Bakvörður dagsins er oftast góður í að stilla væntingum í hóf þegar kemur að íþróttum. Hann hefur lært að það er besta leiðin til að verða ekki fyrir miklum vonbrigðum þegar á móti blæs. Sú væntingastjórnun er aðeins erfiðari á HM karla í handbolta…

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Bakvörður dagsins er oftast góður í að stilla væntingum í hóf þegar kemur að íþróttum. Hann hefur lært að það er besta leiðin til að verða ekki fyrir miklum vonbrigðum þegar á móti blæs.

Sú væntingastjórnun er aðeins erfiðari á HM karla í handbolta en fyrsti leikur Íslands er við Grænhöfðaeyjar í kvöld. Bakvörður er staddur í Zagreb og hefur undanfarna tvo daga heimsótt landsliðsmenn á liðshótelið og tekið við þá viðtöl.

Þeir hafa litið mjög vel út á æfingum og er augljóst að það eru allir að róa í sömu átt. Það eru komin fimmtán ár frá síðustu verðlaunum á stórmóti og eru flestir sammála um að það sé of langur tími.

Þrátt fyrir meiðsli sterkra leikmanna er liðið virkilega vel skipað og ekki skemmdi fyrir góður dráttur í riðil og milliriðil. Ísland sleppur við allra sterkustu lið heims í riðli og milliriðli og hefur liðið alla burði til að fara alla leið í átta liða úrslit.

Af sex leikjum sem Ísland leikur í riðlakeppnunum má tala um þrjá skyldusigra fyrir íslenska liðið. Leikirnir við Slóveníu, Króatíu og Egyptaland verða erfiðari en á góðum degi getur Ísland unnið þau öll. Ekki er lengra en ár síðan Ísland vann Króatíu á EM.

Heimsmeistaramótið í ár er einfaldlega risastórt tækifæri fyrir íslenska liðið til að fara langt. Það er kominn tími til. Hæfileikarnir og getan er til staðar. Nú þarf að framkvæma, standast pressuna og njóta þess að spila á stærsta sviðinu.

Allt minna en átta liða úrslit verða að teljast vonbrigði og innst inni eru leikmenn og þjálfarar Íslands væntanlega sammála, þótt þeir fari rólega í yfirlýsingar í viðtölum. Það er best að láta verkin tala á vellinum.