Karl Gústaf Smith fæddist í Reykjavík 2. september 1942. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 27. desember 2024.
Hann var frumburður hjónanna Gunnars Smith verslunarmanns, f. 15.10. 1908, d. 2.9. 1980, og Soffíu Aðalheiðar Smith húsfreyju, f. 23.10. 1919, d. 9.4. 1994. Karl var elstur fjögurra bræðra, hinir eru Örn, f. 1943, Gunnar, f. 1946, d. 2012, og Hilmar, f. 1954.
Karl kvæntist Margréti Fanneyju Guðmundsdóttur, f. 1941, d. 1. mars 2024, þann 5. desember 1964. Þau eignuðust tvær dætur, Auði, f. 25.2. 1966, og Soffíu Björk, f. 11.4. 1970. Eiginmaður Auðar er Jóhann Arnarson, f. 1965, frá Bolungarvík og börnin þeirra eru: a) Oktavía, f. 1993, maki hennar er Víðir Örn Guðmundsson, f. 1990. Börn þeirra eru Anika, f. 2020, og Ernir, f. 2022. b) Karólína, f. 1995, maki Michael Pearson, f. 1996. c) Arnaldur, f. 2007.
Soffía Björk á soninn Salvar Karl, f. 2007.
Karl Gústaf, eða Kalli eins og hann var ætíð kallaður, ólst upp í Reykjavík. Lengi framan af bjó fjölskyldan í miðbæ Reykjavíkur; á Hólavallagötu, Skólavörðustíg og Mímisvegi og var Skólavörðuholtið honum ávallt hugleikið. Móðuramma hans, Soffía Sigurðardóttir f. 1890, byggði þar Skólavörðustíg 44a og voru þau Kalli nánast óaðskiljanleg alla tíð.
Á unglingsárum hóf hann störf sem sendill í Landsbankanum við Austurstræti og fór það svo að hann starfaði þar og síðar í Seðlabanka Íslands alla sína tíð eða í rúm 50 ár.
Hann var bílstjóri bankastjóra Seðlabankans, en segja má að starfslýsing hans hefði getað hljóðað upp á þjónustu jafnt að degi sem nóttu auk umsýslu heimsókna erlendra bankastjóra og embættismanna og oft ferðalaga vítt og breitt um landið. Utanumhald farkosta bankans var á hans ábyrgð og eftirlit með sumarhúsum starfsmannafélagsins.
Þau Kalli og Gréta héldu heimili ásamt tveimur dætrum sínum, lengst af í Vesturbæ Reykjavíkur. Hann var mjög listhneigður; klassísk tónlist var honum einkar hugleikin og myndlist gömlu meistaranna ekki síður. Hann tileinkaði sér einstaka sjálflærða teikni- og málaralist, sem liggur eftir hann í ómetanlegum teikningum og málverkum, sem prýða veggi stórfjölskyldunnar og margra annarra.
Síðustu árin urðu Kalla erfið þar sem heilsubrestur Grétu vegna parkinsonsjúkdómsins jókst jafnt og þétt. Hann greindist með illvígt mein veturinn 2021 og um sama leyti lagðist Gréta inn á hjúkrunardeild Sunnuhlíðar og kom ekki heim í Vogatunguna aftur. Hún lést þann 1. mars 2024. Eftir fráfall Grétu tók meinið sig upp á ný og hann kvaddi sáttur við Guð og menn að morgni 27. desember 2024.
Útför Karls fer fram frá St. Jósefskirkju í Hafnarfirði í dag, 16. janúar 2025, kl. 13.
Kalli var ekki aðeins sjentilmaður fram í fingurgóma, frjáls í fasi og glæsilegur á velli, heldur var hann skírður nafni sem hafði konunglegan blæ. En gælunafnið bar þó með sér ekki síðri þokka.
Í lífinu eignumst við marga samferðamenn, suma í stuttan tíma, aðra allt frá barnæsku. Þeir sem eru í kringum mann á yngri árum skilja eftir sig stærri spor og mesta lánið er að eiga kærleika þeirra ævina á enda. Ég hef þekkt Kalla frá því að ég man fyrst eftir mér, þá var hann rétt um tvítugt nýorðinn bílstjóri í Seðlabankanum. Fyrstu minningarnar eru eiginlega alveg eins og þær síðustu, hann alltaf kátur og uppátækjasamur, áhugasamur og kvikk, ræðinn og skemmtilegur. Við urðum strax perluvinir. Hann talaði við okkur smáfólkið eins og jafningja, hvatti og tók utan um okkur, hvert á eigin forsendum. Og við svöruðum eins á móti.
Kalli var forvitinn, las mikið og hafði gaman af því að ferðast og kanna ný lönd. Hann hafði næmt auga, drátthagur og flinkur ljósmyndari. Reglulega sendi hann mér myndir úr stóra safninu sínu frá því í gamla daga sem varðveitti óvæntar svipmyndir og einstök augnablik úr hversdagslífinu sem oft gleymist að fanga. Myndir af okkur krökkunum í einni kös, í boltaleik á stéttinni, í eldhúsinu hjá þeim Grétu, í göngutúr uppi í sveit eða í veiðitúr í Svarthöfða með fjölskyldunni. Og þegar mynd barst gátum við í leiðinni spurt nýjustu frétta.
Selma Lagerlöf sagði einhvers staðar að ekkert á jörðinni gæti bætt þann skaða að missa þann sem hefur þótt vænt um þig – og mér verður oft hugsað til þeirra orða þegar kærleiksríka fólkið í lífinu kveður, eins og Kalli núna. Hann sýndi foreldrum mínum ævarandi tryggð og var einstakur vinur okkar allra en allra mest þó mömmu. Milli þeirra var sérstakur strengur sem aldrei brast.
Þegar Kalli var nefndur var Gréta aldrei langt undan – og það var honum líkt að hann léti hana ekki bíða lengi eftir sér handan móðunnar miklu.
Guðrún Nordal.
Allt frá því ég man eftir mér hefur Kalli verið órjúfanlegur hluti af tilverunni og traustur vinur. Ég held raunar að ein af mínum fyrstu minningum sé tengd Kalla. Hann gerði það oft að leik að henda mér upp í loft fyrir framan aðaldyrnar heima, og ég sveif svo hátt að stundum sá ég vel yfir skyggnið yfir dyrunum, mér til ómældrar skemmtunar. Ég var nokkurra ára og létt eins og fis. Hann greip mig af öryggi og ég skríkti af gleði.
Kalli hóf störf hjá Seðlabankanum ungur að árum og varð bílstjóri bankastjóranna nokkru síðar. Hann varð með tímanum einn af nánustu vinum foreldra minna, daglegur heimagangur, og við krakkarnir hændumst að honum. Þær voru ótaldar ferðirnar í bílnum með Kalla, þegar hann var í erindum fyrir foreldra mína, hvort sem var í bænum eða á ferðum út á land. Og ferðir og heimsóknir náðu fljótt út fyrir starf hans í bankanum, með konu hans Grétu og dætrum þeirra Auði og Soffíu Björk sem voru á sama aldri og yngri systur mínar Ólöf og Marta.
Kalli var óvenju glæsilegur maður, dökkur yfirlitum, hár og grannur en umfram allt hafði hann ríka mannkosti. Hann var einstakt prúðmenni, vandaður og lipur í samskiptum við alla. Sem vinur var hann traustur, hlýr, greiðvikinn og léttur í lund. Kalli var stálminnugur og sagði skemmtilega frá enda hafði hann kynnst mörgum á lífsleiðinni, var hafsjór fróðleiks og fundvís á hið einstaka í fari fólks. Hann hafði mikinn áhuga á mannlífi fyrri alda, las mikið og þekkti landið vel.
Hann teiknaði og málaði, en teikningar hans af gömlum húsum og götumyndum bera merki áhuga hans á gömlum tíma og sýna jafnframt mikið listfengi, natni og auga fyrir því smáa.
Þótt Kalli ætti mjög gott með að umgangast alla, og hefði á sinn hátt áhuga á fólki og ekki síst kynlegum kvistum, var hann í raun hlédrægur og flíkaði ekki eigin tilfinningum. Fólkið hans og nánir vinir voru honum allt. Þetta kom vel fram í því hvernig hann annaðist Grétu til hinstu stundar, en hún lést fyrr á síðasta ári. Veikindum sínum tók hann af fádæma æðruleysi og innri styrk.
Í síðasta samtali okkar nokkrum dögum fyrir jól bar ég upp þá bón að ég færi með honum í bænastund í klaustrið í Hafnarfirði einhvern morguninn, en ég vissi að þar væri hann tíður gestur. Hann tók bón minni vel og við sammæltumst um að við myndum láta verða af því strax og hann væri aðeins hressari, vonandi milli jóla og nýárs. „Ég kem og sæki þig“ sagði Kalli en ég benti honum á það væri væri talsverður snúningur, og eðlilegra væri að ég kæmi við hjá honum í leiðinni – og ég hugsaði jafnframt að það væri nú aldeilis kominn tími til að keyra Kalla. Hann hló létt og sagði „jú við skulum þá hafa það þannig“. Af þessari ferð varð ekki, það átti ekki fyrir mér að liggja að snúast með Kalla. Ég kveð Kalla með djúpum söknuði og þakklæti fyrir allt sem hann gerði fyrir mig, syni mína, foreldra og allt mitt fólk. Með honum er gengin mikilvæg tenging við æskuheimilið og tryggur vinur okkar allra.
Salvör Nordal.
Í október 1956 svaraði fjórtán ára drengur auglýsingu í blaði þar sem óskað var eftir sendisveini. Drengurinn hét Karl Smith og auglýsandinn var Landsbankinn. Karl var ráðinn á staðnum og hóf vinnu daginn eftir. Á þessum tíma var Seðlabankinn aðeins deild í Landsbankanum en við aðskilnað stofnananna 1961 fylgdi Karl Seðlabankahlutanum. Þetta var fyrsta og síðasta atvinnuauglýsingin sem hann svaraði. Karl átti eftir að starfa óslitið hjá bankanum til ársins 2012.
Ef hægt væri að lýsa störfum Karls fyrir bankann, þá er það „alt-mulig-man“. Hann var maðurinn sem sá um að allt gengi upp. En hans er þó helst minnst fyrir að vera nánasti samverkamaður bankastjóra Seðlabankans í flestu sem þeir tóku sér fyrir hendur, hvort sem það var að aka á milli staða, redda málum eða reka trúnaðarerindi. Karl sinnti einnig erlendum gestum og stóð sig ávallt óaðfinnanlega.
Karl var einstaklega kurteis, greiðvikinn og trúr því sem honum var treyst fyrir. Hann var hár og myndarlegur maður, sem bauð af sér góðan þokka – mikill selskapsmaður og sagði skemmtilega frá. Hann var eiginlega íslensk útgáfa af breskum bryta. Hann gat einnig leitt samræður við hvern sem var og um hin aðskiljanlegustu málefni. Jú – ef því var að skipta – hefði hann getað brugðið sér í hlutverk hins enska sjentilmanns, og einnig staðið sig óaðfinnanlega.
Ég átti oft gott spjall við Karl á viðburðum bankans. Hann keyrði gjarnan Jóhannes Nordal til mín – svo við hittumst reglulega. Þá vorum við í bréfaskriftum og hann sendi mér gamlar myndir og margt fleira. Ég sá strax að hann var fróðleiksnáma um sögu bankans – og þá einkum um forvera mína, seðlabankastjórana. Enda hafði hann þjónað þeim öllum af trúmennsku allt frá Vilhjálmi Þór til Más Guðmundssonar. Hann talaði um bankastjórana sem vini sína og var ákaflega umtalsgóður. Ég hafði séð fyrir mér að láta Karl setjast niður í góðu tómi fyrir framan upptökutæki og biðja hann að lýsa persónum og leikendum í þá hartnær sex áratugi sem hann vann fyrir bankann. En því var því miður ekki komið í verk áður en Karl lagði í ferðina löngu. Ég harma það mjög núna.
Karl var listhneigður og málaði í frístundum. Hann gaf mér – ekki löngu fyrir andlátið – olíumálverk þar sem hann hafði tekið mótív af fjallahringnum í Norðurárdal í Skagafirði. Í myndinni sést að fjallið er í raun og veru huldufólkskirkja. Mér þykir vænt um þessa mynd – hún endurspeglar hina gömlu, lifandi íslensku náttúrusýn. Karl sagði sjálfur að hún væri „alíslensk fantasía“. Karl Smith hefði getað átt feril sem myndlistarmaður – kannski ef hann hefði sleppt því að svara atvinnuauglýsingu Seðlabankans.
Nú nokkrum vikum fyrir brottför Karls ritaði hann eftirfarandi netskilaboð til mín: „Skrýtið er það, dreymir nánast á hverri nóttu, þá er ég að stússast fyrir bankann, Jóhannes Nordal og alla hina, undirbúa veislu og ferðalög. Það er eins og ég sé enn í fullri vinnu á næturnar. Kannski ekki skrýtið eftir 56 ár …“ Mér finnst skilaboðin lýsa Karli vel – hvað hann var vakinn og sofinn í þjónustu bankans. Og þessi draumur var líklega fyrirboði þess sem var í vændum.
Seðlabankinn hefur stóran efnahagsreikning en mikilvægasta eignin kemur þó ekki fram þar. Það er hinn mikli mannauður sem bankinn hefur notið frá stofnun. Einkum þó hin mikla tryggð sem starfsfólkið hefur bundið við hann. Þessu hef ég kynnst vel sjálfur. Starfsfólkið er ávallt tilbúið að gera sitt besta fyrir bankann og aðeins betur ef það er það sem þarf. Fyrir það er ég ávallt fullur þakklætis. Karl Smith helgaði Seðlabankanum líf sitt og ég vil gjarnan færa honum kærar þakkir fyrir það fyrir hönd bankans. Ásamt því að þakka honum góða viðkynningu, sem ég hefði svo gjarnan viljað að væri lengri og ítarlegri. Blessuð sé minning Karls Smith.
Ásgeir Jónsson.
Karl Gústaf Smith, eða Kalli eins og hann var alltaf kallaður í Seðlabankanum, var farsæll og vandaður maður. Hann var einn af þeim sem komu úr Landsbankanum þegar Seðlabanki Íslands hóf starfsemi sem sjálfstæð stofnun vorið 1961. Hann var þá aðeins nítján ára og hafði hafið störf í Landsbankanum tæpum fimm árum fyrr. Fljótlega varð það mikilvægur hluti af starfi hans að vera bílstjóri seðlabankastjóranna og sjá um ýmsa aðra þjónustu fyrir þá vegna viðburða og erlendra gesta. Hann var talinn góður í þessu og seðlabankastjórarnir voru ánægðir. Þar hjálpaði örugglega til þægilegur persónuleiki, séntilmannlegt fas og hæfileiki til að umgangast jafnt háa sem lága.
Kalli hafði gott minni og sagði mér margar áhugaverðar sögur af ferlinum. Þær voru allar í góðum tón því hann var einn af þeim sem töluðu yfirleitt ekki illa um aðra. Eina læt ég fylgja hér sem segir líka töluvert um Kalla sem þurfti ekki að bíða eftir fyrirskipunum til að leysa mál. Þannig var að Kalli beið eitt sinn á bíl bankans eftir því að Jóhannes og Dóra kæmu út af frumsýningu í Þjóðleikhúsinu. Það var rigning og hráslagi og sumir áttu erfitt með að ná leigubíl. Meðal þeirra sá hann Jónas frá Hriflu og eiginkonu hans. Kalli var snöggur að bjóða þeim far heim og var kominn aftur í tæka tíð þegar Jóhannes og Dóra komu út. Ekkert sagði hann Jóhannesi sem daginn eftir hafði orð á því að hann hefði fengið undarlega kveðju frá Jónasi með þökkum fyrir liðlegheitin!
Kynni mín af Kalla urðu fyrst veruleg eftir að ég kom til baka úr fjármálaráðuneytinu í Seðlabankann á árinu 1991 og enn frekar eftir að ég varð aðalhagfræðingur 1994. Því fylgdi stundum þátttaka í viðburðum þar sem Kalli var allsherjar hjálparkokkur. Ekki skorti hann liðlegheitin við að aðstoða, eins og þegar taska fór til Parísar sem ég hafði tékkað inn í innanlandsflug til Akureyrar þar sem átti sér stað norrænn seðlabankastjórafundur, eða þegar okkur Elsu var eitt sinn boðið í veiðiferð bankastjórnar og mættum á fólksbíl! Þegar við komum svo aftur í ágúst 2009 eftir fimm ára dvöl í Basel var Kalli enn á sínum stað og kynnin við hann og Grétu urðu nú enn nánari. Það var að vísu orðið stutt í að Kalli færi á eftirlaun en sambandið rofnaði ekki við það m.a. vegna þess að þau Kalli voru dugleg að sækja samkomur fyrir fyrrverandi starfsfólk. Á einni slíkri var Kalli aðalræðumaður og fórst það vel úr hendi. Sambandið hélst svo eftir að ég lauk sjálfur störfum í bankanum 2019 þótt kórónuveiran hafi um hríð sett strik í reikninginn. Það voru margir þræðir í Kalla. Hann var virkur í starfi kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, málaði myndir og rifjaði upp þætti í sögu Seðlabankans. Áður en ég hætti í bankanum var frásögn hans af ýmsu úr sögu bankans hljóðrituð. Hann var hins vegar hvergi nærri tæmdur og nú má iðrast þess að ekki var betur ausið.
Við Elsa vottum dætrum Kalla og afkomendum þeirra samúð okkar og kveðjum einstakan mann.
Már Guðmundsson.