Sigurður Ingi Friðleifsson
Sigurður Ingi Friðleifsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þrátt fyrir svokallað bakslag fækkar nýjum mengandi bílum, sem má telja stærra markmið en að fjölga rafbílum.

Jón Björn Skúlason og Sigurður Ingi Friðleifsson

Nokkur umræða hefur farið fram að undanförnu um hrun í sölu á rafbílum. Eins og oftast á þetta að vera stjórnvöldum að kenna fyrir að fara of bratt í lækkun ívilnana. Á sama tíma heyrast raddir um að olíuverð á Íslandi sé eitt það hæsta í heimi.

Ívilnanir

Niðurfelling virðisaukaskatts á rafbíla er sennilega farsælasta ívilnun sem farið hefur verið í og bjó hún til það umhverfi sem nú er á bílamarkaði á Íslandi. Rétt er að benda á að virðisaukaskattur var ekki að fullu niðurfelldur heldur aðeins af fyrstu 6 milljónunum og var því að hámarki um 1,36 m.kr. Þessi tala var lækkuð í 900.000 kr. en allir fá sama styrk. Á sama tíma hafa komið á markað ódýrari rafbílar og því hefur verið haldið fram að rafbílar muni halda áfram að lækka í verði. Nú er staðan þannig að rafbíll með 900.000 kr. styrk er oftast á svipuðu verði eða jafnvel ódýrari í innkaupum en sambærilegur bensínbíll. Eftir það er rafbíllinn svo auðvitað mun ódýrari í rekstri þrátt fyrir kílómetragjald og ekki síst mun vistvænni. Rafbílar eru margfalt orkunýtnari en olíudrifnir bílar og að auki er útsöluverð olíu á Íslandi eitt það hæsta í heiminum en raforkuverð er aftur á móti lágt hér miðað við flestar þjóðir. Valið ætti því að vera augljóst. Hversu langt eiga stjórnvöld að ganga í að niðurgreiða tæknina þegar hún er ódýrari í líftíma miðað við núverandi ívilnanir, skemmtilegri í notkun og vistvæn? Rafbílakaup eru þjóðhagslega hagkvæm, þar sem rafbíll notar innlent eldsneyti en ekki erlent mengunareldsneyti keypt fyrir verðmætan gjaldeyri.

Um þessar mundir eru einnig að koma fram losunarfríar lausnir í þungaflutningum, vetni og rafmagn. Líkt og fyrir 7-8 árum þegar rafbílar voru að hefja landtöku sína þurfa slík tæki stuðning í upphafi innleiðingar. Hver trukkur er á við 30-50 fólksbíla og allur árangur sem næst í orkuskiptum þungaflutninga vegur þungt. Sama gildir um almenningssamgöngur og rútur. Áherslan í orkuskiptum vegasamgangna þarf því að færast með auknum þunga í átt að stærri tækjum.

Sala rafbíla er heldur ekki eins slæm og af er látið. Vissulega voru færri rafbílar nýskráðir í fyrra en árin á undan. En það sama gildir um bensín- og dísilfólksbíla. Þrátt fyrir svokallað bakslag fækkar nýjum mengandi bílum, sem má telja stærra markmið en að fjölga rafbílum. Bílaleigur eru stór kaupandi að fólksbílum og árið 2024 keyptu þær 65% allra fólksbíla sem ganga eingöngu fyrir jarðefnaeldsneyti. Heimili og önnur fyrirtæki standa sig með ágætum í rafvæðingunni með 44% nýskráningarhlutfall rafbíla í fyrra og 63% ef tengiltvinnbílar eru teknir með.

Innviðir

Þungaflutningar eru mun betri viðskiptavinir innviða en fólksbílar, enda þurfa þeir mikla orku í hvert skipti. Ef þjóðinni tekst að koma þungaflutningum í auknum mæli á vistvæna orku má því gera ráð fyrir að í kjölfarið fylgi innviðir sem fólksbílar geta einnig nýtt.

Stjórnvöld hafa komið nokkuð myndarlega að uppbyggingu innviða fyrir rafbíla. Stærsti hluti hraðhleðslustöðva á Íslandi hefur fengið fjárfestingarstyrk frá Orkusjóði. Einnig hafa stjórnvöld komið að innleiðingu smærri hleðslustöðva með styrkjum og niðurfellingu gjalda. Nú er svo komið að yfir 30.000 rafbílar aka um á Íslandi og ef vel tekst til með stærri tæki á næstu árum mætti ætla að hefðbundinn markaður væri kominn fyrir innviðauppbyggingu fyrir slíkan flota.

Mikilvægt er því að horfa til þess fylla í eyður í vegakerfinu og efla núverandi hleðslupunkta til að geta afgreitt stærri ökutæki og um leið fjölgað tenglum til að efla þjónustu við fólksbíla.

Jón Björn er framkvæmdastjóri Íslenskrar NýOrku og Sigurður Ingi er sviðsstjóri orkuskipta og hringrásar hjá Umhverfis- og orkustofnun.