Skemmtilestur „Bækur Magnúsar eru sannkallaður skemmtilestur,“ segir rýnir um verk Magnúsar Sigurðssonar.
Skemmtilestur „Bækur Magnúsar eru sannkallaður skemmtilestur,“ segir rýnir um verk Magnúsar Sigurðssonar. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldverk Glerþræðirnir ★★★★· Eftir Magnús Sigurðsson. Dimma, 2024. Kilja, 279 bls.

Bækur

Einar Falur

Ingólfsson

Við lesum í brotinu „Læknisdómum“ að geðlækningar hafi til þessa dags verið brenndar merki örvæntingarinnar, merki ráðleysisins, ólíkt læknisdómum hins líkamlega. Handarmein hafi, til að mynda í upphafi 18. aldar, verið hanterað með eftirfarandi „frelsismeðali“: „Tak kött, drep hann, set höndina inn í hann og geymið þar í 2-3 daga. Gætið þess að taka ætíð kött varman og skiptið um kött á 2-3ja daga fresti“ (261). Í „Frelsismeðalið“ fræðumst við um að Jón Eiríksson konferensráð hafi tekið saman stutta ritgerð um „frelsismeðöl fyrir drukknaða og helfrosna“– þar sem kennt var meðal annars að blása tóbaksreyk inn um endaþarm til að komast að því hvort rænulausir menn væru lífs eða liðnir – áður en Jón batt enda á líf sitt með því að fleygja sér fram af Löngubrú í Höfn (151). Í „Einkamál“ sjáum við svo að ferjumaðurinn Jón Ósmann, sem talsvert kemur við sögu í bókinni, hafi notað orðið þykkildi bæði um gjöful fiskimið og íturvaxnar konur (123). Og brotið „Réttu nafni II“ hljóðar svo: „Afruglarar. Stakk, á sínum tíma, ljóðskáldið Ísak Harðarson upp á sem sameiginlegu starfsheiti sálfræðinga og geðlækna“ (72).

Í Glerþráðunum eftir Magnús Sigurðsson eru um 160 „etnógrafísk brot“, eins og höfundur kallar þessa fjölbreytilegu þjóðlífsþætti sína. Og brotin eru vægast sagt margbreytileg, stórskemmtileg og iðulega óvænt, hvað upplýsingar varðar en líka form og nálgun við textann og heimildir. Því allt er efnið sótt eitthvert eftir glerþráðunum, sem höfundur vísar iðulega til; fyrir kemur að hann kalli sig í þáttunum „skjalara“ og í einum, „Dægradvöl“ (og með því margbrotna neti vísana sem hér er hnýtt saman leitar hugurinn til Dægradvalar Benedikts Gröndals sem einnig lýsti samtímanum með frumlegum og afhjúpandi hætti), þar kveðst skjalarinn hafa undanfarna daga fylgst með flokki vinnumanna „leggja í jörð plastklæddu glerþræðina sem flytja í afþreyingarskyni inn í stofu hvers manns falsfréttir, rifrildi og nekt á áður óþekktum hraða í sögu mannkyns. Framkvæmdir sem hafa verið nefndar skipaskurðir nútímans“ (214). Og þessa ljósleiðara nýtir höfundurinn sér við að grafa upp á netinu og setja fram með sínum hætti alls kyns óvæntar uppýsingar og misbrotakenndar frásagnir. Í „Dægradvöl II“ veltir hann fyrir sér, í ljósi þessarar iðju, að kalla sig „orðleyfafræðing“ frekar en skrásetjara. Og þótt vísað sé í misþekktar persónur og atburði, heima og erlendis, þá bendir höfundur okkur líka á í upphafi bókar, að „lesendum sem sakna ítarlegri heimilda í eftirfarandi riti er vinsamlega bent á tvennt: i) bókin er skáldverk; ii) allt er þetta uppflettanlegt fyrir tilstilli glerþráðanna“. Þá er hnykkt á tilganginum í tileinkun verksins, sem sótt er til Hallgríms Péturssonar: Vinur minn góður! Viltu skemmtun þiggja? / Fréttir þær, sem fyrir mig bar, / fæ ég þér til skoðunar.

Með vísun í sálmaskáldið býðst Magnús þannig til að skemmta okkur lesendum sínum með fréttasafninu; þar er til að mynda greint frá vestfirskum uppnefnum, sambúð Einars Benediktssonar og Hlínar Johnson í Herdísarvík (hún kvaðst elska sálina sem birtist í ljóðunum), meintum uppruna nafnsins Berglindar, afskiptum Guðmundar Finnbogasonar af útliti íslenskra kvenna, eddukvæðinu Oddrúnargráti, verstu öld Íslandssögunnar og örlögum Skúla fógeta Magnússonar. Þessi lesari spurði sig endurtekið hvar í ósköpunum höfundur hefði fundið þær upplýsingar sem hann setur fram, og alltaf með sínum hætti – en glerþræðirnir liggja sýnilega inn í hinar furðulegustu heimildahirslur.

Magnús kom fyrst fram á sjónarsviðið sem ljóðskáld og hefur sent frá sér fimm markverðar ljóðabækur, þá fyrstu árið 2008 en sú fimmta kom út fyrir átta árum. Þá hefur hann sent frá sér nokkur bindi vandaðra ljóðaþýðinga, meðal annars úrval ljóða bandarískra skálda, safn ljóða hins norska Tors Ulven en ekki síst hrífandi þýðingar úrvals einstakra ljóða hinar bandarísku Emily Dickinson, sem kom út 2020, en Magnús skrifaði þá líka doktorsritgerð um viðtökusögu ljóða skáldsins. Á síðustu árum hefur Magnús síðan lagt áherslu á prósa viðlíka þeim sem birtast í Glerþráðunum. Fyrsta prósabók hans kom út sama ár og fyrsta ljóðabókin, 2008, en síðustu ár hafa prósabækurnar runnið ört frá honum, ein á ári síðustu þrjú – síðustu tvær eru Húslestur og Lexíurnar, bækur sem rýnir hefur notið að lesa og má í þeim sjá vel hvað höfundurinn er í fínu formi og hefur mótað nálgun sína við þetta prósaform með athyglisverðum og líka bráðskemmtilegum hætti. Því bækur Magnúsar eru sannkallaður skemmtilestur og þá eflaust ekki síst þeim sem hafa áhuga á og innsýn í sögu og bókmenntir; með öllum þessum óvæntu, upplýsandi og furðulega samanblönduðu brotum og þáttum, sem kalla má á mörkum ljóðs og fræða og varpa ljósi á sögu sem samtíð, í bókmenntaverkum sem eru ólík öllu öðru sem er verið að skrifa hér.