Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Mér fannst það mjög áhugavert þegar ný ríkisstjórn ákvað að leita til almennings um tillögur til sparnaðar í íslenska þjóðfélaginu, og ekki síst að ætlunin væri að nota gervigreind til að greina gögnin,“ segir Hjörtur Sigurðsson framkvæmdastjóri Mynstru, nýs ráðgjafarfyrirtækis á sviði gervigreindar.
„Þegar ég heyrði þetta fór ég að velta því fyrir mér hvernig maður myndi gera þetta og svo var ég líka forvitinn að vita hvað fólk væri að segja,“ segir Hjörtur. Hann lét ekki sitja við orðin tóm, heldur dreif sig í að kanna þetta sjálfur og setja upp síðu með upplýsingum sem hægt er að skoða frá og með deginum í dag á slóðinni: verumhagsyn.mynstra.is/.
„Ég vona að þetta átak Kristrúnar [Frostadóttur] beri árangur því maður vill að ríkið sé rekið á hagkvæmasta hátt og að ríkið fari ekki stöðugt vaxandi. En á sama tíma vill maður líka fá sína þjónustu. Við viljum ekki sóun í opinberum rekstri, svo vel sé farið með skattfé borgaranna. Mér fannst þetta ágætis hugmynd því ég er mjög hrifinn af gegnsæi og opnu lýðræði.“
Auðtrúa gervigreind
Hjörtur segir að mörgu að huga þegar farið er í svona verkefni.
„Þetta er tilraunaverkefni og ég gat bara unnið með þau gögn sem voru opinber á síðunni þar sem almenningur sendi tillögur sínar inn í samráðsgátt stjórnvalda. Síðan þarf að fínprófa sig áfram, því gervigreindin Open AI getur verið bæði hlutdræg og eins auðtrúa, svo það þarf að setja inn fleiri breytur til að nálgast eins vel raunveruleikann og hægt er.
Sem dæmi um það er að fólk slær kannski fram einhverjum sparnaðartölum sem eru ekki endilega raunhæfar, en gervigreindin tekur það sem staðreynd, nema hún þurfi að taka tillit til annarra þátta.“
Annað dæmi sem Hjörtur tekur er að einhverjir lögðu til að Ísland segði sig úr NATO, því þar gæti sparast heill hellingur. „Þar er ekkert tillit tekið til þess að slík ákvörðun gæti orðið þjóðinni dýrkeypt, tala nú ekki um í ljósi ástandsins í heiminum. Þannig að það fer mikil vinna í að vinna með niðurstöðurnar svo útkoman sé sanngjörn og trúverðug þegar tillit er tekið til margra þátta.“
Sparar mikinn tíma
Hjörtur segir að sér hafi fundist mjög áhugavert hvað það var auðvelt að láta gervigreindina vinna úr 1.519 tillögum, sem er helmingur allra tillagnanna sem hafa borist, og skipta þeim í flokka. „Ég hef í sjálfu sér ekkert endilega áhuga á niðurstöðunum sem slíkum, en vildi sjá hvernig væri hægt að setja þetta upp af einhverju viti,“ segir hann er hann segist hafa unnið í þessu síðustu tvær helgar og mest um síðustu helgi.
Hjörtur bendir á að tillögurnar séu mjög fjöbreyttar þótt mikill meirihluti lúti að hagkvæmni og skilvirkni í opinberum rekstri sem hann segir að hafi ekki komið á óvart. Í þeim flokki hafi líka verið talsvert um tillögur um afnám einkasölu ríkisins á áfengi og tóbaki, auk þess að nýta tæknina betur til fjarfunda og minnka þar með ferðakostnað hins opinbera.
Mat á tillögum
„En þetta er mjög breitt svið og tillögurnar eru mjög fjölbreyttar. Það þarf líka að taka tillit til þess að sumir eru mjög reiðir, aðrir eru með miklar langlokur, og enn aðrir með uppbyggilegar tillögur og svo aðrir með illframkvæmanlegar tillögur. Því þurfti ég að láta gervigreindina meta gæði tillagnanna út frá t.d. hversu auðveldar þær væru í framkvæmd, kostnaði, hversu mikil áhrif þær myndu hafa og hversu raunhæfar þær væru.
Innbyggð hlutdrægni möguleg
„Gervigreindin er mjög gott tól til að nota til að greina gögn, en sá sem notar tólið ber mikla ábyrgð á því að niðurstöðurnar verði óhlutdrægar,“ segir Hjörtur og bætir við að gervigreind geti, eins og fólk, haft innbyggða hlutdrægni og túlkað athugasemdir á ólíkan hátt milli keyrslna. „Fólk þarf að skoða þetta með gagnrýnu hugarfari, en það eru miklir möguleikar að flokka gögn með gervigreind í dag.“
Dæmi um tillögu
Gagnsæir biðlistar
„Með reglulegu millibili birtast fréttir af lengd biðlista eftir aðgerðum. Auka þarf gegnsæi í þessum biðlistamálum þannig að fólk sé ekki tví- eða þrítalið vegna biðlista innan og utan Landspítala. Það væri til hagsbóta að koma á miðlægum gagnagrunni þannig að ljóst væri hversu margir bíða eftir aðgerð þannig að yfirsýn yfir málaflokkinn væri betri líkt og gert hefur verið í biðlistamálum hjúkrunarheimila. Þannig verður fjármunum betur varið og allir sitja við sama borð varðandi biðtíma. Kjósi fólk einn stað umfram annan getur það þýtt lengri biðtíma en það er þá val sjúklingsins.“