Jóna Hlíf Halldórsdóttir myndlistarkona bar sigur úr býtum í samkeppni um loft undir skyggni við aðalinngang Sjávarútvegshússins á Skúlagötu 4.
Undanfarin misseri hafa staðið yfir umfangsmiklar endurbætur á húsinu.
Markmið samkeppninnar og tilkomu listaverksins var að lyfta upp skyggninu og fanga athygli og hughrif þeirra sem koma í húsið, segir í lýsingu.
Gerð er krafa um að listaverkið þeki að lágmarki 50 fermetra loftsins við aðalinnganginn, sé fest upp í loftið og rúmi einangrun fyrir ofan það. Þá skal listaverkið innifela lýsingu fyrir þann hluta rýmisins sem það nær til, hvort sem lýsingin er hluti af verkinu eða sjálfstæð.
Niðurstöður dómnefndar liggja nú fyrir og fyrsta sætið hreppti Jóna Hlíf með verkinu „Ár er alda“ sem samanstendur af útskornu textaverki í messing og djúpbláum himni með innfelldri lýsingu sem endurspeglar stöðu stjarnanna yfir Reykjavík 1. janúar 2061, þegar húsið verður 100 ára.
Í umsögn dómnefndar segir m.a:
„Verkið hefur einstaklega góða rýmistengingu, bæði við innganginn og bygginguna í heild, og upphefur fordyri þess og aðkomu. Verkið samræmist vel byggingunni í efnisvali, litum og formi, vekur forvitni úr fjarlægð og afhjúpar óvæntan vinkil. Hugmyndafræðin og leikur að orðum er bæði áhugaverður og viðeigandi og vísar í Völuspá, stjörnuhimininn og hafið.“
Heildargreiðsla sem rennur til listamannsins er krónur 16.500.000 og innifelur hún allan kostnað.
Umsjón með samkeppninni hafði Framkvæmdasýslan/Ríkiseignir og var hún unnin í samstarfi við Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM).
SÍM tilnefndi Ingibjörgu Gunnlaugsdóttur sem trúnaðarmanneskju samkeppninnar og þrjá óháða listfræðinga, Aðalheiði Valgeirsdóttur, Birtu Guðjónsdóttur og Hlyn Helgason, sem lögðu til nöfn þriggja listamanna.
Allir listamennirnir þáðu boð um þátttöku og skiluðu tillögum, þau voru Anna Rún Tryggvadóttir, Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Pétur Magnússon. Í dómnefnd sátu Helgi Vignir Bragason fyrir hönd Ríkiseigna, Anna Eyjólfsdóttir myndlistarkona fyrir hönd SÍM og Aðalheiður Atladóttir, arkitekt og formaður dómnefndar.
Verkefnastjóri Framkvæmdasýslunnar og ritari dómnefndar var Sólveig Gunnarsdóttir. sisi@mbl.is