Emil Valsson fæddist í Reykjavík 21. júní 1975. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Fossvogi 27. desember 2024.

Foreldrar Emils voru Valur Emilsson verslunarmaður frá Keflavík, f. 26. október 1947, d. 4. janúar 2011, og Guðrún Ragnheiður Valtýsdóttir hárgreiðslumeistari frá Keflavík, f. 31. mars 1948. Yngri bróðir Emils er Guðmundur Valtýr, f. 20. september 1977.

Fyrrverandi sambýliskona Emils er Guðmunda Magnea Friðriksdóttir. Sonur þeirra er Darri Þór, f. 24. nóvember 2013.

Emil ólst upp og bjó lengst af í Keflavík. Hann lauk grunnskólaprófi frá Holtaskóla og stundaði nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem og í Iðnskólanum í Reykjavík. Leið hans lá svo til Orlando í Bandaríkjunum þar sem faðir hans bjó um tíma. Þar nam hann tölvunarfræði í tvö ár í tölvu- og kvikmyndaskólanum Full Sail University. Eftir nám flutti Emil aftur heim til Íslands og hóf störf sem kerfisstjóri hjá Netsamskiptum og síðar hjá Isavia og Keili.

Útför Emils fer fram í Keflavíkurkirkju í dag, 16. janúar 2025, kl. 13.

Elsku bróðir.

Ég hef fullt að segja frá en trúi samt ekki að ég þurfi þess núna því þetta er algjörlega ótímabært. Við áttum að enda saman á elliheimilinu, spila Ólsen ólsen og rifja upp gamla góða tíma, góðu stundirnar og auðvitað slagsmálin líka, þau eru alltaf minnisstæð. Yfirleitt tapaði ég þeim enda þú eldri og stærri en alltaf urðum við góðir vinir aftur nokkrum mínútum síðar.

Talandi um gömlu tímana, það var alltaf gaman hjá okkur, lékum okkur mikið saman enda bara tvö ár á milli okkar og við fengum nánast aldrei leið hvor á öðrum. Allt frá því að leika með legókubba, Matchbox-bíla, He-Man-karla eða bara úti í móa að drullumalla og svo aðeins seinna meir að kveikja í sinu og búa til reyksprengjur, mamma elskaði það mest þegar við komum heim angandi eins og reykofnar.

En það sem sameinaði okkur mest voru fjórhjólin, það byrjaði snemma, ég 12 og þú 14 ára. Það var ekkert eðlilegra á þeim tíma að guttar á þessum aldri varla orðnir kynþroska væru að töffarast saman á fjórhjóli á götum Keflavíkur með lögguna á eftir sér. Vá hvað það var skemmtilegt og bara einu sinni náðu þeir okkur en það var bara því við urðum bensínlausir í miðjum eltingarleik, annars átti hún ekki séns.

Svo þegar við fullorðnuðumst aðeins vorum við aðeins minna saman en samt alltaf nálægt hvor öðrum, vorum með misjöfn áhugamál og stunduðum þau og nutum.

Ég man þegar þú fórst til pabba í Orlando upp úr tvítugu og varst í tvö ár í skóla, þá var það í fyrsta skipti sem við vorum ekki saman alla daga, mjög skrýtið og mjög erfitt á tímum því þá hafði ég engan til að böggast í.

Svo áfram til síðari ára þá hittumst við líka minna, báðir í samböndum og höfðum minni tíma. En við vorum líka rosalega ólíkir, með ólíkar þarfir og allt það. En alltaf varstu samt besti bróðir í heimi, viðurkenni að ég æsti mig stundum of mikið við þig þegar þú varst í fíflagangi að trúðast í mér, fyrirgefðu það en jú þú varst líka rólegri, jarðbundni bróðirinn.

Missir okkar mömmu er mikill en ekkert í líkingu við elsku fallega Darra Þór þinn. Þú lifðir fyrir hann, elskaðir þennan snúð svo mikið og dáðir. Þið áttuð einstakt og fallegt samband. Við mamma, mamma hans og fjölskyldur munum passa upp á molann þinn. Faðmaðu svo pabba fyrir mig og segðu honum að Orlando Magic séu ekki ennþá búnir að vinna NBA-titilinn. Elska þig kæri bróðir og sjáumst síðar.

Guðmundur (Gummi).

Á dimmustu dögum ársins þegar helgi jólanna hvíldi yfir og veður voru voveifleg kvaddi Emil, okkar kæri frændi, þessa jarðvist. Þeir bræður Emil og Gummi voru samofnir uppvexti okkar systkina. Samgangur mikill milli fjölskyldna enda systkinabörn. Tilveran samofin, heimilin nálægt hvort öðru. Leikvellir æskunnar voru þeir sömu. Fyrst á Hringbraut og Mávabraut og síðar í Grænagarði og Fagragarði. Við vorum bundin fjölskyldu- og vinaböndum og áttum sameiginlega æsku. Heimili þeirra Vals og Gauju stóð okkur ávallt opið. Við pössuðum hvort annað og pössuðum upp á hvort annað. Emil var viðkvæmur í lundu sem barn. Feiminn en athugull með stríðnisglott í augum.

Við minnumst með þakklæti þess tíma sem við áttum saman. Það voru mörg ævintýrin í Keflavík æskunnar: Prakkarastrik í hverfinu, þeysireiðir á fjórhjólum og stelast til að horfa á hryllingsmyndir löngu áður en sextán ára aldri var náð. Emil var alltaf svo skemmtilegur húmoristi og gat verið mjög stríðinn. Emil var líka ráðagóður þegar kom að alls kyns viðgerðum og tæknibralli. Í tölvu- og tæknimálum var enginn betri en Emil að redda öllum, hvort sem það voru vinir og fjölskylda eða heilu fyrirtækin, enda var hann mjög hæfileikaríkur á því sviði.

Lífsleið Emils var ekki alltaf bein og breið. Hann glímdi við sykursýki og mátti á tíðum hugsa betur um sjálfan sig. Emil lagði sig fram í föðurhlutverkinu og var mjög náinn Darra Þór syni sínum. Lífsleið Emils var líka stutt. Styttri en við hefðum kosið. Við biðjum fyrir sálu Emils sem nú hefur yfirgefið leikvöllinn, skilur okkur hin eftir eilítið snauðari. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að ganga um stund með Emil og skapað góðar minningar. Við vitum að Valur pabbi hans og Kristín systir okkar taka á móti sálu Emils hinum megin við tjöldin sem við ekki sjáum. Hugur okkar er hjá Gauju, Gumma og Darra Þór. Stórt skarð hefur verið höggvið í þeirra tilveru og er missirinn mikill. Megi þau fá styrk í sorginni.

Kristján, Berglind Ósk og Árelía Eydís.

Hvernig tengist þú Emil? spurði presturinn mig á gjörgæslu LSH þar sem ég var með þeim á kveðjustundinni.

Ég er búin að þekkja hann síðan hann var í maganum á mömmu sinni, svaraði ég.

Það fannst henni prestinum fallegt.

Og það er einmitt rétt, ég hef þekkt hann og umgengist öll þessi ár síðan hann fæddist. Það var alltaf gaman á Suðurgötunni þegar hann sat í eldhúsvaskinum hjá Elínu ömmu sinni, og þar voru þeir bræðurnir mikið og sóttu í vaskinn hjá ömmu og góðgætið úr búrinu, amma Elín leyfði þeim allt.

Síðan liðu árin og hann stækkaði og varð fullorðinn, og mikið var oft gaman og mikið grín í Grænagarðinum þar sem hann ólst upp.

Síðan eru góðar og skemmtilegar minningar frá því þegar við mamma hans og Gummi heimsóttum Emil til Orlando í Florida, en þar var hann í skóla að læra tölvunarfræði og bjó hann hjá pabba sínum sem er látinn og Debbie konu hans. Blessuð sé minning Vals sem einnig var góður vinur minn.

Við gerðum margt skemmtilegt saman þar, fórum meðal annars á NBA-körfuboltaleik og í Universal Studios, og margt skemmtilegt brallað.

Hann var snillingur í tölvumálum og vinsæll meðal þeirra sem þurftu á aðstoð í þeim málum að halda.

Hann var ljúfur, fallegur og góður drengur, sem er fallinn frá allt of fljótt, hann var alltaf tilbúinn að hjálpa okkur Jóni með tölvurnar og sjónvarpið, sérstaklega bóngóður og yndislegur.

Hann var kannski ekkert flaðrandi upp um fólk og ekki margmáll alltaf, frekar dulur og fannst kannski sumum hann fráhrindandi.

En þegar þú fórst að kynnast honum var hann flottastur, bestur og stutt í húmorinn hjá honum. Ég er að skrifa þessi fátæklegu orð vegna þess að mig langar að segja hug minn um þennan vin minn i öll þessi ár.

Það er mikil sorg og eftirsjá hjá þeim mömmu hans Gumma bróður hans og Darra litla syninum, sem var augasteinninn hans pabba síns, en þeir áttu sérstakt og gott samband alla tíð og var hann góður pabbi. Auðvitað er hann Darri litli ekki að skilja þetta, þessi litla elska.

Ég og Jón vottum þeim okkar innilegustu samúð.

Megi góður Guð varðveita og blessa Emil og minningu hans.

Rakel Erna.

Við sjáum að dýrð á djúpið slær,

þó degi sé tekið að halla.

Það er eins og festingin
færist nær,

og faðmi jörðina alla.

Svo djúp er þögnin við þína sæng,

að þar heyrast englar tala,

og einn þeirra blakar bleikum væng,

svo brjóst þitt fái svala.

Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,

svo blaktir síðasti loginn.

En svo kemur dagur og
sumarnótt,

og svanur á bláan voginn.

(Davíð Stefánsson)

Elsku Emil, í dag kveðjum við þig kæran frænda.

Með þér er genginn góður drengur sem skilur eftir sig ljúfar minningar í hjarta okkar.

Hafðu þökk fyrir allt.

Elsku Darra Þór, Gauju og Gumma Valla sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Elín, Ágústa, Valtýr og fjölskyldur.