Dynjandisheiði Mælingar 1957, f.v.: Svanur Sveinsson, Jón J. Víðis, Jakob Hálfdanarson og Guðmundur.
Dynjandisheiði Mælingar 1957, f.v.: Svanur Sveinsson, Jón J. Víðis, Jakob Hálfdanarson og Guðmundur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þannig stóð á að Jón J. Víðis, sem var nú í þjónustu Vegagerðarinnar í rúmlega hálfa öld, var móðurbróðir minn,“ segir Jakob Hálfdanarson tæknifræðingur í samtali við mbl.is. Jakob er horfinn inn í sólskin eftirlaunaáranna, en man…

Viðtal

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Þannig stóð á að Jón J. Víðis, sem var nú í þjónustu Vegagerðarinnar í rúmlega hálfa öld, var móðurbróðir minn,“ segir Jakob Hálfdanarson tæknifræðingur í samtali við mbl.is. Jakob er horfinn inn í sólskin eftirlaunaáranna, en man tímana tvenna þegar kemur að íslenskri vegagerð, enda starfaði hann á þeim vettvangi frá því snemma á unglingsárum.

Kveikjan að þessu viðtali er ljósmynd sem birtist fyrir jól í Facebook-hópnum Gamlar ljósmyndir, líklega einum stærsta hópi íslensks áhugafólks sem finnanlegur er þar á bók, með 86.000 manns innanborðs, enda ekki örgrannt um að ljúfsárar æskuminningar sæki að mörgum hópverjanum við að sjá gamlar myndir sem tengjast flugsögu Íslands, landbúnaði, löngu horfnum byggingum um allt land, löngu horfnu verklagi eða hverju eina sem nöfnum tjáir að nefna.

Fjölmargar myndir í hópnum koma úr einkasöfnum og hafa aldrei komið fyrir sjónir almennings – nokkuð sem síst dregur úr gildi þeirra.

Hóf störf 10. júlí 1956

Myndin sem kveikti þetta viðtal við Jakob tæknifræðing er af vegagerð um Hvalnesskriður árið 1962, við Kambnes milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar, og sýnir þegar þar var ruddur bílvegur. Viktor Arnar Ingólfsson birti myndina sem er úr myndasafni Vegagerðarinnar. Með fylgir svo önnur mynd af sama spotta frá Viktori til samanburðar. Sú er frá 12. september 2017.

Blaðamaður heyrði stuttlega í Svani Sveinssyni lækni sem starfaði sem mælingamaður hjá Vegagerðinni á þessum löngu horfna tíma, þá á unglingsaldri, og benti Svanur á Jakob sem glöggan og minnugan heimildarmann um íslenska vegagerð fyrir rúmum 60 árum. Reyndist hann hafa lög að mæla.

„Jón frændi minn var mælingamaður og fór um landið vítt og breitt, og ég var aðstoðarmaður hans,“ rifjar Jakob upp í símtali sem átti sér stað nú skömmu fyrir jól. Hann hóf störf fjórtán ára gamall, 10. júlí 1956, og man það sumar glöggt, fæddur 1942, á nýársdag, 1. janúar.

„Þetta var í fyrsta sinn sem ég fékk laun hjá Vegagerðinni, en ég hafði nú áður verið með Jóni sem hlaupastrákur, til dæmis var ég með honum þegar hann var að mæla fyrir veginum út í Gufunes þegar verksmiðjan var byggð 1952 og eins 1953 þegar verið var að gera tilraunir með það hvort hægt væri að nota jarðýtur til að leggja veg í brunnu hrauni. Það var vegur sem gekk undir nafninu Austurvegur og átti að liggja um Þrengsli og yfir Ölfusforir til Selfoss,“ segir Jakob frá.

Fimmtán tíma vinnudagur

Var Austurvegi þessum ætlað að leysa veginn yfir Hellisheiði af hólmi sem þá stóð til að leggja niður. Tilraunina kveður Jakob hafa tekist vel og byrjað hafi verið á veginum tveimur árum seinna, árið 1955, upp Draugabrekkur ofan við Litlu kaffistofuna. „Til bráðabirgða var sett vinkilbeygja upp á Hellisheiði sem varð umdeild vegna þess að hún var vinkilbeygja, en það var bara vegna þess að þetta var bráðabirgðavegur og átti aldrei að vera áfram, því leggja átti veginn yfir Hellisheiði niður. Leiðin austur átti að vera um Þrengslin, en Jón J. Víðis mældi fyrir veginum árið 1929,“ segir tæknifræðingurinn og bætir því við að upphaflega hafi leiðin verið mæld á árunum 1922 til 1923, fyrir rúmri öld, og þá með járnbraut í huga.

„Um það voru miklar áætlanir og var búið að teikna þetta allt saman – þær teikningar eru til. Hún átti að liggja frá þar sem Snorrabraut er núna. Þar átti að vera járnbrautarstöð og hinn endinn á Selfossi. En þetta komst nú aldrei í verk frekar en ýmislegt annað sem menn voru að skoða á þessum tíma,“ segir Jakob.

En hvernig fór þessi vinna fram hjá ykkur mælingapiltum, hvernig var vinnudagurinn til dæmis?

„Vinnudagurinn á þessum tíma hófst klukkan níu á morgnana og stóð þangað til við fórum að sofa svona um miðnætti,“ svarar Jakob og gætir einskis í málrómi hans sem lesa má úr að honum hafi þótt fimmtán klukkustunda vinnudagur annað en sjálfsagt mál. „Þannig unnum við sjö daga vikunnar, þessar mælingaferðir svokölluðu, sem farnar voru frá Reykjavík, stóðu yfirleitt í mánuð og þá var unnið alla daga,“ segir hann og er spurður út í mataraðföng.

„Já, það er nú það,“ svarar Jakob að bragði, „við vorum náttúrulega alltaf að mæla fyrir nýjum vegum, sem þýðir að við vorum á vegarenda og á vegarenda er engin þjónusta, þar voru engar sjoppur eða neitt svoleiðis. Maður borðaði oft bara á morgnana og svo á kvöldin þegar maður kom til baka. Við reyndum oft að hafa eitthvað með okkur, en það var mikið að bera svo það gekk nú ekki alltaf. Ég var í þessum mælingum í tíu ár og ég var svo svangur þarna sem ungur maður, að ég hef aldrei orðið svangur síðan,“ segir Jakob og vottar fyrir glettni í röddinni.

Kveðst hann í framhaldinu enn þann dag í dag bara borða samkvæmt klukku, en ekki fá sérstaka hungurtilfinningu, og stundar þessi 83 ára gamli maður þó líkamsrækt, var einmitt staddur í henni þegar blaðamaður hringdi fyrst í hann til að ámálga við hann viðtal það er hér er nú birt.

Segðu mér frá honum Jóni J. Víðis frænda þínum, hvernig maður var hann?

Tæknifræðingurinn hugsar sig um í stutta stund, enda spurningin óvægin. Sá sem hér skrifar er löngu hættur að ganga til viðtala með fyrirframákveðnar spurningar upp á vasann, spilar heldur eftir eyranu og viðmælandanum. Slíkt getur verið hin besta skemmtun.

Bílstjóri fimmtán ára

„Ja, hvernig maður var hann?“ veltir Jakob fyrir sér, „hann var mjög vandaður maður og vandaði allt sem hann gerði mjög. Til dæmis var hann snillingur í teikningum. Vegamálastjóri lýsti honum nokkuð vel í minningargrein þegar hann var jarðaður, Jón dó 6. janúar 1975, þá áttræður. Jón vann alltaf fyrir umferðina með því að leggja vegi og svo endaði þetta með því að hann varð fyrir bíl á Hringbraut 21. desember 1974,“ rifjar Jakob upp, stálminnugur á dagsetningar, en þær lét hann nokkrar flakka í tæplega klukkustundarlöngu spjalli sem ekki rataði allt í þessar línur.

Eins og Jakob nefndi var móðurbróðir hans mikill teiknari og var um tíma teiknikennari við Menntaskólann í Reykjavík, snemma á öldinni sem leið. „Hann hóf störf hjá Vegagerðinni 1922 og þess vegna var það þegar hann var að ræða vegi og legu þeirra, að hann var alltaf snöggur að teikna hugmyndir sínar upp og sýna mönnum hvar hann vildi hafa veginn. Hann var mjög útsjónarsamur að þessu leyti,“ segir Jakob og nefnir dæmi.

„Sumurin 1956 til 1959 vorum við á Dynjandisheiði og sá vegur var svo snilldarvel lagður, hann var opnaður haustið 1959, að það hefur aldrei neitt verið gert fyrir hann svo heitið geti fyrr en núna, það er fyrst núna sem verið er að endurgera hann og það er býsna langur líftími á vegi, yfir 60 ár,“ segir hann og er nú spurður út í vinnufélaga sína á sjötta áratugnum.

„Við vorum að öllu jöfnu þrír saman og þegar ég hóf störf 1956 var Svanur Sveinsson [síðar læknir] aðstoðarmaður Jóns og bílstjóri. Ég var þá þriðji maður. Venjulega þegar við vorum að stika út fyrir vegum notuðum við rauðar og hvítar mælingastikur og 20 metra mælingaband á milli. Þannig röktum við okkur áfram til að mæla fyrir veginum, þannig hófst þetta,“ segir Jakob frá.

Hann segir Jón frænda sinn hafa tekið bílpróf seint, um fimmtugt, og alltaf verið nokkuð stífan í akstri. „Það þýddi að þegar Svanur hætti og ég tók við fór ég að keyra bílinn, fimmtán ára gamall, og það var um allt Ísland,“ segir Jakob sposkur og kveður aksturinn hafa gengið vel. „Ég veit nú ekki hvort ég á að segja frá þessu samt,“ bætir hann við og segist að auki hafa starfað við vöruútakstur í Reykjavík sextán ára gamall, en viðtalið í heild sinni, og með fleiri myndum, má lesa á mbl.is.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson