lýst í skipulagsgátt að með því verði stigin stór skref í orkuskiptum á Íslandi, einkum í þungaflutningum á landi og í iðnaði, og að það styðji við markmið stjórnvalda í orku- og loftslagsmálum.

Sérþekking í vetni

Auk Landsvirkjunar kemur verkfræðifyrirtækið Linde að þessu verkefni, en það býr yfir sérþekkingu í vetnistækni. Ætlunin er að dreifa vetni fyrir viðskiptavini víða um land. Auk Landsvirkjunar og Linde stendur Olís að verkefninu, en fyrirtækið hyggst koma vetnisáfyllingarstöð í rekstur og gera rekstraraðilum vetnisknúinna ökutækja af ýmsum stærðum og gerðum kleift að nýta vetni til áfyllingar. Verður áfyllingarstöðin við hlið rafgreinisins.

Uppbygging vetnisinnviða

Þá er ætlunin að byggja upp sameiginlega vetnisinnviði til dreifingar til notenda, einkum í flutningum.

Ætlunin er að starfseminni verði komið fyrir á hluta lóðar við Blikastaðaveg 10, en lóðin í heild er um 18.300 fermetrar að stærð. Er unnið að því að tryggja verkefninu lóðina í samráði við eiganda hennar, Reykjavíkurborg, og aðra hlutaðeigendur, sem eru Landsnet, Orkuveita Reykjavíkur og Veitur.

Deiliskipulagssvæði lóðarinnar afmarkast af Vesturlandsvegi til austurs, Hallsvegi til suðurs og Blikastaðavegi til norðurs. Deiliskipulagssvæðið er tæpir 16,3 hektarar að stærð og skiptist í dag í tvær lóðir, annars vegar lóð fyrir aðveitustöð og hins vegar lóð fyrir rýmisfreka verslun. Veitur og Landsnet hafa verið með starfsemi á lóðinni við Blikastaðaveg 10 frá árinu 1973, en þar er að finna tengivirki Landsnets ásamt ríflega 600 fermetra byggingu sem hýsir aðveitustöð. Nú standa yfir framkvæmdir á lóðinni fyrir nýtt spenni- og tengihús sem kemur í stað núverandi tengivirkis. Næstu skref verkefnisins eru sögð ráðast af niðurstöðum viðræðnanna og munu framkvæmdir ekki hefjast fyrr en þau mál verða til lykta leidd.