HR Tímarnir og tæknin eru spennandi en þetta þarf að nýta af skynsemi.
HR Tímarnir og tæknin eru spennandi en þetta þarf að nýta af skynsemi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Gervigreind, sem er eitt af mest spennandi málum samtímans, verður í deiglunni á hátíð sem efnt er til í Háskólanum í Reykjavík og hefst á morgun, föstudag. Dagskráin hefst á ráðstefnu í fyrramálið en svo tekur við kynning með tölvuleikjasmiðju…

Gervigreind, sem er eitt af mest spennandi málum samtímans, verður í deiglunni á hátíð sem efnt er til í Háskólanum í Reykjavík og hefst á morgun, föstudag. Dagskráin hefst á ráðstefnu í fyrramálið en svo tekur við kynning með tölvuleikjasmiðju fyrir börn og foreldra þeirra

Á ráðstefnunni verður ábyrg þróun gervigreindar og jafnvægisleikurinn milli nýsköpunar og regluverksins í kastljósinu. Fyrirlesarar eru meðal annars fólk sem þykir vera í fremstu röð á sínu sviði í umfjöllun um gervigreind. Ráðstefnunni er síðan skipt í nokkrar vinnustofur þar sem fjallað verður um gervigreind í nýsköpun, heilbrigðisþjónustu, opinbera geiranum og í netöryggi. Sömuleiðis verður fjallað um gervigreindarverkefni sem tengjast máltækni, sýndarveruleika, vélmennum og svo mætti áfram telja.

Víða á sér nú stað umræða um gervigreind, tækni, tækifæri og ýmsa áhættu sem því fylgir. Komin er tækni sem um margt nálgast mannsheila í hæfni, enda þótt tilfinningar skorti. Þetta var til dæmis áberandi þráður í svörum fólks sem rætt var við í Morgunblaðinu um áramót þar sem viðmælendur voru inntir álits á því hvað yrði áberandi í tækniþróun næstu missera. Um þetta segir Ingunn S. Unnsteinsdóttir Kristensen, forstöðukona Opna háskólans, á vef HR að tvenns konar áhætta fylgi gervigreind.

„Annars vegar þarf að standa vörð um félagsleg og mannleg réttindi svo sem persónuvernd, sanngirni og samfélagslegt traust. Hins vegar gæti of mikil varfærni leitt til þess að tækifæri til að nýta möguleika gervigreindar á sviði heilbrigðisvísinda og víðar töpuðust. Slíkt gæti einnig orðið til þess að hæfileikaríkir nemendur og nýsköpunaraðilar yfirgæfu Evrópu í leit að svæðum eins og Bandaríkjunum þar sem reglusetning er minna íþyngjandi og opnari fyrir hraðari nýsköpun,“ segir Ingunn.