Sigríður Jónsdóttir fæddist 16. janúar 1950 í Reykjavík. „Við fluttum til Danmerkur 1951 vegna framhaldsnáms föður, bjuggum m.a. í Álaborg og Hróarskeldu, fluttum þaðan til Svíþjóðar, áður en siglt var heim með Gullfossi 1957. Margar góðar minningar tengjast þessum tíma.
Það voru viðbrigði að flytja og setjast að í Reykjavík. Margt var ólíkt, t.d. að epli væru bara á jólum. Á móti kom að það var gaman að kynnast ættingjum og eignast vini. Við fluttum fyrst í Laugarneshverfið og ég fór í Laugarnes- og síðar Laugalækjarskóla. Árið 1959 fluttum við, ég fór í Réttarholtsskóla og þaðan í MH, var í fyrsta árgangi sem útskrifaðist þaðan.
Ég var nokkur sumur hjá ömmu og afa á Eskifirði og Reyðarfirði. Það var ómetanlegt að kynnast þeim og ættingjum. Ég komst í að salta síld á Eskifirði 15 ára gömul, það var dýrmæt reynsla.
Eftir stúdentspróf flutti ég úr foreldrahúsum, komin í sambúð með ungan son. Þaðan lá leiðin í HÍ í námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum, sem þá var nýstofnuð. Þar opnaðist nýr heimur fyrir hóp ungs fólks sem vildi læra eitthvað nýtt.“
Að loknu BA-námi fór Sigríður að vinna félagsráðgjafarstörf hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur, á nýrri hverfaskrifstofu í Breiðholti. „Það var mikilvæg reynsla. Þá vantaði mjög fólk með þá menntun hérlendis.“ Haustið '76 var haldið til framhaldsnáms í Manchester í Englandi í stjórnsýslu og stefnumótun velferðarþjónustu. Að loknu námi tók við stundakennsla við nýja félagsráðgjafardeild HÍ og síðar starf hjá Félagsmálastofnun, en nú við önnur verkefni en fyrr. Ég var í stundakennslu meðfram starfi framan af en dró úr henni með tímanum. Árið 1982 fæddist dóttir. Ég hélt til starfa að loknu fæðingarorlofi, sem var mun styttra en það er í dag og ekkert feðraorlof. Þá kom sér vel að Óli hætti í starfi í eitt ár til að annast um hana.
Verkefnin hjá Félagsmálastofnun voru síbreytileg, til samræmis við breytt viðhorf, þarfir og þróun þjóðfélagsins. Í upphafi var það vinna að skráningu og gagnaöflun á sviði félagsþjónustu, síðar veitti ég forstöðu rannsóknar- og þróunarsviði og síðar skrifstofustjórn rannsókna og þjónustumats.
Eitt af því sem stendur upp úr frá þessum tíma eru rannsóknirnar sem lítið hafði verið unnið að á málefnasviðinu. Má þar t.d. nefna könnun á högum og húsnæðisþörf aldraðra Reykvíkinga, 1986, þá fyrstu sinnar tegundar, og 1993 könnun á högum barna sem voru sett í varanlegt fóstur. Þátttaka fyrir Íslands hönd í norrænu rannsóknarverkefni er eftirminnileg, sem lauk með útgáfu bókar, Gamlar konur á Norðurlöndunum – líf þeirra í texta og tölum, 1991. Þeirri vinnu fylgdi mikið kynningarstarf vegna mikils áhuga á niðurstöðunum. Árið 1995 voru reglur um afgreiðslu fjárhagsaðstoðar endurskoðaðar, með viðamikilli úttekt, og nýjar reglur samþykktar sem byggðust á réttindaviðmiðum í stað viðhorfa forsjárhyggju og ölmusu.
Veturinn 2008-2009 fór ég í námsleyfi til Englands, við háskólana í Bath og York, og kynnti mér samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu og gæðamat og eftirlit.“
Haustið 2009 söðlaði Sigríður um og hóf störf hjá félagsmálaráðuneyti. Þar voru áhugaverð verkefni, m.a. þátttaka í norrænu samstarfi og vinna að stefnumótun og rannsóknum. „Þá hafði Velferðarvaktin, sem var stofnuð í kjölfar efnahagshrunsins, lagt fram tillögu um gerð félagsvísa sem var samþykkt í ríkisstjórn í mars 2009. Ég stýrði starfinu í samstarfi við fjölmarga samstarfsaðila og lykilstofnanir. Velferðarvaktin var ábyrgðaraðili og fyrsta útgáfa félagsvísa var árið 2011.
Árið 2018 tók ég við stöðu framkvæmdastjóra gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar, sem var ný ráðuneytisstofnun, og sinnti því starfi þar til ég hætti störfum.“
Sigríður var í stjórn Félags íslenskra félagsvísindamanna, þar af með formennsku í fjögur ár, var formaður jafnréttisnefndar BHM 1987-1989, sat í sérfræðinganefnd Norræna öldrunarfræðasambandsins, í Öldrunarfræðafélagi Íslands, formaður 2002-2005, í stjórn Ís-Forsa – félags um rannsóknir í félagsráðgjöf, í byrjun aldarinnar, og var formaður um skeið.
„Áhugamál eru mikilvæg í lífinu. Ég hef stundað líkamsrækt í hópi sem kallar sig 5.15 í Kramhúsinu í rúm 40 ár. Við göngum vikulega á sumrin og förum í eina lengri göngu. Förum á danshátíðina „Gymnastics of the Golden Age“ nú síðast í Burgas í Búlgaríu. Förum næst til Frakklands 2026.
Gönguferðir um landið eru uppáhald og sundlaugarnar dásamleg heilsubót. Það gefur lífinu gildi að hitta vini og bókaklúbbur, skraflklúbbur og saumaklúbbur auðga lífið. Ferðalög utanlands eru ofarlega á blaði, þau hafa færst til fjarlægari staða eftir því sem árin hafa liðið þar sem maður kynnist nýrri menningu og siðum. Leikhúsferðir eru líka líf okkar og yndi og ekki má gleyma bóklestri.“
Fjölskylda
Eiginmaður Sigríðar er Ólafur Örn Thoroddsen, f. 21.4. 1950, leikari og fv. yfirmaður hljóðdeildar í Borgarleikhúsinu, búsett í miðbæ Reykjavíkur. Foreldrar Ólafs voru hjónin Elín Svafa Bjarnadóttir, f. 17.5. 1921, d. 1.11. 2019, húsmóðir í Reykjavík og vann við skrifstofustörf, og Eyjólfur Thoroddsen, f. 25.10. 1919, d. 13.7. 2006, loftskeytamaður.
Sonur Sigríðar með fv. sambýlismanni, Hallgrími Óskari Guðmundssyni stjórnmálafræðingi, er 1) Jón Óskar, f. 16.11. 1969, hagfræðingur, Reykjavík. Maki: Guðrún Ögmundsdóttir hagfræðingur. Börn þeirra eru Sigríður Olga, f. 2009, Ögmundur Óskar, f. 2011, og Margrét Helga, f. 2015, Dóttir Sigríðar og Ólafs er 2) Halldís, f. 12.5. 1982, talmeinafræðingur, Reykjavík. Maki: Andrés Þór Halldórsson verkfræðingur. Börn þeirra eru Bergdís Þóra, f. 2014, Halldór Óli, f. 2016, og Saga Rún, f. 2021.
Systkini Sigríðar eru Eiríkur Jónsson, f. 21.8. 1952, blaðamaður, Reykjavík; Margrét Jónsdóttir, f. 27.12. 1958, kennari og bóndi, Flúðum; Ingunn Jónsdóttir, f. 27.12. 1958, kennari, Reykjavík, og Þórunn Jónsdóttir, f. 31.7. 1965, hjúkrunarfræðingur, Mosfellsbæ.
Foreldrar Sigríðar voru hjónin Lovísa Eiríksdóttir, f. 30.6. 1928, d. 23.7. 2013, húsmóðir í Reykjavík, og Jón Þorsteinsson, f. 31.7. 1924, d. 15.11. 2017, yfirlæknir og prófessor í gigtlækningum.