Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Vonandi koma þeir að borðinu með eitthvað sem hægt er að nota. Við erum búin að standa í þessu samtali í 14 mánuði,“ segir Bjarni Ingimarsson, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS).
Hvorki hefur gengið né rekið í kjaraviðræðum félagsins við sveitarfélögin og ríkið. Fundur hefur verið boðaður í deilunni í næstu viku hjá ríkissáttasemjara.
Kjararáð LSS samþykkti á þriðjudag að hefja undirbúning verkfalls. Bjarni kveðst binda vonir við að kosið verði um verkfallsboðun um helgina og verði það samþykkt mun verkfallið hefjast 10. febrúar næstkomandi. Félagsfundur verður hjá LSS í dag þar sem kjaramál verða til umræðu.
Bjarni segir að slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn séu skynsöm stétt og því muni mögulegt verkfall ekki bitna á mikilvægustu verkefnum félagsmanna. „En verkfall myndi vissulega hafa áhrif. Það gerði það klárlega árið 2010 þegar við fórum í verkfall,“ segir hann. Meðal þeirra verkefna sem verkfall myndi bitna á eru ýmsir flutningar milli sjúkrastofnana og vatnslekar og önnur minni háttar verkefni hjá slökkviliði. Yfirvinnu yrði ekki sinnt nema sem þarf til að manna vaktir og ekki yrði hægt að boða menn sem ekki eru á vakt eða bakvakt.
„Slökkviliðin eru rekin á boðun manna og við erum með boðtæki svo hægt sé að ná í okkur. Við munum skila þeim boðtækjum inn.“