Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur ákveðið að skoða búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi í víðu samhengi og stendur sú vinna yfir.
Í skriflegu svari við fyrirspurn Morgunblaðsins kemur fram að þetta hafi verið ákveðið þar sem fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi dróst mikið saman í fyrra frá því sem var árin 2022 og 2023.
Þörfin fyrir einingahús sem búsetuúrræði fyrir umsækjendur hafi jafnframt farið minnkandi, segir í svari ráðuneytisins.
Tilefni fyrirspurnarinnar var að hinn 12. apríl 2023 sendi ráðuneytið fyrir hönd Guðmundar Inga Guðbrandssonar þáverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra bréf til Reykjavíkurborgar þar sem óskað var eftir samstarfi um að reisa svokallaða skjólgarða (einingabyggðir) fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd líkt og önnur ríki Evrópu hafa gert.
Gert var ráð fyrir að hver skjólgarður myndi rúma allt að 250 umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í hverjum skjólgarði áttu að vera 80-85 búsetueiningar á einni eða tveimur hæðum.
Borgarráð samþykkti í maí sama ár tillögu Dags B. Eggertssonar þávarandi borgarstjóra um að teknar yrðu upp viðræður við ráðuneytið um óskir þess efnis að fundnar verði heppilegar staðsetningar í borginni. Sú vinna var sett af stað en samkvæmt upplýsingum frá borginni sett í bið þegar aðstæðurnar breyttust.
Í greinargerð með tillögu borgarstjóra til borgarráðs kom fram að áform um skjólgarðana væru tilkomin vegna aukins fjölda flóttafólks frá Úkraínu og öðrum ríkjum.
Kostnaður er óljós
Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir átti að sjá um að óska eftir tilboðum í einingarnar sjálfar. Þar sem engar staðsetningur lágu fyrir í borginni var sú vinna einnig sett í bið. Því liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um það hver kostnaður ríkissjóðs yrði af því að setja upp skjólgarða sem athvarf fyrir hælisleitendur.
Í bréfi ráðuneytisins til borgarstjóra sagði að um tímabundin úrræði væri að ræða í allt að fjögur ár á meðan aðrir möguleikar til búsetu flóttafólks væru takmarkaðir.
Þar sem dregið hefur úr fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd hafa áformin um skjólgarða því verið sett í biðstöðu.