Dagbjört Hjaltadóttir Systir Dagbjartar og eiginmaður misstu allt í snjóflóði í Súðavík.
Dagbjört Hjaltadóttir Systir Dagbjartar og eiginmaður misstu allt í snjóflóði í Súðavík. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það var enginn sem tók utan um þau, engin stofnun, aðeins einstaklingar úti í bæ. Systir mín var með hálfan tanngarðinn brotinn, axlarbrotin, viðbeinsbrotin og öxlin slitin, sinar og annað, en fékk enga eftirfylgni eftir að komið var…

Viðtal

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

„Það var enginn sem tók utan um þau, engin stofnun, aðeins einstaklingar úti í bæ. Systir mín var með hálfan tanngarðinn brotinn, axlarbrotin, viðbeinsbrotin og öxlin slitin, sinar og annað, en fékk enga eftirfylgni eftir að komið var suður,“ segir Dagbjört Hjaltadóttir, systir Berglindar Kristjánsdóttur sem ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum, Hafsteini Númasyni, missti þrjú börn í snjóflóðinu í Súðavík.

Dagbjört segir að víða hafi verið pottur brotinn þegar kom að aðhaldi með þeim hjónum eftir þann hörmulega missi sem þau upplifðu. Eftir áfallið hafi aleigan passað í eina tösku og segir Dagbjört að þeir sem fóru til Reykjavíkur eftir hamfarirnar hafi litla hjálp fengið vikurnar eftir að þau komu suður.

Með nokkrar flíkur í tösku

Dagbjört er 69 ára og hefur búið í Súðavík lengstum ævinnar. Hún segist afar náin systur sinni.

„Linda (Berglind) er ekki þannig gerð að hún vilji mjólka samúð, en mér finnst bara kominn tími til að segja frá þessu. Svona voru bara hlutirnir og sumt hefur setið í manni,“ segir Dagbjört. Eftir snjóflóðið var Berglind flutt á sjúkrahúsið á Ísafirði til aðhlynningar. Þar dvaldi hún í nokkra daga. Eftir það fóru þau Hafsteinn til Reykjavíkur þar sem þau stóðu á eigin fótum að sögn Dagbjartar.

„Þau voru send með almennu flugi til Reykjavíkur, með nokkrar flíkur í tösku og það var ekkert batterí sem hélt utan um þau. Þau voru á eigin róli og fóru bara til mömmu. En það var enginn frá Rauða krossinum, enginn frá almannavörnum, enginn frá félagsmálayfirvöldum sem greip þetta fólk,“ segir Dagbjört, sem sjálf hefur sinnt móttöku flóttafólks í Súðavík fyrir hönd Rauða krossins.

„Það vildi t.d. bara svo til að í gegnum kunningsskap við tannlækninn hér fyrir vestan að Berglind fékk tíma í Tanngarði, í háskólanum eftir að hún kom suður,“ segir Dagbjört.

Ókunnugur bauð íbúð

Árið 1995 bjó móðir þeirra búið í lítilli þriggja herbergja blokkaríbúð í Vesturbæ þar sem þær systur ólust upp. Þar var sorgin mikil. „Mamma var sjálf alveg ómöguleg blessunin, búin að missa þrjú barnabörn og svolítið þungt yfir öllu.“

Upp úr þurru hafi hins vegar „einhver maður úti í bæ“ hringt í þau Berglindi og Hafstein og boðið þeim íbúð á Hringbraut.

„Þá hafði ekki heyrst hóst eða stuna frá yfirvöldum eða þeim sem eiga að grípa fólk sem lendir í helvíti. Það er ekki til annað orð um það sem þau lentu í.“

Hún segir að í fyrstu hafi þau farið inn í tóma íbúð, án húsgagna. Sjálf þurftu þau að setja sig í samband við yfirvöld og eftir þeim leiðum fengu þau pening til að kaupa eldhúsborð, tvo stóla og rúm. Á þessum tíma hafði söfnunarfé ekki enn skilað sér til fórnarlamba.

„En þau sátu bara þar og horfðu á hvort annað. Bæði náttúrlega mjög langt niðri. Þau ákváðu þá sjálf að taka upp símaskrána til að finna sálfræðing eða einhvern sem gat hjálpað þeim. Það var bara gert með því að benda á nafn einhvers sálfræðings sem þau vissu í sjálfu sér ekkert um. Þetta lýsir því hvað þau voru ráðalaus. Það var enginn sem hnippti í þau eða var þeim innan handar,“ segir Dagbjört.

Hún tekur þó fram að alls kyns einstaklingar sem þau höfðu jafnvel engin tengsl við fyrir fram hafi sýnt þeim góðmennsku. Prjónað var á þau peysur, þeim gefið ýmislegt smálegt og annað í þeim dúr.

Barnaföt í pokunum

Talið víkur að dögunum eftir snjóflóðið. „Systir mín var orðin rólfær eftir að hafa verið á sjúkrahúsinu á Ísafirði í nokkra daga. Hún var á þessum tíma öll skökk og viðbeinið allt úr lagi gengið. Fólkinu var bent á að það gæti fengið föt, væntanlega frá Rauða krossinum. Farið var með þau inn í verslunarmiðstöð og þar lágu svartir pokar með notuðum fötum sem þau gátu fengið gefins. Það var ekki verið að kaupa handa þeim föt. En hvað um það. Hún fór með Sigríði [Rannveigu Jónsdóttur] sem var líka nýbúin að missa barnið sitt. Sigríður fór að gramsa í fötunum fyrir þær nema hvað að þetta voru mestmegnis barnaföt og úr varð að þær hreinlega gátu þetta ekki. Þær fara því sjálfar í fataverslun sem var þarna og fá að taka föt. En Rauði krossinn eða einhver annar borgaði það ekki og þau voru svo rukkuð fyrir fötin þegar þau komu suður. Samt vissu allir að þetta fólk átti ekki neitt,“ segir Dagbjört.

Dagbjörtu er mikið í niðri fyrir þegar hún segir frá þessu.

Enginn vildi snerta þau

„Ég veit ekki hvort það hefði tekið eitthvað af högginu sem þetta fólk upplifði, en það hefði verið betra ef einhver hefði getað séð um þetta praktíska. Þetta fólk missti ekki bara sína nánustu, það missti samfélagið sitt, eigur sínar og húsið sitt. Ég get ekki annað en gagnrýnt þetta. Þetta er litla systir mín,“ segir Dagbjört.

Hún telur að þetta afskiptaleysi hafi hægt á batanum hjá þeim Hafsteini og Berglindi. „Vegna þess að þau höfðu misst allt, öll börnin sín, þá var eins og enginn vildi snerta þau með glóandi töng. Harmurinn var einhvern veginn of mikill. Tilfinningin var svolítið eins og þeim hafi bara verið skilað og að þau skiptu engu máli. Auðvitað skiptu þau máli, en tilfinningin var þessi,“ segir Dagbjört.

Fengu ekki bústað

Hún tekur annað dæmi. „Allir sem bjuggu áfram í Súðavík fengu boð um að búa í sumarbústöðum sem komið var upp á öruggu svæði fyrir innan þorpið. Ég veit ekki hvernig það var með aðra sem fóru suður en ég veit að Hafsteinn og Linda (Berglind) fengu aldrei þetta boð. Hvort þau hefðu farið aftur er ómögulegt að segja en það hefði átt að vera þeirra að segja til um það.“

Vikurnar eftir snjóflóðið fór fram hreinsunarstarf í bænum. Braki og eigum fólks var staflað í margra metra háar hrúgur.

„Það var lögð mikil áhersla á að hreinsa göturnar þarna strax á eftir svo börnin gætu komið til baka. Eða svo var sagt, að það þyrfti að koma börnunum sem fyrst til baka,“ segir Dagbjört.

Dýrmætar eigur glötuðust

„Ég man eftir því þegar hreinsunarstarfið var í gangi. Þá horfði ég á eina gröfuna í einhverjum doða taka upp gullfallega kommóðu frá systur minni og hún datt úr tönninni og brotnaði. Út vellur alls kyns dót, myndaalbúm, bækur og annað. Svo var þessu öllu skóflað út á Langeyri sem er iðnaðarhverfi nærri Súðavík,“ segir Dagbjört.

„Þar varð eins konar ísfjall með dóti. Þar voru föt, mublur og annað í bland við húsveggi og snjó. Ég fór þangað upp eftir reglulega til að skanna hauginn og reyna að finna eitthvað persónulegt eftir því sem bráðnaði úr haugnum. Svo þegar líður að páskum þá koma þau Hafsteinn og Linda í heimsókn. Ég hafði ekki farið inneftir í nokkra daga en sólin skein og meira var að koma í ljós. Þá fundum við jólakjólinn hennar Hrefnu sem hún hafði einmitt verið í jólin á undan. Svo fann Linda líka box og í því voru skírnarföt krakkanna. Þegar þau Hafsteinn stóðu þarna magnþrota og tilfinninganæm, þá keyrði einmitt fram hjá rúta sem var full af ferðamönnum. Rútan var þarna um stund og ferðamennirnir virtu þau fyrir sér og svo var keyrt í burtu. Það fannst þeim erfitt og niðurlægjandi. Þau töluðu við sveitastjórann og gerðu kröfu um að sett yrði upp skilti þar sem óviðkomandi væri bannaður aðgangur. Því var neitað,“ segir Dagbjört.

Úr varð að einhver myndaalbúm fundust en megnið týndist. „Allt varð svo dýrmætt sem fannst,“ segir Dagbjört.

Fátt er þó með öllu illt að sögn Dagbjartar og þegar snjóflóð féll á Flateyri níu mánuðum síðar voru önnur vinnubrögð viðhöfð. Þá var eigum fólks safnað saman eftir því sem þær fundust.

Höf.: Viðar Guðjónsson