Talsverður hlaupórói mældist á skjálftamælum við Grímsvötn í gær og ágerðist þegar leið á daginn. Er það mat sérfræðinga Veðurstofu Íslands að jökulhlaupið sem hófst á mánudag nálgist nú hámarksrennsli.
Hækkun óróa tengist jökulhlaupinu og endurspeglar líklega aukningu í jarðhitavirkni að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Svipaðar breytingar hafa sést í óróamælingum í tengslum við fyrri Grímsvatnahlaup svo þetta telst ekki óvenjulegt þegar hlaup nálgast hámarksrennsli. Að svo stöddu eru engin merki um aukningu í jarðskjálftavirkni eða gosóróa. Þekkt eru dæmi um að eldgos verði í Grímsvötnum í kjölfar þrýstiléttis og því er enn óvissa um það hvernig þessi atburður mun þróast og ekki hægt að útiloka að eldgos verði.
Vatnsmagn í Gígjukvísl heldur áfram að aukast jafnt og þétt en úrkoma á svæðinu hefur einnig áhrif. Áfram er gert ráð fyrir því að hámarksrennsli verði í Gígjukvísl um 1-2 sólarhringum eftir að rennsli nær hámarki úr Grímsvötnum.
Fáir skjálftar hafa orðið í Bárðarbungu eftir stóra hrinu sem varð á þriðjudagsmorgun. Skjálfti af stærðinni 1,6 mældist í eldstöðinni rétt fyrir klukkan þrjú í gærdag.
Aðgerðastjórn var opnuð á Húsavík í gær og verður opin milli klukkan átta og tólf næstu daga. Lögreglan á Norðurlandi eystra virkjaði viðbragðsáætlun sína í kjölfar skjálftahrinunnar.
„Menn svona opna plöggin og dusta rykið kannski af þeim hlutverkum sem bíða manna ef ástandið fer yfir á hættustig eða neyðarstig,“ sagði Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri í Norðurþingi, í samtali við mbl.is í gær. Fundað var með sveitarstjórum Norðurþings og Þingeyjarsveitar á þriðjudag, en sveitarfélögin tvö eru á áhrifasvæði flóða ef þau yrðu í kjölfar eldgoss í norðanverðum Vatnajökli.