40 ára Bergþóra Snæbjörnsdóttir ólst upp á Úlfljótsvatni í Grafningi og gekk í Ljósafossskóla alla sína grunnskólagöngu. Hún var ári á undan í skóla og flutti fimmtán ára til móðurömmu sinnar og -afa sem voru búsett á Selfossi svo hún gæti byrjað í Fjölbrautaskólanum þar. Eftir tvo vetur á Selfossi flutti hún til Reykjavíkur og hóf nám í Kvennaskólanum í Reykjavík þaðan sem hún útskrifaðist sem stúdent. Hún ferðaðist eftir útskrift og bjó meðal annars í Bournemouth í Englandi og Xiamen í Kína áður en hún hóf nám í sálfræði og síðar ritlist við Háskóla Íslands.
Á þrítugsaldri bjó Bergþóra um tíma í Berlín og vann ýmis íhlaupastörf til að sjá fyrir sér auk þess að vinna að skriftum og gjörningalist ásamt myndlistarkonunni Rakel McMahon undir formerkjum Wunderkind Collective.
Bergþóra starfar sem rithöfundur en fyrsta bók hennar var ljóðabókin Daloon dagar sem kom út árið 2011. Síðan hefur hún gefið út ljóðsögur og skáldsögur og hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Hún hefur einnig verið virk í samfélagsumræðu og þá sérstaklega í baráttu fyrir réttindum flóttafólks en hún tók nýverið sæti í stjórn Solaris.
„Vinnan er í raun áhugamálið mitt og hefur alltaf verið. Ég hef alltaf lesið þráhyggjukennt og hef fá önnur áhugamál nema þá kannski að borða og svo er ég nýbúin að uppgötva að mér finnst gaman að hreyfa mig og æfi í Primal og stunda útihlaup þegar ég nenni.“
Fjölskylda Eiginmaður Bergþóru er Bragi Páll Sigurðarson, f. 1984, rithöfundur. Saman eiga þau tvö börn, Úrsúlu, f. 2015, og Eggert, f. 2019. Foreldrar Bergþóru eru Snæbjörn Björnsson, f. 1958, hrossaræktandi, búsettur á Önundarhorni undir Eyjafjöllum, og Margrét Sigurðardóttir, f. 1960, sérfræðingur á kjarasviði SÍS. Eiginmaður Margrétar er Pétur Þormóðsson, f. 1957, fyrrverandi sjómaður, og þau búa í miðbæ Reykjavíkur.