Skírnir Sigurbjörnsson
Skírnir Sigurbjörnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Geitdalsá verður stífluð í farvegi sínum og vatni veitt í sjö kílómetra langri pípu að stöðvarhúsinu. Síðan mun allt vatn sem fer í gegnum stöðvarhúsið skila sér aftur í ána örlítið neðar,“ segir Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro hf

Sviðsljós

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Geitdalsá verður stífluð í farvegi sínum og vatni veitt í sjö kílómetra langri pípu að stöðvarhúsinu. Síðan mun allt vatn sem fer í gegnum stöðvarhúsið skila sér aftur í ána örlítið neðar,“ segir Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro hf. sem er eigandi Geitdalsárvirkjunar ehf., framkvæmdaraðila nýrrar virkjunar í Geitdalsá í Múlaþingi.

Skírnir segir uppsett afl virkjunarinnar verða 9,9 MW og orkugetu um 56 GWst á ári. Fallhæðin verði 250 metrar og lónhæð á bilinu 445-457 m.y.s. Flatarmál uppistöðulónsins sem kallað er Hesteyrarlón verður 36 hektarar við hæsta vatnsborð og 10 hektarar við lægsta vatnsborð.

Sjö kílómetra fallpípa

„Gert er ráð fyrir að allt efni í stífluna verði hægt að vinna úr námum í nágrenninu. Fallpípan, sem flytur vatnið frá inntakslóni að stöðvarhúsi, verður niðurgrafin plasttrefjapípa, tæplega 7 kílómetra löng.“

Í umhverfismatsskýrslunni sem Cowi vann fyrir framkvæmdaraðila kemur fram að þvermál vatnspípunnar verði á bilinu 1,5-1,7 metrar. Stöðvarhúsið verður ofanjarðar, á einni hæð.

Undir og frá stöðvarhúsinu verður 20 metra langur niðurgrafinn og steyptur frárennslisstokkur, sem veitir vatninu frá hverflinum út í 55 metra frárennslisskurð, niður í Geitdalsá.

Staðsetning virkjunarinnar

Skriðdalur liggur til suðurs úr Fljótsdal. Innst í dalnum skiptir fjallið Þingmúli Skriðdal upp í tvo dali. Sá austari er Suðurdalur, en þjóðvegurinn upp á Öxi liggur um þann dal. Vestari dalurinn er Norðurdalur og Geitdalur þar innarlega. Um dalinn rennur samnefnd á þar sem virkjunin er áformuð.

Geitdalsá er dragá sem á upptök sín á hálendinu. Megininnrennslið er úr Leirudalsá og við ármót Leirudalsár og Geitdalsár rennur sú síðarnefnda til norðurs niður Geitdal, þaðan niður Norðurdal og sameinast svo Múlaá í Skriðdal. Saman mynda þessar ár Grímsá, sem rennur út í Lagarfljót rúmum 6 kílómetrum frá Egilsstöðum.

Óskað hefur verið eftir breytingu á aðalskipulagi og er stefnt á að það liggi fyrir að loknu mati á umhverfisáhrifum. Einnig þarf að vinna deiliskipulag fyrir virkjunarsvæðið. Samkvæmt skipulagi og opinberri náttúruminjaskrá eru engin friðlýst eða vernduð svæði á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Engin þekkt svæði nærri fyrirhuguðum framkvæmdum eru undir náttúruvá og svæðið er ekki á þekktu jarðskjálftasvæði.

Jarðstrengur að tengivirki

Áætluð heildarefnisþörf framkvæmdanna er ríflega 400 þúsund rúmmetrar og verður efnið fengið úr sjö námum innan framkvæmdasvæðisins. Auk efnistökusvæðanna þarf að haugsetja efni sem nýtist ekki til framkvæmdanna.

Skírnir segir að gert sé ráð fyrir að nýta það til að ganga frá tveimur námum þannig að landform þar haldi sér að mestu frá því sem nú er. Virkjunin verði tengd með 33 kV jarðstreng inn á tengivirki Landsnets við Hryggstekk um 17 kílómetra leið.

„Svo gerum við ráð fyrir að leggja um 6 kílómetra veg frá Geitdalsvegi að stöðvarhúsi. Þaðan verður lagður 7 kílómetra langur vegur upp að Hesteyrarstíflu. Vegirnir verða lagðir sem „fljótandi vegir“, en með þeirri aðferð er áhrifum á grunnvatnsstöðu og grunnvatnsstreymi haldið í lágmarki.“

Reka 12 vatnsaflsvirkjanir

Skírnir segir Nordic Hydro vera þriðja stærsta orkuvinnslufyrirtæki í vatnsafli á landinu og reka 12 smávirkjanir sem framleiði um 22 MW inn á kerfið. Nýjustu virkjanir fyrirtækisins eru Þverárvirkjun í Vopnafirði, sem kláraðist 2023, og Hólsvirkjun í Fnjóskadal, sem kláraðist 2020. Aðrar virkjanir eru m.a. Köldukvíslarvirkjun á Tjörnesi, Tjarnarvirkjun í Eyjafirði, Mosvallavirkjun á Snæfellsnesi, Hvestuvirkjanir í Arnarfirði, Úlfsárvirkjun á Ísafirði og Kaldárvirkjun.

Geitdalsárvirkjun

Afl virkjunarinnar verður 9,9 MW.

Orkugeta 56 GWst/ári.

Flatarmál Hesteyrarlóns verður 36 hektarar við hæsta vatnsborð og 10 hektarar við lægsta vatnsborð.

Fallhæðin verður 250 metrar og lónhæð á bilinu 445-457 m.y.s.

Þvermál vatnspípunnar verður á bilinu 1,5-1,7 metrar.

Nordic Hydro er þriðja stærsta orkuvinnslufyrirtæki landsins í vatnsafli og framleiðir 22 MW af hreinni endurnýjanlegri orku.