Áslaug Kristinsdóttir fæddist í Reykjavík 23. febrúar 1955. Hún lést á Landakotsspítala 5. janúar 2025.
Hún var dóttir Kristins Tómassonar frá Vallnatúni, f. 11. maí 1920, d. 14. ágúst 2016, og Hólmfríðar Kristínar Jensdóttur frá Bíldudal, f. 9. febrúar 1919, d. 18. október 2016.
Bræður Áslaugar eru Jens, f. 8. maí 1946, og Tómas, f. 28. nóvember 1950.
Árið 1979 giftist Áslaug Guðmundi Guðbjörnssyni, f. 24. júní 1949, d. 4. desember 2018, þau skildu árið 1983. Þeirra dóttir er Hrund, f. 20. desember 1979, maki Ólafur Erlingur Ólafson, f. 23. ágúst 1977. Börn Hrundar eru Fura Barkardóttir, f. 4. desember 2005, og Ösp Barkardóttir, f. 2. desember 2011.
Árið 1986 hóf Áslaug sambúð með Jóni Baldurssyni, f. 24. febrúar 1955, d. 22. júlí 2009, þau slitu samvistum árið 2004. Þeirra synir eru Baldur, f. 7. júlí 1988, og Freyr, f. 18. apríl 1991. Árið 2007 hóf Áslaug samband með Bjarna Guðmundssyni, f. 26. nóvember 1945, þau voru í fjarbúð til ársins 2020.
Áslaug ólst upp í Laugarneshverfinu en var mikið á Skógum undir Eyjafjöllum hjá afa sínum og ömmu og föðursystkinum sínum þar sem hún naut sín best.
Áslaug stundaði nám við Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Skógaskóla. Síðar stundaði hún nám í Póst- og símaskólanum og svo Myndlistaskóla Mosfellsbæjar. Áslaug starfaði lengst af hjá Pósti og síma og svo sem matráður o.fl. í Breiðagerðisskóla.
Útför Áslaugar fer fram í kirkju Óháða safnaðarins í dag, 16. janúar 2025, klukkan 15. Að ósk Áslaugar eru kirkjugestir beðnir að vera í ljósum eða hvítum fötum.
Elsku Ása …
Svona byrjuðu alltaf bréfin mín til þín þegar ég fór fyrst að heiman fyrir um 50 árum. Þú varst alltaf fljót að svara með löngum og skemmtilegum bréfum. Tímarnir hafa breyst mikið síðan þá og gátum við bara hringt þegar okkur lysti og gerðum það oft. Síðastliðið tæpt ár höfum við verið að rifja upp gamlar minningar því báðar vissum við að tíminn væri stuttur.
Líkt og mömmur okkar, þá var bara eitt ár á milli okkar og vorum við alla tíð bestu vinir eins og þær voru. Við vorum því ávallt samferða frá barnæsku til fullorðinsára.
Við minntumst Hofteigsins og ömmu og hvað við áttum oft til að ergja hana. Stundum kom okkur illa saman og þá var ég send upp til ömmu, en það leið ekki langur tími þar til við náðum sáttum. Oftar en ekki var föndrað með mömmu þinni sem var svo listræn, enda erfðir þú þitt listfengi frá henni.
Þegar þú byrjaðir í barnaskóla fékk ég nokkrum sinnum að fara með og sitja inni í bekknum með þér. Ferðirnar austur að Skógum voru ógleymanlegar og var ljóst hvað þér leið vel hjá þínu góða fólki þar.
Eitt sinn fórum við saman á tónleika með Led Zeppelin í Laugardalshöll þegar við vorum 14 og 15 ára og má segja að unglingaveikin hafi kviknað á þeirri stundu. Þetta voru svo skemmtilegir tímar sem höfðu í för með sér mikla tónlistarbyltingu, en okkar uppáhaldstónlistarmaður var hann Elton John. Við fengum mikinn áhuga á öllu dularfullu og lásum bækur um líf eftir dauðann, fórum á miðilsfundi en vorum engu nær um hvað beið fyrir handan. Nú ert þú búin að leysa þá gátu.
Við rifjuðum einnig upp tíma á pósthúsinu á Hlemmi þar sem við unnum saman um tíma og kynntumst mörgu skemmtilegu fólki. Við, eins og 90% kvenna á Íslandi, lögðum niður störf og gengum saman niður á Lækjartorg á Kvennafrídaginn 1975. Svo tók alvaran við, ég flutti alfarið til New York, við eignuðumst okkar börn og heimili en alltaf glaðar að hittast þegar ég kom heim til Íslands.
Fyrir tveimur árum ákváðum við að byrja að fara í árlegar frænkuferðir um landið. Svo haustið 2023, í yndislegu veðri, fórum við í okkar fyrstu dagsferð. Við keyrðum vestur, heimsóttum Snæfellsnesið og lá svo för okkar í sveitina hennar ömmu í Grundarfirði. Loks fengum við okkur kvöldmat í Borgarnesi og snerum svo aftur í bæinn.
Við ákváðum að í næstu ferð yrði förinni heitið á Bíldudal.
Ekki datt okkur í hug að þessi ferð yrði okkar eina og síðasta. Við sem áttum að verða gamlar saman og eiga góðar stundir í frænkuferðum okkar um kunnuglegar slóðir. Í dag kveð ég þig með trega og þakka þér góða samveru.
I hope you don't mind
that I put down in words,
how wonderful life is
while you're in the world.
(Bernie Taupin)
Þín
Guðrún Ásta.
Kærleikur er orðið sem kemur fyrst upp í hugann er ég kveð kæra vinkonu og frænku, Áslaugu Kristinsdóttur.
Við kynntumst í Héraðsskólanum í Skógum undir Eyjafjöllum haustið 1971. Hún var traust og hafði hlýja nærveru. Á skólagöngunni naut Áslaug þeirra forréttinda að dvelja á menningarheimili hjá yndislegum föðursystkinum, Guðrúnu og Þórði í Skógum. Hún minntist þessa tíma með þakklæti og gleði. Eftir námsdvölina hélst vinátta okkar áfram. Við vorum líka frænkur, ættaðar undan Eyjafjöllum. Við höfðum oft orð á því og vorum stoltar af.
Áslaug var víðlesin og hafði gaman af fallegri list. Hún sótti myndlistarnámskeið. Þar naut hún sín vel og bera fallegar myndir hennar þess merki.
Áslaug bjó vel að sínu og hafði gaman af að gleðja aðra. Hún steypti kerti, var það fastur liður í jólaundirbúningnum. Kertin voru unnin af kostgæfni, vel mótuð og í mörgum litum. Ég hef notið þess í mörg ár að kveikja á fallegum kertum frá elsku frænku minni á jólum – hún kom til mín færandi hendi á Þorláksmessu. Það var ætíð fastur punktur í jólahaldi á heimili mínu og var haft á orði hvað kertin lýstu vel. Ég er þakklát fyrir okkar góðu samverustundir. Efst í minni er yndisleg ferð okkar Áslaugar austur að Skógum til Gunnu frænku, í júní á liðnu sumri. Þar naut hún sín vel þótt veikindin hefðu gert vart við sig. Hún var á heimaslóðum og sveitin skartaði sínu fegursta.
Ég þakka kærri frænku minni fyrir áralanga tryggð og vináttu sem lýsir, eins og fallegu kertin hennar, um ókomin ár.
Megi Guð blessa fallega minningu Áslaugar og styrkja börnin hennar og barnabörnin sem hún var svo stolt af.
Þóra Sigurðardóttir.
Áslaugu vinkonu minni kynntist ég árið 2005, árið sem við urðum fimmtugar. Það kom fljótlega í ljós að margt tengdi okkur og vorum við smám saman að komast að því á meðan vinátta okkar varð dýpri. Við erum báðar náttúrubörn og viljum helst hvergi vera nema úti í náttúrunni. Ættarhús Áslaugar er í Flatey og dvöldum við þar nokkur skipti, í fyrsta sinn hið fræga ár 2007 og allt í blússandi uppsiglingu. Þá var þar haldið brúðkaup í eyjunni með þyrlum og „tilbehör“ í anda tímans og einnig var verið að kvikmynda Brúðkaupið, þá góðu kvikmynd. Veðrið dásamlegt og áttum við guðdómlegar stundir á eyjunni fögru, Flatey. Við vorum báðar mjög hrifnar af Englandi, ég tala nú ekki um London eða Ítalíu, mamma mia! Við drifum okkur til Cornwall og London í ágúst 2022.
Þetta var rétt eftir að opnað var aftur eftir covid og allir á ferðinni. Áslaug var arfaslök og sagði „við pöntum svefnstað jafnóðum“, það kom okkur reyndar í bobba einu sinni þegar við fundum enga gistingu. Í lestinni var frú á okkar aldri sem átti ekki orð yfir okkur og „þú bara prjónar“, sagði hún við mig og fór á fullt að finna fyrir okkur svefnstað. Við enduðum í fallegum bæ í góðu herbergi með útsýni yfir hafið. Það var hátíð í bænum og allt fullt af ungu fólki sem við vorum sælar með. Annan dag fórum við í ferð um Cornwall og ætluðum að taka strætó á gististaðinn en enginn strætó kom og það endaði með því að ungur maður skutlaði okkur á gististaðinn fyrir 100 pund, ég hef sjaldan verið jafn glöð með að borga eitthvað eins og þá. Ég vildi hafa herbergi fyrstu nóttina en þá dvöldum við í litlum kofa sem Áslaug pantaði fyrir okkur hjá gömlum hippum á eyjunni Isle Of Wight. Einnig var pantað hótel þær nætur sem við vorum í London í lok ferðar, ég vildi hafa vaðið fyrir neðan mig.
Áslaug var dugleg að heimsækja mig á Eyrarbakka en þann stað elskaði hún og var helst á því að kaupa hús á Bakkanum. Við fundum eitt lítið og sætt sem átti að heita Ásukot en þegar til kom vildu eigendurnir ekki selja húsið. Áslaug elskaði einnig Skóga en þar hafði ég kennt einn vetur í framhaldsskólanum skömmu fyrir aldamótin. Ég kynntist þar öndvegisfólkinu, föðursystkinum Áslaugar, Gunnu frænku og Þórði frænda, Guðrúnu Tómasdóttur og Þórði Tómassyni, þeim sem varðveitti gamla sögu sem nú er sýnileg á Skógasafni. Seinna segir Áslaug mér að hún ætli að passa fyrir Hrund dóttur sína og Börk barnsföður hennar þar sem afi Barkar liggi fyrir dauðanum. Nú, segi ég, hvað heitir hann og kemur þá í ljós að Pétur og Birna, afi og amma Barkar, voru bestu vinir mömmu og pabba og komumst við að þessu eftir að hafa þekkst í nokkur ár. Áttu hvor tveggja hjónin bústað við Álftavatn í Grímsnesi. Í ár verðum við sjötugar og þá stóð til að Áslaug héldi veislu og ætlaði að bjóða meðal annars upp á gin í mörgum útgáfum vegna þess að henni höfðu verið færðar nokkrar ginflöskur í gegnum tíðina og þarna sá hún færi á losa sig við eitthvað af guðaveigunum.
Áslaug var öndvegis vinur, trygg, skemmtileg og vel af guði gerð, vitur og listræn. Hún var ekki allra en þeir sem hún tók inn nutu þess vel. Hún elskaði ekkert meira en fjölskyldu sína og um leið og ég sendi ástvinum Áslaugar mínar innilegustu samúðarkveðjur minnist ég vinkonu minnar með ást og kærleika. Mikið á ég eftir að sakna þín, mín kæra.
Rósa Marta Guðnadóttir.