Það þarf að höggva á umferðarhnútana

Það hefur löngum verið einn af kostum þess að búa í Reykjavík að það er fljótlegt að komast milli staða. Það hefur hins vegar verið sérstakt kappsmál meirihlutans í höfuðborginni undanfarin kjörtímabil að bregðast ekki við vaxandi íbúafjölda með því að auðvelda samgöngur og losa um hnúta og teppur.

Frekar hefur verið bætt í, akreinum fækkað og gripið til ráðstafana til að þyngja umferðina.

Í Morgunblaðinu á þriðjudag kom fram að tafir færu vaxandi í Reykjavík. Þórarinn Hjaltason samgönguverkfræðingur greindi í aðsendri grein frá því að samkvæmt tölum frá fyrirtæki, sem nefnist TomTom, væri höfuðborgarsvæðið það svæði á Norðurlöndum þar sem umferðartafir væru næstmestar. Aðeins í Helsinki væri ástandið verra.

Þar er notast við svokallaðan tafastuðul, sem segir til um hve miklu lengri tíma það tekur hlutfallslega að komast milli staða á háumferðartíma og þegar umferð er engin. Stuðullinn hækkaði úr 19% árið 2023 í 22% í fyrra.

Það kemur ekki á óvart að tafir skuli fara vaxandi. Ráðgjafarfyrirtækið Land-Ráð rannsakaði ferðavenjur um árabil. Í athugun sem fyrirtækið vann fyrir Vegagerðina 2018 var niðurstaðan sú að ferðatími á höfuðborgarsvæðinu hefði vaxið um næstum helming milli áranna 2007 og 2018.

Tafirnar af því að sitja fastur í umferð eru fljótar að safnast upp. Það vegur fljótt upp á móti styttingu vinnuvikunnar þegar tafir í umferðinni kosta heila vinnuviku á ári.

En tafirnar eru ekki aðeins bagalegar fyrir almenning, þær eru rándýrar fyrir samfélagið svo nemur tugum milljarða króna á ári.

Þetta er ekki verjandi. Það er kominn tími til að horfast í augu við að einu gildir til hvaða ráðstafana verður gripið í almenningssamgöngum, bílum er ekki að fara að fækka á götunum. Það þarf að höggva á umferðarhnútana.