[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlist, ljóðalestur og gamanmál eru samofin á svonefndri Magnúsarvöku sem verður í félagsheimilinu Brún í Bæjarsveit í Borgarfirði nk. laugardagskvöld, 18. janúar. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Tónlist, ljóðalestur og gamanmál eru samofin á svonefndri Magnúsarvöku sem verður í félagsheimilinu Brún í Bæjarsveit í Borgarfirði nk. laugardagskvöld, 18. janúar. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Sérstakur gestur á Magnúsarvöku verður borgfirska söngkonan og söngvaskáldið Soffía Björg.

Magnúsarharpa á Brún

Tilefni samkomunnar sem hefst kl. 21 á laugardagskvöldið er að um þessar mundir eru liðin 100 ár frá fæðingu Magnúsar Guðmundssonar frá Hvítárbakka (1925-1991). Sá var vel þekktur söngmaður í sinni sveit og mikill tónlistarunnandi. Fæðingardagur hans var 8. janúar, sá sami og þeirra söngbræðra Elvis Presleys og Davids Bowie. Magnús starfaði með ýmsum kórum, lengst af með Fóstbræðrum og Pólýfónkórnum, söng inn á hljómplötur og á tónleikum víða um heim auk þess að sinna hefðbundnum störfum á Íslandi, í Bandaríkjunum og í Danmörku.

Tónlistarmaðurinn góðkunni, Jakob Frímann, sonur Magnúsar, leiðir samkomuna í Borgarfirði. Auk hans koma fram bræðurnir á Varmalæk í Borgarfirði, Sigurðssynirnir Jakob trommuleikari og Ásmundur bassaleikari. Auk þess verða á sviði Eðvarð Lárusson gítarleikari, Heiðmar Eyjólfsson söngvari frá Hlíð og fyrrnefnd Soffía Björg.

Á Danmerkurárum sínum festi Magnús kaup á forláta slaghörpu, píanói, sem hann lét flytja til landsins og gaf síðan félagsheimilinu Brún. Magnúsarharpa þessi var nýlega yfirfarin og vandlega stillt og mun hún gegna lykilhlutverki í hljóðfæraslætti á Magnúsarvöku.

Listamannshæfileikar

„Listamannshæfileikar hans voru ótvíræðir,“ sagði um Magnús í minningargrein hér í Morgunblaðinu sumarið 1991. Þar var meðal annars greint frá þátttöku hans í starfi Fóstbræðra, þess þekkta karlakórs.

„Hefur hann reynst einn af mikilvægustu burðarásum félagsins um langt árabil, afar músíkalskur með trausta og fagra söngrödd. Hann hefur ósjaldan verið einsöngvari með kórnum. Nákvæmni, vandvirkni og prúðmennska hafa ávallt verið áberandi í fari Magnúsar og kemur það skýrt fram í söng hans og viðmóti. Auk söngsins var mjög til hans leitað varðandi vandmeðfarin félagsleg málefni,“ sagði Ásgeir Hallsson í minningargreininni um Magnús hér í Morgunblaðinu sumarið 1991.

Afsprengi Fóstbræðra voru Fjórtán Fóstbræður, söngflokkur sem söng lög af léttara taginu, meðal annars syrpur með velþekktum dægurlögum og naut sá flutningur fádæma vinsælda. Plötur með lögum Fjórtán Fóstbæðra seldust eins og heitar lummur og lögin af þeim voru mikið spiluð í útvarpi og heyrast jafnvel enn.

„Mér varð strax ljóst hversu afburða tónlistarmaður hann var. Ekki aðeins söng hann vel heldur var meðferð hans, bæði á lagi og ljóði, slík, að allir hlutu að hrífast með,“ sagði stjórnandinn Magnús Ingimarsson, píanóleikari, útsetjari og hljómsveitarstjóri, í minningaorðum sínum um nafna sinn.

Sannkallaðir djassgeggjarar

Sitthvað fleira verður gert í Borgarfirði tileinkað minningu Magnúsar Guðmundssonar. Miðvikudaginn 29. janúar, kl. 15, verður í Brún, félagsheimilinu sem fyrr er nefnt, Magnúsarstund, þar sem Jakob Frímann stjórnar söngskemmtun þar sem lög í anda föður hans verða flutt og væntanlega verður vel tekið undir.

Þann 8. febrúar, kl. 21, verður svo í Fossatúni Magnúsardjassvaka sem Jakob Frímann helgar föður sínum sömuleiðis. Þar kemur til að Magnús var djassgeggjari af lífi og sál og heillaður af þeirri tónlistarstefnu. Í því sambandi má geta þess að þau foreldrar hans, Magnús og Bryndís Jakobsdóttir, eru sögupersónurnar í Stuðmannlaginu sívinsæla Það jafnast ekkert á við djass. Í því lagi koma reyndar fleiri við sögu; „Svavar vestur sér vatt og KK skellti sér með. Þeir voru músíkalskt par,/ sannkallaðir djassgeggjarar“ segir í textanum. Geta má þess Magnús og Bryndís bjuggu í New York á hápunkti djasssveiflunnar líkt og þeir verðandi hljómsveitarstjórar og sveiflukóngar Svavar Gests trommuleikari og KK; Kristján Kristjánsson, saxófónleikari KK sextetts.

Og annað þessu tengt, sem fáir vita sennilega, er að sá sem syngur með Jakobi í laginu Röndótta mær er einmitt Magnús faðir hans. „Ég dansa Óla Skans með glans,“ er þekkt lína úr því lagi. Og eflaust munu Borgfirðingar taka hana með hárri raust á þeim samkomum sem nú eru fram undan í Magnúsarmánuði sem svo er nefndur. Hann hófst 8. janúar en lýkur sem fyrr segir með Magnúsardjassvökunni í Fossatúni 8. febrúar.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson