Hneyksli Myndband Sabrinu Carpenter olli fjaðrafoki innan kaþólsku kirkjunnar.
Hneyksli Myndband Sabrinu Carpenter olli fjaðrafoki innan kaþólsku kirkjunnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árið 2024 var fullt af ótrúlegum og skrítnum uppákomum sem gripu athygli landsmanna. Fréttir af tvíförum, tilraunum til að öðlast eilífa æsku og óvæntum uppákomum voru á meðal þess sem fékk fólk til að staldra við

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Árið 2024 var fullt af ótrúlegum og skrítnum uppákomum sem gripu athygli landsmanna. Fréttir af tvíförum, tilraunum til að öðlast eilífa æsku og óvæntum uppákomum voru á meðal þess sem fékk fólk til að staldra við. Hér eru nokkrar af þeim furðulegustu:

Tvífari Herra Hnetusmjörs fannst

Hlölli, íslenskur maður sem þykir sláandi líkur Herra Hnetusmjöri, vakti gríðarlega athygli á liðnu ári eftir að hann spjallaði við stjórnendur Ísland vaknar á K100. Hann er kallaður „Herra Möndlusmjör“ af vinnufélögum sínum.

Temu-lampinn sem var ætur

Umdeildi kínverski netverslunarrisinn Temu vakti mikla athygli á liðnu ári og rataði oft í fréttamiðla auk þess sem fáir fengu frið frá auglýsingum verslunarinnar á samfélagsmiðlum. Croissant-lampi sem ung áströlsk kona fékk frá Temu er eitt af því sem gerði allt vitlaust á internetinu eftir að upp komst að hann var úr alvöru brauði sem hafði verið húðað með plastefni. Málið flæktist þó enn meira þegar upp komst að um var að ræða stolna hönnun – nokkuð sem Temu er því miður þekkt fyrir.

Dularfulla stjarnan fannst eftir fimm ára leit

Margra ára gömul internetráðgáta, upprunnin á samfélagsmiðlinum Reddit, leystist loks á árinu, Um er ræða leitina að óþekktri stjörnu sem kölluð er „Stjarna númer sex“.

Stjarnan, sem vakti heimsathygli fyrir að birtast sem óþekkt andlit á gardínuefni, reyndist vera spænska fyrirsætan Leticia Sarda. Með hjálp netverja tókst að rekja útlínur hennar til ljósmyndar frá 2006. Leticia, sem hætti fyrirsætustörfum árið 2009, sagðist vera bæði upp með sér og dálítið áhyggjufull yfir óvæntri athyglinni.

Klámsíðan sem varð fréttasíða

Á árinu vakti athygli grein um Reddit-þráðinn r/anime_titties, sem margir gera ráð fyrir að sé fullur af japönskum teiknimyndabrjóstum. Það kemur því mörgum á óvart þegar vefsíðan er skoðuð að hún er yfirfull af nýjustu heimsfréttunum og er mjög virk í þeim efnum en saga síðunnar var rakin á K100.is.

Óvenjulegi nafnaþráðurinn

Íslendingar virðast ekki geta átt svokallað ryksuguvélmenni án þess að gefa því nafn og virðast fyllast gríðarlegum innblæstri þegar kemur að nafngjöfinni og innblásturinn kemur úr öllum áttum, meðal annars frá samfélagsmiðlastjörnum og öðru frægu fólki, t.d. meðlimum IceGuys. Ryksuguvélmenni hér á landi bera nöfn eins og Rúryk og Þrifryk Dór, Sogrún Diego, Zuckerberg og Sogi Bergmann. Þá vöktu nöfnin Dustin Timberlake og nafni hans Dustin Bieber einnig athygli. Upp kom sú hugmynd að gefa út nafnabók fyrir vélmennin.

Vill verða 18 ára aftur

Auðkýfingur sem eyðir milljónum í tilraunir til að snúa við öldrunarferlinu vakti athygli á árinu en hann notar peningana sína og líkama sinn í leit sinni að lengra lífi. Þrátt fyrir að vera á fimmtugsaldri miðar verkefnið, sem hann kallar Project Baby Face, að því að líta út eins og 18 ára.

Prestur sviptur embætti vegna tónlistarmyndbands

Tónlistarmyndband Sabrinu Carpenter söngkonu kostaði prest nokkurn embættið á árinu. Hann veitti henni leyfi til að taka upp tónlistarmyndbandið í einni af kirkjum safnaðar síns sem vakti hneykslun innan biskupsdæmisins í Brooklyn. Myndbandið var talið nokkuð ögrandi en þar má sjá Carpenter aka í bleikum líkbíl fyrir utan kirkjuna og dansa fyrir framan altarið í stuttu pilsi, blæju og umkringda líkkistum.

Fullkomið vopn gegn svikahröppum

Gervigreindin kom sterk inn á síðasta ári en breska símfyrirtækinu Virgin Media O2 datt það snjallræði í hug að nýta sér tæknina til að eyða tíma svikahrappa. Fyrirtækið kynnti til sögunnar gervigreindarömmuna Daisy sem er sérhæfð í að tala við svikahrappa og eyða tíma þeirra, svo að almenningur þurfi ekki að gera það. Hún eyðir tíma svikaranna meðal annars með því að tala um kettina sína og barnabörnin og er auk þess með afar takmarkaða tæknikunnáttu.

Barn fæddist á bílastæði við brugghús

Lítill drengur að nafni Forrest Wells Baker fæddist óvænt á bílastæði við brugghús í Michigan. Staðurinn heiðraði hann með sérstökum bjór sem bar nafn hans.

Húðflúraðasta kona heims

Á árinu var formlega staðfest að Esperance Lumineska Fuerzina er sú kona sem er með flest húðflúr og líkamsskreytingar í sögunni. Nánast hver einasti partur, eða nánar tiltekið 99,98%, af líkama hennar er þakinn húðflúrum, auk 89 líkamsskreytinga.

Höf.: Rósa Margrét Tryggvadóttir