Framtíðarsýn Hönnunarsjóðs hefur nú litið dagsins ljós þar sem lagt er til að sjóðurinn verði stækkaður verulega. Segir í tilkynningu að með því að stækka og efla Hönnunarsjóð veiti stjórnvöld kröftugri grasrót og fyrirtækjum mikilvægt súrefni, og um leið tækifæri til að vaxa og eflast hraðar. „Hönnunarsjóður getur orðið lykilverkfæri íslenskra stjórnvalda til að ná fram jákvæðum samfélagsbreytingum til framtíðar.“ Segir þar jafnframt að stækkun sjóðsins hefði í för með sér aukna verðmætasköpun og aukin lífsgæði. Við mótun nýrrar framtíðarsýnar Hönnunarsjóðs lét stjórn sjóðsins gera könnun meðal hönnuða, arkitekta og fyrirtækja sem tengjast fjölbreyttum hönnunargreinum um viðhorf til sjóðsins og árangur af starfi hans.
Þá er einnig haft eftir Guðrúnu Ingu Ingólfsdóttur, formanni stjórnar Hönnunarsjóðs, að kostir hönnunar og aðferðafræðin sem í henni felist séu fjársjóður sem atvinnulífið eigi eftir að uppgötva til fulls: „Hönnun er eitt öflugasta verkfærið sem við höfum til þess að tengja saman sköpunarkraft, tækni og vísindi í þágu fólks og umhverfis. Með því að nýta aðferðir hönnunar geta stjórnvöld og atvinnulíf aukið gæði, bætt heilsu og mannlíf, skapað áhugaverð störf og hraðað verðmætasköpun á ólíkum sviðum. Hönnunarsjóður hefur sannað á undanförnum árum að hann getur verið megintæki á þeirri vegferð fái hann til þess aukinn styrk.“
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs hafði umsjón með verkefninu í samstarfi við stjórn Hönnunarsjóðs og menningar- og viðskiptaráðuneytið.