Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Framkvæmdir vegna byggingar nýrrar brúar yfir Ölfusá og færslu hringvegar (1) út fyrir þéttbýlið á Selfossi hófust seint á síðasta ári.
Unnið hefur verið við jarðvegsrannsóknir fyrir undirstöður brúarinnar, aðstöðusköpun og jarðvegsskipti í vegstæði hringvegar austan árinnar, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.
Næst þegar veður leyfir verður tækjabúnaður fluttur á pramma yfir í Efri-Laugardælaeyju vegna jarðvegsrannsókna sem þarf að framkvæma þar.
Einnig er áætlað að fljótlega hefjist vinna við vegskeringar vestan árinnar. Sú vinna hefur í för með sér að loka þarf göngustígum að skógræktinni. Unnið er að útfærslu hjáleiðar fyrir gangandi vegfarendur nær árbakkanum, sem hægt verður að nota fyrst um sinn.
Nýja brúin verður 330 metra löng og 19 metra breið stagbrú með 60 metra háum turni á Efri-Laugardælaeyju. Hún mun leysa af gömlu brúna, en um 80 ár eru frá því að hún var byggð.
Daglega fara um 14.500 ökutæki um Ölfusárbrú og býst Vegagerðin við að umferðin aukist enn frekar með fjölgun íbúa og ferðalanga. Auk umferðar mun nýja brúin bera uppi lagnir veituaðila, rafmagn, ljósleiðara, heitt vatn og kalt. Gert er ráð fyrir umferð bíla, gangandi og hjólandi um brúna.
Verkið snýst um að færa hringveginn (1) norður fyrir Selfoss og byggingu nýrrar brúar yfir Ölfusá. Nýr hringvegur verður 2+1-vegur með aðskildum akstursstefnum, sem mögulegt verður að breikka síðar í 2+2-veg.
Hann mun tengjast hringtorginu við Biskupstungnabraut.
Veglínan austan Ölfusár verður um 1,7 kílómetra löng og fer um Svarfhólsvöll og tengist þaðan núverandi hringvegi austan Selfoss. Heildarlengd nýs hringvegar verður um 3,7 kílómetrar.
Einnig verður lagður nýr Laugardælavegur, auk tenginga við Gaulverjabæjarveg og Austurveg á Selfoss. Að auki verða byggð tvenn undirgöng fyrir gangandi, hjólandi og hestamenn, ásamt undirgöngum fyrir bíla og gangandi við Einholt, vestan Ölfusár.
Áætlaður framkvæmdakostnaður við byggingu Ölfusárbrúar og tengda vegi í heild er 14,3 milljarðar króna á verðlagi ársins 2024. Þar af er brúin talin munu kosta um 8,4 ma.kr. Fjármagnskostnaður (verðbætur til verkloka og framkvæmdafjármögnun) vegna lántöku er áætlaður 3,6 ma.kr. Samtals er því heildarkostnaður við verkið áætlaður um 17,9 milljarðar. sem ætlunin er að standa undir með gjaldtöku af umferð.
Unnið að hönnun
Verktaki er ÞG Verk. Um er að ræða alútboð þar sem ábyrgð á endanlegri hönnun mannvirkja er á höndum verktakans og hefur ÞG Verk ráðið til sín hönnuði til að fullhanna verkið. Alþjóðlega hönnunar- og ráðgjafarfyrirtækið Ramboll mun hanna brú yfir Ölfusá. Verkfræðistofan Verkís annast hönnun vega, jarðtækni auk annarra brúa og undirganga. VSL, alþjóðlegt fyrirtæki með sérþekkingu í hönnun og byggingu kapalbrúa, mun starfa með ÞG verktökum að verkinu.