Fyrirliðinn Leandro Semedo í leiknum við Ísland á HM 2023.
Fyrirliðinn Leandro Semedo í leiknum við Ísland á HM 2023. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Lið Grænhöfðaeyja mætir til leiks á heimsmeistaramótinu í handbolta með það að markmiði að endurtaka leikinn frá HM 2023, sem er að komast áfram úr riðlinum og í milliriðil mótsins. „Við erum aðeins í þriðja skipti á HM en höfum góða leikmenn og mikinn metnað

Lið Grænhöfðaeyja mætir til leiks á heimsmeistaramótinu í handbolta með það að markmiði að endurtaka leikinn frá HM 2023, sem er að komast áfram úr riðlinum og í milliriðil mótsins.

„Við erum aðeins í þriðja skipti á HM en höfum góða leikmenn og mikinn metnað. Markmiðið er að komast í milliriðilinn og í framhaldi af því berjast um að komast eins langt og hægt er,“ segir þjálfari liðsins, Portúgalinn Jorge Rito, við heimasíðu Alþjóða handknattleikssambandsins, en hann er 62 ára gamall og hefur mikla reynslu sem þjálfari, m.a. hjá Sporting og Braga í heimalandi sínu.

„Slóvenía og Ísland eru meðal bestu liða heims. Slóvenar voru á Ólympíuleikunum í sumar og Ísland er með gríðarlega mikil gæði í leikmönnum sem spila í bestu deildum Evrópu. Við vitum minnst um Kúbumenn en ljóst er að þeir eru með mikla íþróttamenn í sínu liði og geta reynst erfiður mótherji,“ segir Rito um verkefnið sem er fram undan hjá Afríkuliðinu en hann stýrir liði Grænhöfðaeyja í fyrsta sinn á stórmóti.

Fyrirliðinn Leandro Semedo, sem spilar með félagsliði í Kúveit, segir að lið Grænhöfðaeyja muni gefa allt sitt í leikina á HM.

„Við erum allir baráttumenn. Sama hverjum við mætum; við erum alltaf eins og bræður og stöndum saman sem eitt lið, hvort sem við sigrum eða töpum. Það er heiður að vera fyrirliði í svona liði,“ segir Semedo á heimasíðu IHF en hann er þrítugur leikstjórnandi og lék áður m.a. með Benfica og Porto í Portúgal.