Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Við fjölskyldan erum alveg á mörkum þess að hafa þurft að rýma, en við búum hérna í Woodland Hills sem er alveg við eldsvæðið norðan megin,“ segir Agla Friðjónsdóttir sem býr ásamt eiginmanni sínum í Los Angeles með tveimur börnum, eins árs og fjögurra ára gömlum. „Ef þú horfir á kort af eldsvæðunum í Los Angeles, þá erum við norðan megin og gatan okkar er alveg rétt við rýmingarsvæðið,“ segir hún og bætir við að ef vindátt breytist gæti þurft að rýma allt hennar hverfi.
„Við erum búin að vera með öndina í hálsinum og höfum varla sofið í marga daga út af ástandinu,“ segir Agla, sem er formaður Íslendingafélagsins í Los Angeles og segir að þetta sé versta ástand sem sést hefur í borginni. „Við höfum fengið skilaboð tvisvar sinnum um að vera tilbúin til að rýma, svo þetta er skelfilegt ástand.“
Hún segir að börnin skynji sterkt að það sé hættuástand yfirvofandi. „Þau hafa bæði haldið mjög fast í mig og viljað vera í fanginu á mér.“
Veit ekki af tjóni Íslendinga
Agla segist ekki vita til þess að Íslendingar hafi lent í tjóni út af eldunum. „Ég þori ekki að fullyrða það, en ég hef ekki fengið nein skilaboð þess efnis og vona að ég fái þau ekki. En það er svo magnað að þrátt fyrir að Los Angeles sé rosalega stór borg, þar sem yfir tíu milljónir manna búa, þá þekkja allir einhverja sem hafa misst húsin sín. Þetta er það mikill skaði og svo ofboðslega víðtækt,“ segir hún.
Stóðu uppi án heimilis
„Við vorum hjá barnalækni með börnin okkar á þriðjudaginn þegar þessir vindar voru að byrja, en læknirinn er góð vinkona okkar. Við fórum kl. 9.30 um morguninn til hennar og hún skoðar dóttur mína og við vitum að hún býr í Palisades-hverfi borgarinnar. Þegar við komum heim frá lækninum sé ég að eldar eru komnir í Palisades. Svo ég sendi henni strax skilaboð um fréttirnar.“
Agla segir að læknirinn hafi sent þeim þau skilaboð að rétt eftir að hún kvaddi þau hafi hún fengið skilaboð um að rjúka heim. „Hún rétt náði einhverjum kössum út í bíl áður en skilaboð bárust um að það yrði að rýma svæðið strax. Foreldrar hennar, sem búa líka í Palisades, fengu sömu skilaboð.“
Agla segist ekki vita hvort það var um kvöldið eða morguninn að staðan skýrðist, því að það hafi orðið miklar sprengingar í eldinum í hverfinu, en bæði læknirinn og foreldrarnir misstu allt sitt. „Þau stóðu uppi án heimilis á miðvikudeginum.“
Agla segir að mjög margir sem hafi misst húsnæði sitt hafi leitað á náðir vina og vandamanna, en einnig séu hjálparstöðvar víðs vegar um borgina sem fólk getur leitað til sem hefur lent í þeirri ógæfu að missa aleiguna í eldunum og á ekki í önnur hús að venda.
„En mér finnst mjög fallegt hvað það er mikill samhugur í borginni og hvað bæði fyrirtæki og almennir borgarar hafa staðið þétt saman til að reyna að hjálpa sem mest. Til dæmis ákvað Airbnb að gefa öllum sem höfðu þurft að rýma húsnæði sitt, eða misst það í eldunum, fría gistingu. Nokkrar vinkonur mínar hafa þurft að nýta sér það.“
Hverju á ég að bjarga?
Þar sem Agla og fjölskylda hennar gætu þurft að rýma húsið sitt eru þau þegar búin að pakka niður. „Það var rosalega skrýtin upplifun að fara yfir húsið sitt og hugsa: Hverju á ég að bjarga? En á sama tíma er eins og að við svona aðstæður skýrist það sem raunverulega skiptir máli í þessu lífi, sem eru auðvitað börnin og fólkið manns. Við höfum bara pakkað niður fæðingarvottorðum og vegabréfum, og svo tók ég giftingarhring ömmu minnar, en mest voru það minningar, eins og barnaalbúm.“
Það sem Agla pakkaði niður af eigum sínum fór í nokkrar töskur, en hún starfaði sem forstöðumaður rekstrar hjá tveimur tískufyrirtækjum og á því nokkrar sjaldgæfar töskur sem ekki eru framleiddar lengur. „Það var það eina sem ég greip fyrir mig, og síðan tölvuna þar sem eru öll gögnin okkar og dagbókin. Ég hugsaði bara með mér að ég gæti alltaf keypt ný föt og ný húsgögn, en minningarnar eru það sem skiptir máli.“
Nýtt viðhorf
Agla segir að hún og vinkonur hennar í borginni séu staðráðnar í því að þegar þessum ósköpum linni muni þær minnka við sig allt dót og einfalda lífsstílinn. „Maður lærir á því að upplifa svona ástand að meta það sem virkilega skiptir máli og við ætlum að einbeita okkur að samskiptum við okkar fólk og leggja minni áherslu á alla þessa umgjörð, sem þegar allt kemur til alls er ekki mikilvæg.“
Hún bætir við að það sé líka ljóst að ástandið í borginni sé ekki að lagast. „Eins og fræðimenn vita eru þessar náttúruhamfarir ekki að ganga til baka og fara frekar versnandi.“ Hún bendir á að síðasta vetur hafi verið ofboðslega miklar rigningar í borginni, margfalt meiri en í venjulegu árferði, sem hafi orsakað mikinn gróðurvöxt. Síðan hafi í vetur verið endalausir þurrkar og öfgarnar í veðurfari séu bara að aukast. „Það er ömurlegt að umræða um eldana hafi farið í pólitískar skotgrafir, sem er hræðilegt þegar fólk stendur frammi fyrir því að missa aleigu sína.“
Borgin ekki söm
„Mörg svæði hérna í Palisades sem við höfum farið reglulega á með börnin okkar eru búin að þurrkast út. Leikvellir og falleg útisvæði og svona útiverslunarmiðstöð sem við heimsóttum reglulega eru öll eyðilögð.“ Stór svæði eru brunnin upp til agna og einnig liggja víða tré sem hafa fallið í vindinum eins og hráviði á götunum.
„Pabbi var hjá okkur fyrr í mánuðinum og fór út til að fá sér frískt loft og þurfti að stökkva inn, því hann varð næstum því undir tré sem var að falla,“ segir hún og bætir við að það hafi því verið erfitt fyrir föður hennar að fara 8. janúar þegar allt var rafmagnslaust í hverfinu.
Agla segir að eldvarnarstarfið hafi þó gengið betur en á horfðist, og búið sé að slökkva nokkra elda en enn séu tveir eldar virkir, sem þó hafi tekist að halda í skefjum. „Spáin er þannig að ef við komumst í gegnum næstu tvær nætur, þá er spáð að vindarnir minnki, svo að þá erum við vonandi að komast yfir þetta.“