Borgarfjörður Brúin féll rétt fyrir klukkan átta í gærmorgun skömmu eftir að maður keyrði yfir hana til að komast til vinnu. Hún var reist árið 2023.
Borgarfjörður Brúin féll rétt fyrir klukkan átta í gærmorgun skömmu eftir að maður keyrði yfir hana til að komast til vinnu. Hún var reist árið 2023. — Ljósmynd/Kristín Jónsdóttir
Brúin yfir Ferjuskotssíki í Borgarfirði féll í gærmorgun vegna mikilla vatnavaxta, stuttu eftir að íbúi á svæðinu keyrði yfir hana til vinnu. Hvítárvallavegi við Ferjukotssíki var lokað í kjölfarið. Heiða Dís Fjeldsted, íbúi í Ferjukoti, segir í…

Birta Hannesdóttir

Sólrun Lilja Ragnarsdóttir

Brúin yfir Ferjuskotssíki í Borgarfirði féll í gærmorgun vegna mikilla vatnavaxta, stuttu eftir að íbúi á svæðinu keyrði yfir hana til vinnu. Hvítárvallavegi við Ferjukotssíki var lokað í kjölfarið.

Heiða Dís Fjeldsted, íbúi í Ferjukoti, segir í samtali við Morgunblaðið að vatn hafi flætt yfir vegi stuttu eftir að brúin féll og að síðar um daginn hafi vatnavextir farið að gefa í og vatn fór að flæða í kjallara í húsnæði hennar.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Heiða og fjölskylda hennar upplifa flóð af þessu tagi en þau voru með dælur á svæðinu til að dæla vatni úr kjallaranum og voru að til miðnættis.

Brúin yfir Ferjukotssíki er ekki gömul en hún var tekin í notkun sumarið 2023. Brúin var hugsuð til bráðabirgða eftir að styttri brúin yfir Ferjukotssíki í Borgarfirði skemmdist í vatnavöxtum í Hvítá í mars árið 2023. Var hún talin hættuleg og ákveðið að rífa hana og fylla í skarðið. Lengri brúin, á öðrum stað Ferjukotssíkis, var einnig illa farin og því ákveðið að rífa hana sömuleiðis og byggja bráðabirgðabrú þar sem ekki fékkst fjármagn fyrir nýrri, varnalegri brú.

Þegar unnið var að smíði brúarinnar var heimafólk gagnrýnið á hana. Benti það á að brúin myndi aldrei virka. Hún er einbreið úr stáli með timburgólfi og hvílir á stauraoki úr timbri.

„Það sögðu hér allir í kring að svona brú myndi aldrei virka, eins og var ákveðið að setja. Líka þeir sem voru hérna upp frá frá Vegagerðinni og framkvæmdu þetta, þeir töldu þetta ekki ganga. En það var ekki mikið hlustað á okkur, þannig að maður er pirraður á þessu,“ segir Heiða.

Brúin er mikið notuð af íbúum svæðisins og segir Heiða að brúarleysið kljúfi landið í Ferjukoti í sundur.