Ólafur Magnús Ólafsson fæddist 15. júní 1959 í Reykjavík. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í Hveragerði 31. desember 2024.
Foreldrar hans voru Ólafur Markús Ólafsson menntaskólakennari og Anna Christine Hansen tónlistarkennari. Systir Ólafs er Guðrún Birna, eiginmaður hennar er Kristinn Hörður Grétarsson.
Árið 1991 gekk Ólafur í hjónaband með Chonu Hafdísi Ólafsson frá Filippseyjum. Þau skildu. Dætur þeirra eru: 1) Bryndís, gift Ágústi Helgasyni. Synir þeirra eru Hjalti Þór og Breki Steinn. 2) Anna Kristín, sambýlismaður hennar er Ottó Valur Leifsson, dætur þeirra eru Sara Mist og nýfædd dóttir.
Ólafur ólst upp í Hlíðahverfinu í Reykjavík og gekk þar í barna- og unglingaskóla. Hann starfaði lengi sem strætisvagnastjóri hjá SVR, rak sína eigin sendibifreið um tíma og vann sem rútubílstjóri hjá Teiti Jónassyni. Hann stofnaði og rak sitt eigið hreingerningarfyrirtæki um skeið. Síðastliðinn áratug glímdi Ólafur við hjartavandamál sem hann tókst á við af einstakri ró og æðruleysi. Trúin átti hug hans allan, eignaðist hann marga góða vini í gegnum bænahópa sem hann sótti reglulega.
Útförin fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 16. janúar 2025, klukkan 13.
Nú hefur hann Ólafur Magnús Ólafsson, jafnan kallaður Óli, kvatt. Fregnir af andláti hans komu nokkuð óvænt 1. janúar síðastliðinn og þó ekki. Síðast sá ég hann er hann kom í mat til okkar hjóna á aðfangadagskvöld ásamt öðrum vini okkar. Ekki leist mér of vel á útlit hans en hann hafði glímt við alvarlega hjartabilun um árabil eins og faðir hans áður og föðurbræður. Aldrei vildi hann gera mikið úr þessum veikindum, sagði aðspurður: „Ég hef það fínt, bara fínt.“ Þótt maður vissi og sæi að sannleikurinn væri annar. Um Óla mátti segja að hann var góður drengur en hefði mátt vera sjálfum sér betri.
Óla kynntist ég fyrst árið 1977 eftir að hafa kynnst móður hans og systur í Grikklandsferð með Guðna í Sunnu það sumarið. Við Guðrún Birna systir hans urðum vinkonur þarna og eftir heimkomu má segja að ég hafi orðið heimagangur á heimili Óla og Guðrúnar, þ.e.a.s. foreldra þeirra, þeirra Önnu Hansen tónlistarkennara og Ólafs M. Ólafssonar menntaskólakennara. Það var alltaf gaman að koma á heimili þeirra Ólafs og Önnu hvort sem tilefnið var sérstakt eða bara heimsókn. Þá brást ekki að Ólafur eldri settist við eldhúsborðið með okkur yngra fólkinu í kaffispjall. Þetta voru samhent hjón og bæði sýndu þau vinum barna sinna áhuga og umhyggju. Með einhverjum hætti fann maður sig einstaklega velkominn á heimilinu. Samhljómurinn hjá fjölskyldunni var mikill, oftar en ekki varð ég vitni að því að ef eitthvað vantaði, s.s. að sjónvarpið bilaði, þá sá maður á eftir Óla yngri á leið út og koma svo að vörmu spori aftur með nýtt sjónvarp. Einhvern tíma fannst honum vanta hljómflutningstæki og auðvitað lá beint við að skjótast út í búð og kaupa þau og setja upp. Oft kom það sér vel fyrir systur hans að hringja í hann bleyju- og/eða matarlaus úr Breiðholtinu, Óli var óðara kominn með það sem vantaði. Aldrei var rukkað fyrir neitt. Það var svolítið eins og „kommúnulíf“ sem hafði skapast á heimili foreldranna og e.t.v. varð það til þess að Óli lærði ekki að líta á peningamál í skilningnum „ég á“ heldur „við skulum bara deila þessu“.
Svo var það árið 1989 er ég var á leið heim eftir árs dvöl í Frakklandi að ég hitti Önnu Hansen á flugvellinum í Lúxemborg. Þar var hún á heimleið með lík eiginmanns síns í vélinni, en hann hafði hnigið niður í veislu í Giesen í Þýskalandi þar sem þau voru með þýskum vinum sínum. Okkur tókst að fá því framgengt að sitja saman og reyndi ég af veikum mætti að leiða hug hennar frá þessum sorglegu aðstæðum. En eftir þetta varð Anna aldrei söm.
Samband mitt við Óla yngri var með löngum hléum eins og gengur og gerist þar til hann fyrir tæpum fjórum árum flutti hingað í Hveragerði. Eftir það kom hann í heimsókn til okkar hjóna reglulega einu sinni til tvisvar í viku og var kærkominn gestur. Þótt skoðanir okkar Óla færu ekki alltaf saman lærðist okkur að sigla fram hjá þeim skerjum sem á steytti.
Að lokum vottum við hjónin dætrum hans, Önnu Kristínu og Bryndísi, og fjölskyldum þeirra innilega samúð sem og Guðrúnu Birnu systur hans.
Ingibjörg Ólafsdóttir.
Ólafur Magnús Ólafsson, frændi minn og vinur, er genginn til moldar, 65 ára að aldri. Við vorum systrasynir og ólumst að mörgu leyti upp saman þar sem ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að dveljast reglulega á heimili foreldra hans, þeirra Önnu, móðursystur minnar, og eiginmanns hennar, Ólafs M. Ólafssonar. Þar var gott að vera, enda voru þau hjón einstaklega ljúf og góð, á heimilinu ríkti góður andi, lít ég baka til þessara ára með þakklæti í huga fyrir þá umhyggju sem þau sýndu mér ætíð. Við Óli, eða frændi eins og hann var oftast kallaður, brölluðum margt um ævina, sérstaklega á yngri árum, og héldum sambandi fram að andláti hans.
Hann gerðist snemma áhugamaður um bifhjól og bifreiðar, eignaðist skellinöðru til að byrja með og síðar bifhjól. Hann fór oft í styttri og lengri ferðir með félögum sínum, skrapp t.a.m. í Borgarnes og til baka sama dag.
Við unnum talsvert saman, hann sem rútubílstjóri og ég sem leiðsögumaður. Hann var afar góður og fær bílstjóri, enda með mikla reynslu að baki. Hann var ljúfur í samskiptum við ferðamenn, svo og við alla aðra starfsmenn í ferðageiranum. Ferðamenn báru ómælt traust til hans sem bílstjóra, þeim leið vel undir akstri hans og voru öryggir með sig. Fyrir meira en áratug fékk hann hjartaáfall og átti upp frá því við ýmis heilsufarsleg vandamál að stríða. Hann tókst á við þau af æðruleysi og hugarró, sjaldan heyrði ég hann kvarta yfir heilsuleysinu, var reyndar lítið fyrir að flækja hlutina of mikið. Sterk trú hans hefur án efa hjálpað honum að takast á við veikindin.
Óli var traustur frændi og vinur, tryggur, gestrisinn, hjálpsamur, velviljaður og glaðsinna. Síðustu árin bjó hann í Hveragerði þar sem hann festi kaup á hlýlegri íbúð, þar undi hann hag sínum vel og eignaðist marga góða vini, sérstaklega í gegnum bænahópa sem hann stundaði reglulega. Hann lætur eftir sig tvær dætur, þær Bryndísi og Önnu Kristínu, tengdasyni og barnabörn. Þær systur eru einstaklega góðar og ljúfar, miklar vinkonur dætra minna, enda stórfrænkur, skyldar þeim í móður- og föðurætt.
Genginn er á vit feðra sinna góður drengur. Ég sendi þeim Bryndísi og Önnu Kristínu og Chonu innilegar samúðarkveðjur.
Svavar Bragi Jónsson.