Klár Sveinn Jóhannsson er klár í slaginn eftir óvænt kall í HM-hópinn vegna meiðsla Arnars Freys.
Klár Sveinn Jóhannsson er klár í slaginn eftir óvænt kall í HM-hópinn vegna meiðsla Arnars Freys. — Morgunblaðið/Eyþór
Sveinn Jóhannsson, leikmaður Kolstad í Noregi, var ekki í upprunalegum leikmannahópi Íslands fyrir heimsmeistaramótið í handbolta en íslenska liðið leikur sinn fyrsta leik á mótinu við Grænhöfðaeyjar í kvöld

Í Zagreb

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Sveinn Jóhannsson, leikmaður Kolstad í Noregi, var ekki í upprunalegum leikmannahópi Íslands fyrir heimsmeistaramótið í handbolta en íslenska liðið leikur sinn fyrsta leik á mótinu við Grænhöfðaeyjar í kvöld. Sveinn var kallaður inn í hópinn þegar Arnar Freyr Arnarsson meiddist í fyrri leiknum við Svíþjóð í undirbúningi fyrir mótið.

„Ég var að ferðast heim til mín til Þrándheims þar sem ég átti að mæta á æfingu með Kolstad. Ég var bókstaflega að labba inn í flugvél þegar Snorri hringdi. Ég sá í fjölmiðlum að Arnar hefði meiðst á móti Svíum og síminn hringdi stuttu seinna. Snorri var þá á línunni og bað mig um að koma hið snarasta til Kristianstad.

Það var geggjað að fá þetta símtal og janúar verður skemmtilegri fyrir vikið,“ sagði Sveinn í samtali við Morgunblaðið á hóteli íslenska liðsins í Zagreb í gær.

„Við konan fórum heim til Þrándheims, pökkuðum í töskurnar og skipulögðum okkur þannig að hún færi aftur heim til Íslands. Ég fór síðan strax morguninn eftir til Kristianstad. Þegar landsliðið hringir er maður klár. Maður tekur á sig fjögurra tíma svefn til að mæta í landsliðið. Það er ekkert stórmál,“ sagði Sveinn.

Var mjög svekktur

Sveinn var valinn í verkefnið gegn Bosníu og Georgíu í nóvember á síðasta ári en var síðan ekki í HM-hópnum í kjölfarið.

„Ég var mjög svekktur yfir að vera ekki valinn fyrst en ég treysti landsliðsþjálfaranum fyrir því að velja það sem hann telur best fyrir liðið. Ég horfi á það sem hvatningu að gera betur að ég hafi ekki verið í upprunalega hópnum. Ég ætla að gera allt sem ég get núna til að sýna að það hafi verið vitlaust val að velja mig ekki í hópinn,“ sagði Sveinn ákveðinn.

Alltaf verið mitt markmið

Hann er staðráðinn í að láta ljós sitt skína á HM.

„Mitt markmið er að spila mig inn í liðið. Ég vil vera landsliðsmaður. Það hefur alltaf verið mitt markmið og ég ætla að nýta tækifærið. Það er mikil samkeppni því við erum þrír línumenn á þessu móti. Ég tel mig eiga góða möguleika á að standa mig vel í þeirri samkeppni og ég geri mitt besta til að spila mig inn í liðið.“

Sveinn skipti yfir til Kolstad frá Minden í Þýskalandi fyrir tímabilið. Kolstad er besta lið Noregs og leikur í Meistaradeildinni.

„Það er búin að vera veisla að spila í Meistaradeildinni og svo hefur gengið vel í deildinni í Noregi. Við unnum bikarinn í desember og það var geggjað. Þetta er flott félag og öll aðstaða er upp á tíu. Ég er að spila með frábærum leikmönnum sem eru með há markmið og það hjálpar mér að bæta mig á hverjum degi,“ sagði Sveinn.

Ísland er með Grænhöfðaeyjum, Kúbu og Slóveníu í riðli á HM. Samkvæmt bókinni ætti Ísland að vinna tvo fyrstu leikina sannfærandi og fara í úrslitaleik við Slóveníu í lokaumferð riðilsins.

„Á pappírnum er Ísland með sterkasta liðið í þessum riðli en þetta er stórmót og það eru allir hérna í góðu formi og hafa æft vel. Það þýðir ekkert að slaka á gegn liðum sem eiga að vera lakari. Það er skemmtilegra og mikilvægt fyrir framhaldið að mæta og gera þetta eins og menn. Við viljum framkvæma þetta eins og fagmenn,“ sagði hann.

Eins og fjallað er um á síðunni til vinstri spilar Hafsteinn Óli Ramos Rocha með Grænhöfðaeyjum í kvöld. Hafsteinn og Sveinn ólust upp hjá Fjölni saman.

„Það er skemmtilegt. Það er skemmtilegt að það séu fleiri uppaldir Fjölnismenn á stórmóti í handbolta. Það er svolítið sérstakt að hann sé ekki að spila fyrir Ísland. Hann fær ekkert gefins frá mér í þessum leik. Það verður tekið á honum,“ sagði Sveinn kíminn að lokum.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson