Málverkið Sjálfsmynd og kyrralíf keypti Listaverkasjóður Amalie Engilberts árið 2016. Málverk Þórdísar Aðalsteinsdóttur birta frásagnir af persónum hversdagsins, oftast innan veggja heimilisins. Sviðsetningin er knöpp og sjónarhornið óvænt og áhorfandinn fær jafnvel tilfinningu fyrir því að hann komi að óvörum og sé að gægjast inn í persónulegt rými.
Í verkunum má oft greina tilfinningalegan undirtón, einmanaleika, stundum óhugnað, duld eða langanir, en líka kómíska og glettna sýn á mannlegt atferli. Þannig skapast í verkunum einstök stemning sem er í senn kunnugleg og framandi, jafnvel súrrealísk. „Ég vinn oft með innviði sálarinnar, undirstrikað með innviðum húsnæðis. Hið rómantíska og viðkvæma deilir rými með sjúkustu grimmdinni í okkur, en þessi innri tilvera á sér varla stað án árekstra og samskipta við umheiminn eins og vitað er og er orsakavaldurinn í mannheimum,“ segir Þórdís í viðtali í Fréttablaðinu 27. apríl 2006.
Málverkið Sjálfsmynd og kyrralíf sýnir konu sem stendur við borð með köflóttum dúk. Á borðinu er vínflaska, blóm og ávextir. Rýmið í myndinni er flatt út eins og gjarnan í málverkum Þórdísar. Það er í raun skapað með köflótta dúknum sem myndar stóran flöt fyrir miðri myndinni og skærir litirnir fanga athyglina.
Hvers konar mynstur eru einmitt einkennandi fyrir málverk Þórdísar sem hún málar gjarnan af nákvæmni. Borðið rís eins og fjall fyrir miðri myndinni en flaskan og blómin á borðinu eru eins og klippt inn í hana. Konan stendur hreyfingarlaus við borðið og rennir augum til flöskunnar. Hún er máluð með skýrt afmörkuðum flötum en rauður bakgrunnurinn er málaður með tjáningarríkum blæbrigðum sem gæti táknað tilfinningalega togstreitu.
Þórdís stundaði framhaldsnám í New York og hefur búið og starfað þar og í Barcelona um árabil.