Seúl Lögregluþjónar klipptu gaddavírsgirðingar sem lífverðir Yoons höfðu reist við forsetahöllina.
Seúl Lögregluþjónar klipptu gaddavírsgirðingar sem lífverðir Yoons höfðu reist við forsetahöllina. — AFP/Yonhap
Forseti Suður-Kóreu, Yoon Suk-yeol, var handtekinn í gærmorgun vegna tilraunar sinnar til þess að víkja þingi landsins frá með herlögum. Yoon sætir nú ákæru fyrir uppreisn vegna herlaganna, en hann hefur neitað að viðurkenna að handtökuskipunin sé lögmæt

Forseti Suður-Kóreu, Yoon Suk-yeol, var handtekinn í gærmorgun vegna tilraunar sinnar til þess að víkja þingi landsins frá með herlögum. Yoon sætir nú ákæru fyrir uppreisn vegna herlaganna, en hann hefur neitað að viðurkenna að handtökuskipunin sé lögmæt.

Fyrri tilraun til þess að handtaka Yoon rann út í sandinn þar sem lífverðir forsetans neituðu að láta hann af hendi. Að þessu sinni stóðu aðgerðir lögreglunnar yfir í fimm klukkutíma, þar sem þeir þurftu meðal annars að klippa sig í gegnum gaddavírsgirðingar sem öryggisþjónusta forsetans hafði sett upp um forsetahöllina.

Yoon sendi svo út sjónvarpsávarp, þar sem hann fordæmdi ákærurnar á hendur sér, en sagði að hann hefði samþykkt að mæta til yfirheyrslu hjá spillingarlögreglunni, CIO, þrátt fyrir að hann teldi rannsókn hennar ólöglega, til þess að „koma í veg fyrir ósmekklegar blóðsúthellingar“.

Rannsóknarlögreglumenn á vegum CIO tóku Yoon svo til yfirheyrslu, en sögðu að henni lokinni að hann hefði ákveðið að nýta sér rétt sinn til þess að svara ekki spurningum. Þá hafnaði Yoon því að yfirheyrslan yrði tekin upp. Var ákveðið að forsetinn myndi dvelja í fangaklefa um nóttina.

Lögreglunni er heimilt að halda Yoon í tvo sólarhringa frá handtökunni, og verður honum því sleppt á morgun, föstudag, nema saksóknarar biðji um aðra handtökuskipun til þess að halda honum í varðhaldi.

Uppreisn gegn ríkinu er einn alvarlegasti glæpurinn í lögum Suður-Kóreu, og gæti Yoons því beðið dauðarefsing eða lífstíðarfangelsi verði hann fundinn sekur. Stuðningsmenn Yoons fordæmdu handtökuna í gær og sögðu hana ólöglega.