Árni Grétar Jóhannesson fæddist 6. desember 1983 á Patreksfirði. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítala – háskólasjúkrahúss við Hringbraut 4. janúar 2025.

Foreldrar Árna Grétars voru Kristín Ólafsdóttir, verkalýðsformaður á Tálknafirði, f. 8. mars 1959, d. 9. janúar 2004, og Stefán Jóhannes Sigurðsson, vélvirki á Tálknafirði, f. 12. febrúar 1953, d. 23. janúar 1999.

Systkini Árna Grétars eru: Ólafur Sveinn, f. 30. september 1979, maki Nanna Kristjana; Eydís Hulda, f. 13. júlí 1988, maki Hlynur; Gunnar Smári, f. 4. september 1992. Hálfbræður Árna Grétars, samfeðra, eru: Olafur Thor, f. 31. júlí 1975, maki Stephanie; Sigurður Karl, f. 11. janúar 1977.

Árni Grétar trúlofaðist Elísabetu Eyþórsdóttur, f. 19. september 1986, þau slitu samvistum. Barn þeirra er Jóhannes, f. 3. maí 2008. Árni Grétar trúlofaðist Hlíf Steinsdóttur, f. 1. júlí 1987, þau slitu samvistum. Barn þeirra er Hrafn, f. 3. maí 2018. Árni Grétar var trúlofaður Bryndísi Brim Baldvinsdóttur, f. 27. júní 1988.

Árni Grétar ólst upp á heimili foreldra sinna á Tálknafirði ásamt þremur systkinum sínum. Hann gekk í grunnskóla Tálknafjarðar og lauk skólagöngu þaðan árið 1999. Aðeins fjórtán ára gamall tók hann þátt í Músíktilraunum ásamt vinum sínum frá Tálknafirði, sem skipuðu hljómsveitina Equal.

Leiðin lá til Reykjavíkur haustið 1999, þegar Árni hóf nám á tölvubraut Iðnskólans í Reykjavík. Hann stoppaði þar stutt við og naut sín betur við hin ýmsu störf, eins og á lagernum hjá Sól Víkingi og í afgreiðslunni á KFC, hann fór einnig nokkra túra á sjóinn. Árni Grétar fluttist alfarið til Reykjavíkur árið 2005 og starfaði lengi vel sem sölumaður og bílstjóri hjá fyrirtækinu Úrvals eldhúsum ehf. Það var svo árið 2013 sem hann hóf störf á leikskólanum Brákarborg og þar naut hann sín vel.

Samhliða þeim fjölbreyttu störfum sem Árni Grétar sinnti var hann iðinn við tónlistina og eftir hann liggur fjöldinn allur af tónsmíðum og útgáfum. Ungur stofnaði hann hljómsveitina Equal og sem plötusnúður kom hann fram undir listamannsnafninu DJ Dorrit. Aukinheldur var Árni Grétar best þekktur sem tónlistarmaðurinn Futuregrapher. Tónlistin var hans aðalstarf alla tíð.

Tengslin við Tálknafjörð voru aldrei langt undan hjá Árna Grétari, sem má til að mynda lesa af laga- og plötutitlum hans í gegnum tíðina. Sem dæmi rak hann plötuútgáfu sem ber heitið Móatún 7 með vísan í æskuheimili hans á Tálknafirði. Hann var einn stofnenda Möller Records. Hann kom fram á tónlistarhátíðum á borð við Sonar Reykjavík, Extreme Chill og Iceland Airwaves. Einnig kom hann fram á hátíðum á erlendri grundu.

Útför Árna Grétars fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 16. janúar 2025, klukkan 15.00.

Fjörðurinn varð stilltur um stund. Brimið lægði og hafið missti taktinn. Hrafn á flugi, sveif til jarðar, hoppaði varlega í var og stakk höfði undir væng. Hólsáin felldi tár fjallanna, þennan gamlársdag, árið 2024. Árni Grétar bróðir minn er allur. Hann hefur slegið sinn síðasta takt. Skrifað sinn síðasta kóða. Líkt og sólsetur að vori tókst honum að gæða umhverfi sitt lífi, með brosi og heiðbláum augum. Ástríðufullur og einstaklega skemmtilegur snerti hann hjörtu samferðafólks, vina og kunningja. Með einlægri framkomu og einstökum stíl. Íklæddur köflóttri skyrtu, gallabuxum, derhúfu og í ullarsokkum. Iðulega með kaffibolla við hönd. Maður sem elskaði miðbæ Reykjavíkur, Kolaportið og Sundhöllina, jafnt á við dalina og fjöllin á Tálknafirði. Maður kontrasta og sköpunar. Faðir, bróðir og unnusti. Taktur þinn stöðvaðist um stund. Með undiröldunni vaknar hann að nýju, í gegnum tónverk þín höldum við takti þínum lifandi.

„Dáið er allt án drauma“, orti ungur Halldór Kiljan Laxness. Í þessum orðum Nóbelsskáldsins finn ég sjálfan mig horfa á spegilmynd þína. Eins sárt og það kann að reynast ertu dáinn, lífið sem við áttum saman er horfið. En finnur mig aftur í draumum og minningum. Hugur minn leitar að litla bróður, sem ekkert aumt mátti sjá, viðkvæmum strák sem vildi vera góður og leitaði að fegurðinni í lífinu. Hrifnæm sál sem elskaði ævintýri, tónlist og kvikmyndir. Ég vil að þú vitir að ég geymi aðeins góða drauma um þig og samband okkar.

Megi allar góðar vættir vaka yfir strákunum þínum, Jóa og Krumma. Minningin um hjartahlýjan pabba fylgir þeim, um aldur og ævi. Ég kveð þig í hinsta sinn. Harmi sleginn, fullviss um það, að ég á eftir að sakna þín alla ævi. Elsku bróðir minn.

Ólafur Sveinn Jóhannesson.

Minn kærasti frændi.

Nú er leiðinni þinni lokið eftir mikla baráttu við svöðusárin hið innra sem bara vildu ekki gefa þér nokkur grið.

Ég sagði þér það aldrei en ég skildi þessa líðan þína svo vel – þetta þunga grjót sem ekkert vill haggast.

Enn kemur þungt högg í janúar. Það er nú sá mánuður sem er í minnstu uppáhaldi hjá mér.

Þegar þú fæddist var ég með yngri dóttur mína litla. Hún er fædd aðeins fyrr sama árið. Þá var ekki til Facebook en þá var til Gréta frænka sem gegndi einfaldlega því hlutverki að tengja okkur saman sem vorum hist og her um landið. Jú, það kom strákur hjá Stínu.

Við hittumst ekkert oft á þinni ævi og núna seinni árin sá ég þig skjótast um í miðbænum. Stundum náði ég að hóa í þig og fékk þá hlýjasta knúsið.

Liðið ár var þér afar erfitt en samt var margt gott að gerast líka. Þetta var svolítið eins og barátta góðs og ills sem alltaf hefur verið vinsælt yrkisefni í bíómyndum. Við erum vön því úr þeim að hið góða sigri, ef ekki þá göngum við fussandi út af myndinni.

Þú varðst ekki vonbrigði, hæfileikar þínir og mannkostir voru meiri og betri en hjá ótal mörgum. Þú hefðir bara þurft að sjá þig með þeim augum sem við, ættingjar þínir og vinir, sáum þig. Góðhjartað hæfileikabúnt með hjartað opið til að aðstoða hvern sem helst þurfti á því að halda. Þú hefðir sannarlega rétt skyrtuna af baki þínu til að aðstoða þann sem þú teldir meira þurfa á henni að halda.

Drengirnir þínir og tónlistin verða þinn bautasteinn um lífið. Lífið sem varð allt of stutt og allt of sárt.

Ég átti leið um götuna örstuttu seinna og sá í ákefð lögreglumanns sem reyndi að stýra umferð fram hjá að eitthvað slæmt hafði gerst. Ég vissi ekki að ég myndi sjálf fá þetta högg sem brottför þín hefur valdið.

Þegar gömul frænka fer alveg í vitleysu er erfitt að hugsa sér líðan elsku systkinanna þinna. Enn eru þau komin í auga stormsins í janúar. Í janúar dó pabbi þinn og líka mamma þín. Þú hafðir misst svo mikið.

Drengirnir þínir, Jói og Krummi, þeirra missir er svo stór.

Elsku Óli, Eydís og Gunnar, mínar hlýjustu samúðarkveðjur til ykkar og allra annarra sem eiga um sárt að binda núna. Minningin um dásamlegan bróður mun lifa með ykkur.

Síðast þegar ég sá hann Árna þá skaust hann fyrir horn, ég náði ekki að kalla til hans. Ég hugsaði: æ ég reyni að góla hærra næst.

Nú kemur ekkert næst.

Í huga mér sé ég strönd, hún er hinum megin. Þar standa mamma og pabbi, afi og amma, Biogen og aðrir farnir vinir og gott ef ekki Himmi minn sem skottast þarna í bakgrunninum. Þau eru komin til að taka á móti þér elsku frændi.

Ég sé þig þegar ég kem yfir hinum megin.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Ragnheiður frænka.

Í dag kveðjum við Árna Grétar Jóhannesson. Árni var einstakur. Hann var ótrúlega afkastamikill bæði sem tónlistarmaður og sem tónlistarútgefandi. Eftir hann liggur meira efni en flestir ná að koma frá sér á langri ævi. En Árni var líka einstök manneskja, óvenju kærleiksríkur, hjálpsamur og örlátur. Ég kynntist honum um það leyti sem fyrsta stóra platan hans sem Futuregrapher kom út árið 2012. Mig minnir að ég hafi rekist á hann í Lucky Records og að við höfum tekið spjallið. Við deildum m.a. djúpri virðingu fyrir Bjössa Biogen (Sigurbirni Þorgrímssyni) sem þá var nýfallinn frá.

Einhverju sinni var ég að leita eftir hlutum á tombólu sem við leiðbeinendur í Ási vinnustofu ætluðum að halda til að fjármagna námsferð. Ég kíkti á vini mína í Lucky til að sjá hvort þeir gætu séð af einhverju smáræði. Þá var Árni þar staddur og þegar hann heyrði af erindinu sagði hann strax: Ég læt þig fá 20 diska. Ég vil styrkja þetta. Það var diskurinn Eitt sem hann gerði með Jóni Ólafssyni. Þetta er lítið dæmi um örlæti hans og hjálpsemi.

Árni var öflugur útgefandi. Hann stofnaði m.a. Möller með vini sínum Jóhanni Ómarssyni og svo stofnaði hann útgáfufyrirtækið Móatún 7 árið 2019. Á þeim fimm árum sem Móatún 7 starfaði gaf hún út um 300 útgáfur. Árni sá um allt. Hann fékk efni frá tónlistarmönnum úti um allan heim, hljómjafnaði það fyrir útgáfu, tók myndir fyrir umslögin og sá um hönnun og uppsetningu. Hann lét framleiða diskana, vínilplöturnar og kassetturnar og annaðist alla dreifingu. Og svo gerði hann mikið af tónlist sjálfur. Ég reyndi að kaupa af honum allt sem hann gerði, þannig að við vorum í töluverðum samskiptum í kringum þau viðskipti. Ef ég missti af einhverri útgáfu sendi hann bara samt eintak. Alltaf örlátur. Seint í haust sendi hann mér lítinn Stormtrooper-karl og skrifaði með að hann hefði fengið hann að gjöf frá Bjössa Biogen og nú ætti ég að fá hann. Mér fannst þetta svolítið undarlegt, en kom þessari fínu fígúru fyrir hjá öðrum slíkum á heimilinu og tók mynd og sendi Árna með kærum þökkum. Það gladdi hann. Ég mun passa vel upp á Stormtrooper-inn, enda minnir hann mig bæði á Bjössa og Árna Grétar í hvert sinn sem ég horfi á hann. Það er mikil sorg að missa Árna. Sú sorg er mest fyrir synina hans tvo og nánustu aðstandendur. Ég sendi þeim innilegar samúðarkveðjur. Þetta er líka mikill missir fyrir tónlistarheiminn og alla þá fjölmörgu vini sem hann var í samskiptum við á þeim vettvangi. Hvíl í friði elsku Árni, takk fyrir tónlistina og vináttuna.

Trausti Júlíusson.

Það er svo margt sem við gætum sagt hérna um Árna Grétar, hann kemur mjög oft upp í samtölum okkar á milli.

Við tölum nefnilega frekar oft um hann því hann skiptir okkur öll máli. Það var svo gott að eiga einn Árna Grétar að. Einhvern sem gat spjallað um allt milli himins og jarðar. Einhvern sem innilega vildi kynnast fólki og tengjast því. Einhvern sem var til í alls konar. Einhvern sem var alltaf til í að læra eitthvað nýtt og alltaf til í að hjálpa. Einhvern sem var hlýr.

Einhvern sem var góður vinur.

Það var alveg ótrúlegt hvað hann var snöggur að snúa öllum sem hann kynntist í vini sína. Hann tók vel á móti öllum sem komu í Brákarborg. Það var alveg sama hvort það voru börn eða fullorðnir, nýtt starfsfólk eða gamlir vinir, foreldrar, borgarstjórar eða bara einhverjir ringlaðir gestir af götunni sem höfðu ráfað inn í húsið að leita að einhverju sem hafði verið þar fyrir löngu.

Hann var svo mörgum kostum búinn og einn þeirra var hvað hann var stoltur af sínu. Og það var svo margt sem hann gat verið stoltur af. Hann var stoltur af tónlistinni sinni og öllu sem hann hafði afrekað þar, hann hafði ekki endilega mjög hátt um það en hann var stoltur. Hann var stoltur af því að vinna í Brákarborg og af því að vinna með fólkinu og börnunum þar. En umfram allt varst hann stoltur af strákunum sínum. Hann talaði svo mikið um Krumma og Jóa að okkur fannst öllum eins og við þekktum þá, jafnvel þó að sum okkar hefðu sjaldan hitt þá. Það er alveg öruggt að þó að nú sé stórt skarð í þeirra lífi þá búa þeir ótrúlega vel að því að hafa átt Árna Grétar að og svo margt sem þeir byggja á, er frá honum.

Árni Grétar hafði þessa hlýju sem skiptir fólk svo miklu máli. Það var einhver segulkraftur í honum sem dró fólk til sín. Hann var alltaf til í að aðstoða eða hjálpa þeim sem þurftu á hjálpinni að halda. Við sáum það í flestu sem hann gerði hvað hann var hrein og einlæg sál. Árni Grétar vildi alltaf öllum vel og stundum gekk það meira að segja svo langt að hann gleymdi góðvildinni í eigin garð.

Við í Brákarborg þekktum hann eingöngu af góðu, hlýju og gleði í garð annarra, og söknuðurinn eftir góðum vini er mikill. Þó að stundum hafi verið dimmt yfir honum og hann átt erfitt með að finna ljósið í sér þá sáum við samt alltaf ljósið hans. Það var skært og bjart. Mikið hefðum við viljað getað hjálpað honum að finna það.

Við í Brákarborg erum þakklát fyrir að hafa kynnst þér, Árni Grétar. Við erum þakklát fyrir að hafa átt stað í hjarta þér og vildum óska þess að við hefðum getað haft þig lengur hjá okkur. Við erum þakklát fyrir val þitt að vera með okkur og þakklát fyrir allt sem þú gafst af þér.

Takk fyrir okkur og takk fyrir þig, Árni Grétar

Við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til allra sem þekktu hann en sérstaklega til fjölskyldunnar hans sem skipti Árna Grétar svo miklu máli og við vitum að það er í gegnum þau og tónlistina hans sem Árni Grétar lifir áfram.

Fyrir hönd allra í Brákarborg,

Georg Atli.