Egill Aaron Ægisson
egillaaron@mbl.is
Þorsteinn Þorsteinsson, formaður björgunarsveitarinnar Heiðars á Varmalandi í Borgarfirði, segist aldrei hafa lent í öðru eins útkalli og í fyrrinótt þegar bjarga þurfti ferðamönnum sem voru á toppi bíls sem var á bólakafi við Kattarhrygg við hringveginn. Þorsteinn synti í gegnum ísvatnið með björgunarlínu til mannanna svo að hægt yrði að draga þá á land. Stífla í ræsi undir veginum varð til þess að vatn flæddi yfir hann á stórum kafla.
„Ég hef aldrei lent í svona og við vorum í raun og veru ekki búnir að búa okkur undir þetta þegar við komum fram á heiði. Við vorum búnir að sjá þetta þannig fyrir okkur að við gætum bara keyrt að bílnum og sótt mennina. En að bíllinn skyldi vera svona langt fyrir utan veg og á bólakafi – því óraði okkur ekki fyrir,“ segir Þorsteinn.
Ferðamennirnir voru að nálgast Holtavörðuheiði úr suðri þegar atvikið varð, ekki langt frá Fornahvammi.
Segir Þorsteinn að liðsmenn björgunarsveitarinnar hafi þurft að hugsa hratt og vera fljótir að ganga til verka þegar þeir sáu að engin leið var fyrir björgunarsveitarbílinn að komast upp að mönnunum. Aðeins sást í hálfan bíltoppinn og skottlokið á bílnum þegar þá bar að garði.
Því var ákveðið að snúa björgunarsveitarbílnum við þannig að hægt væri að lýsa yfir vatnið og á mennina og kom fátt annað til greina en að synda yfir til þeirra með björgunarlínu, en að sögn Þorsteins voru mennirnir syndir en þorðu þó ekki út í vatnið.
Þorsteinn hnýtti í sig línu og synti til mannanna í köldu vatninu. Því næst tóku ferðamennirnir við línunni og settu lykkjurnar hvor á sína hönd. „Síðan var bara togað fulla ferð til baka. Þeim var eiginlega kippt út í og dregnir fulla ferð í land þar sem sjúkraflutningafólkið tók á móti þeim.“ Mönnunum varð ekki meint af volkinu.