[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valur hefur samið við norska knattspyrnumanninn Markus Lund Nakkim um að leika með liðinu næstu tvö ár. Nakkim er 28 ára miðvörður sem kemur frá Orange County í bandarísku B-deildinni. Áður lék hann með HamKam, Mjöndalen, Viking, Strömmen og Vålerenga í heimalandinu

Valur hefur samið við norska knattspyrnumanninn Markus Lund Nakkim um að leika með liðinu næstu tvö ár. Nakkim er 28 ára miðvörður sem kemur frá Orange County í bandarísku B-deildinni. Áður lék hann með HamKam, Mjöndalen, Viking, Strömmen og Vålerenga í heimalandinu.

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo skrifar senn undir nýjan samning við sádiarabíska félagið Al-Nassr. Spænski miðillinn Marca greindi frá en Ronaldo, sem er 39 ára gamall, fær umtalsverða launahækkun við undirskrift á nýja samningnum auk þess að eignast hlut í félaginu. Ronaldo mun þéna 183 milljónir evra fyrir tímabilið í Sádi-Arabíu, sem gera 550.000 evrur eða 80 milljónir íslenskra króna á dag.

Serbneski tennisleikarinn Novak Djokovic sló í gær met Svisslendingsins Roger Federer þegar hann vann Portúgalann Jaime Faria 3:1 í annarri umferð Opna ástralska meistaramótsins í Melbourne. Djokovic er nú sá tennisleikari sem hefur spilað flesta leiki, karla- og kvennamegin, á stórmótum. Hann hefur tekið þátt í 430 viðureignum í einliðaleik á stórmótum í tennis.

Knattspyrnusamband Íslands hefur sektað Víking í Reykjavík um 60 þúsund krónur fyrir að tefla fram ólöglegum leikmanni gegn KR á Reykjavíkurmóti karla í fyrrakvöld. Stígur Diljan Þórðarson tók þátt í leiknum en hann er ekki orðinn löglegur með Víkingi eftir að hafa nýverið komið til liðsins frá Triestina á Ítalíu. KR vann leikinn 5:2 og standa þau úrslit.

Rasmus Lauge, einn af lykilmönnum ríkjandi heimsmeistara Danmerkur í handknattleik, meiddist í stórsigri á Alsír, 47:22, í B-riðli HM 2025 á þriðjudagskvöld. Lauge meiddist á kvið og sagði við fréttamenn eftir leik að hann byggist við því að um smávægilega tognun væri að ræða. Nikolaj Jacobsen, þjálfari Danmerkur, sagði útlitið ekki gott og að Lauge myndi að öllum líkindum missa af næsta leik í B-riðlinum, gegn Túnis í kvöld.

Enski knattspyrnumaðurinn Trevoh Chalobah er kominn aftur til Chelsea, sem kallaði hann heim úr láni hjá Crystal Palace en til stóð að hann yrði þar allt tímabilið. Chelsea reyndi að kaupa enska landsliðsmiðvörðinn Marc Guéhi af Palace en þegar það tókst ekki var ákveðið að fá Chalobah til baka.

Arnar Freyr Arnarsson, landsliðsmaður í handknattleik, leikur væntanlega ekki með þýska toppliðinu Melsungen fyrstu vikurnar eftir að keppni hefst á ný að heimsmeistaramótinu loknu. Arnar Freyr tognaði í læri í fyrri vináttuleiknum gegn Svíum á dögunum, varð að draga sig út úr landsliðshópnum í framhaldi af því, og hann staðfesti við RÚV í gær að fjarveran yrði á bilinu sex til tólf vikur.