HM 2025
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Íslenska karlalandsliðið í handknattleik hefur keppni á heimsmeistaramótinu í kvöld klukkan 19.30 þegar það mætir liði Grænhöfðaeyja í fyrstu umferð G-riðils í Zagreb í Króatíu.
Á undan, eða klukkan 17, mætast Slóvenía og Kúba í hinum leiknum í fyrstu umferð riðilsins.
Grænhöfðaeyjar eru þekkt stærð í handboltanum eftir ágæta frammistöðu á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð og Póllandi árið 2023.
Þá mættust Ísland og Grænhöfðaeyjar í fyrsta og eina skiptið til þessa, í milliriðli keppninnar í Gautaborg. Ísland vann allöruggan sigur, 40:30, þar sem Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði sex mörk fyrir íslenska liðið en skyttan Délcio Pina var atkvæðamest í liði Grænhöfðaeyja með ellefu mörk.
Staðan var 16:13 undir lok fyrri hálfleiks en íslenska liðið skoraði síðustu tvö mörk fyrri hálfleiks og stakk síðan af þegar leið á seinni hálfleikinn.
Grænhöfðaeyjar komust í milliriðilinn á HM 2023 með því að vinna Úrúgvæ örugglega, 33:25, en það er fyrsti og eini sigur liðsins á heimsmeistaramóti til þessa. Liðið tapaði 34:27 fyrir Svíum og 30:28 fyrir Brasilíu í riðlakeppninni og eftir leikinn gegn Íslandi töpuðu Grænhöfðarnir leikjunum sem eftir voru; 35:23 gegn Portúgal og 42:30 gegn Ungverjalandi.
Niðurstaðan varð 23. sæti af 32 þjóðum á HM 2023 og liðið varð næstefst Afríkuþjóða, á eftir Egyptalandi en á undan Túnis, Marokkó og Alsír.
Úr Gróttu og Herði
Leikmenn Grænhöfðaeyja spila með félagsliðum hér og þar. Tveir þeirra hafa leikið með íslenskum liðum; Hafsteinn Óli Ramos leikur með Gróttu eins og áður hefur komið fram og hornamaðurinn Admilson Furtado lék fyrri hluta vetrar með Herði á Ísafirði í 1. deildinni.
Flestir leika með félagsliðum í Portúgal, sex talsins. Tveir leika í Frakklandi, tveir á Spáni og tveir í Brasilíu. Línumaðurinn Ivo Santos leikur undir stjórn Arnórs Þórs Gunnarssonar hjá Bergischer í þýsku B-deildinni og aðrir sem voru í 19 manna hópi fyrir HM koma frá liðum á Ítalíu, Sádi-Arabíu, Lúxemborg og Kúveit.
Hópurinn hefur ekki breyst mikið frá því að liðið mætti Íslandi fyrir tveimur árum.
Féllu fyrir kóvid 2021
Grænhöfðaeyjar tryggðu sér í fyrsta sinn sæti á HM árið 2021, þegar keppnin var haldin í Egyptalandi, en þá þurfti liðið að hætta við þátttöku rétt áður en mótið hófst þegar kórónuveiran skæða kom upp í æfingabúðum þess í Portúgal.
Þetta er því í þriðja skiptið í röð sem Grænhöfðaeyjar tryggja sér keppnisrétt á HM. Það gerði liðið með því að komast í undanúrslit Afríkumótsins í Egyptalandi í janúar á síðasta ári. Þá vann liðið fyrst alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni og tryggði sannfærandi sigur gegn Marokkó í 8-liða úrslitum, 31:22, því keppnisréttinn á HM 2025. Grænhöfðaeyjar töpuðu síðan fyrir Alsír, 32:26, í undanúrslitum og fyrir Túnis, 35:28, í leik um bronsið.
Liðið endaði því í fjórða sæti Afríkumótsins, á eftir Egyptalandi, Alsír og Túnis, en Gínea náði fimmta og síðasta sæti Afríku á HM.
Besti árangur Grænhöfðaeyja á Afríkumóti er annað sætið árið 2022, en þá tapaði liðið fyrir Egyptalandi í úrslitaleik.