Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
„Við erum bara mjög glöð að fá þessa 48 daga, það er það sem við erum búin að berjast fyrir. Við erum bara bjartsýn á að þetta gangi upp. Ég hef enga ástæðu til að halda annað en að ríkisstjórnin sé að vinna í þessu af fullum heilindum,“ segir Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands.
Hann kveðst rólegur yfir þeirri gagnrýni sem áform ríkisstjórnarinnar um að tryggja öllum strandveiðibátum 48 veiðidaga á komandi sumri hafa fengið. „Þetta verður verkefni en ekkert óyfirstíganlegt. Það verður hægt að finna lausn á þessu.“
Undanfarin ár hafa heimildir sem veiðunum er ráðstafað ekki dugað fyrir veiðitímabilið sem er tólf dagar á bát í hverjum mánuði maí til og með ágúst. Þurfti að stöðva veiðar að loknum 17. júlí eftir að landað hafði verið tólf þúsund tonnum af þorski. Hlutfall af heimiluðum heildarafla í þorski sem ráðstafað var strandveiðum hefur aldrei verið meira en síðastliðið sumar.
Hræðsluáróður
Áform ríkisstjórnarinnar hafa verið gagnrýnd undanfarnar vikur, m.a. af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og stjórnendum ýmissa stærri útgerða sem segja ljóst að einhvers staðar þurfi að finna þær aflaheimildir sem á að veita strandveiðunum til að ríkisstjórnin geti staðið við gefin fyrirheit. Hefur verið rætt um að það þurfi 20 til 25 þúsund tonna þorskkvóta til að allir bátar fái 48 veiðidaga.
„Þetta verða aldrei nein 25 þúsund tonn, þetta er bara hræðsluáróður. Það er kannski bara gott fyrir okkur, því þegar þetta raungerist ekki er hægt að benda á það að þetta var einmitt bara það, hræðsluáróður. Ég stórefa að það verði meira en fjögur þúsund tonn til viðbótar við þau tólf þúsund tonn sem veiðunum var ráðstafað síðasta sumar,“ svarar Kjartan Páll, inntur álits á gagnrýninni.
Formaður og varaformaður Félags skipstjórnarmanna, Árni Sverrisson og Pálmi Gauti Hjörleifsson, bentu nýverið á að ósanngjarnt væri að allur flotinn hefði þurft að sætta sig við kvótaskerðingu í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar en ekki strandveiðiflotinn. Óeðlilegt væri að strandveiðisjómenn væru að hafa atvinnu af öðrum sjómönnum og vinnslufólki, þar sem strandveiðiafli er líklegri til að vera seldur óunninn úr landi.
Kjartan Páll gefur lítið fyrir fullyrðingar um að verið sé að hafa störf af öðrum. „Þetta kemur úr hörðustu átt. Það hurfu 30 störf á Seyðisfirði í fyrra, svo hefur nýverið verið seldur kvóti frá Tálknafirði til Reykjavíkur og Sólrún ehf. til Húsavíkur. Það er ekki eins og það séu ekki tilfærslur í þessu.“
Í þessu samhengi finnst honum einnig rök SFS í æpandi mótsögn við fyrri fullyrðingar samtakanna, meðal annars að því sé hælt þegar störfum fækki í sjávarútvegi vegna gífurlegra tækniframfara.
„Við erum ekki að tala um neitt rosalegt magn, þetta eru örfá þúsund tonn. Það er samdráttur hjá stórútgerðinni og hjá öllum, en þeir virðast standa það af sér. Sveiflurnar í ráðgjöf Hafró eru margfalt meiri en það sem við erum að fá í viðbót í sumar,“ segir Kjartan Páll.
Lifibrauð
„Það eina sem við trillukarlar og -konur erum að biðja um er að hafa lifibrauð af þessu, við erum að berjast fyrir okkar tilverurétti. Það verður aldrei nokkur einasti maður ríkur af þessu, en það væri voðalega fínt að geta dregið björg í bú.“
Er hægt að lifa af þessu með 48 veiðidaga?
„Stutta svarið er nei, en þetta er það eina sem er í boði eins og er. 48 dagar er töluvert betra en þessir 35 sem við fengum síðasta sumar,“ svarar Kjartan Páll sem bendir einnig á að þó veiðidagarnir séu 48 þýði það ekki að strandveiðisjómenn hafi 48 vinnudaga. Hver veiðiferð má að hámarki vera 14 klukkustundir og bætist við viðhald á bátum og búnaði. „Maður vinnur myrkranna á milli í þessa fjóra mánuði […] fyrir hverja tvo veiðidaga myndi ég áætla að það væri einn vinnudagur í landi.“